Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 15:53:47 (6127)

1996-05-15 15:53:47# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÁE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[15:53]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hv. formaður efh.- og viðskn. sá ekkert að málinu og greiddi því atkvæði að málið gengi áfram í þingsölum. Það verður að spyrja sig við slíkar aðstæður hvar hann og aðrir stjórnarþingmenn hafa verið. Það liggja fyrir mótmæli gegn þessu frv., ekki einungis frá okkur stjórnarandstöðuþingmönnum heldur allri launþegahreyfingunni. Það er ekkert gert með þessi sjónarmið. Það er ekkert tillit tekið til umsagna allra stéttarfélaganna sem sendu þær til nefndarinnar. Stefna stjórnvalda með frv. liggur hins vegar ljós fyrir. Hún liggur einnig ljós fyrir með frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er augljóst hverra erinda ríkisstjórnin er að ganga við þessa löggjöf. Hún er að ganga erinda vinnuveitenda til að skapa þeim betri tækifæri við næstu kjarasamninga. Það er augljóst að samþykkt þessa frv. kallar á stríð í þjóðfélagi okkar. Það er miður en það er brýnt að barátta gegn frumvörpunum haldi áfram. Það er að tapast orrusta í dag. Það er augljóst. Við urðum undir með málflutning okkar en stríðið er ekki tapað. Ég segi nei.