Upplýsingalög

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 16:38:10 (6140)

1996-05-15 16:38:10# 120. lþ. 138.10 fundur 361. mál: #A upplýsingalög# frv. 50/1996, Frsm. VS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[16:38]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 899 frá hv. allshn. um frv. til upplýsingalaga.

Nefndin hefur fjallað um málið á nokkrum fundum og fengið Eirík Tómasson prófessor og Pál Hreinsson, aðstoðarmann umboðsmanns Alþingis, til að fara yfir frumvarpið með sér. Einnig komu á fund nefndarinnar Lúðvík Geirsson, Pétur Gunnarsson og Þór Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Blaðamannafélagi Íslands, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki -- félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, Lögmannafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Neytendasamtökunum og Vinnumálasambandinu.

Með frumvarpinu er stefnt að því að lögleiða almennar reglur um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Gert er ráð fyrir að aðgangur almennings að gögnum verði rýmkaður frá því sem nú er þar sem tekin verði upp sú meginregla í íslensk lög að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál.

Í umsögn Blaðamannafélags Íslands er gerð athugasemd við það að lögunum sé ekki ætlað að ná til rannsóknar eða saksóknar í opinberum málum. Nefndin telur eðlilegra að lög um meðferð opinberra mála hafi að geyma sérreglur í þessu sambandi og leggur áherslu á að sú endurskoðun sem dómsmálaráðherra hefur boðað á þeim lögum verði hraðað eins og kostur er. Nauðsynlegt er að huga sérstaklega að upplýsingaréttinum þar.

Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna, þar með talið vegna fjárhagslegra hagsmuna einstaklinga. Í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins kemur fram að ákvæði greinarinnar standi ekki í vegi fyrir því að almenningur fái aðgang að gögnum um föst laun og önnur föst launakjör opinberra starfsmanna. Að því leyti sem slík upplýsingagjöf fellur undir ákvæði frumvarps þessa en ekki ákvæða laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, leggur nefndin sérstaka áherslu á að skýra beri ákvæði 5. gr. svo að með lögum þessum sé ekki aðeins tryggður aðgangur að upplýsingum um föst laun opinberra starfsmanna heldur einnig að þeim einstaklingsbundnu samningum sem gerðir hafa verið við starfsmenn um önnur föst kjör þeirra, svo sem fasta (ómælda) yfirvinnu, akstursgjald o.fl.

Miklar umræður urðu í nefndinni um 8. gr. frumvarpsins. Skv. 2. mgr. 8. gr. á almenningur að fá aðgang að upplýsingum um einkamálefni einstaklinga 80 árum eftir að þær upplýsingar urðu til. Nefndin leggur til, sbr. breytingartillögu á sérstöku þingskjali, að sjúkraskrár og skýrslur sálfræðinga eða félagsráðgjafa verði undanþegnar slíkum aðgangi. Það er mat nefndarinnar að hér sé um að ræða svo viðkvæmar persónuupplýsingar að rétt sé að undanþiggja þær óheftum aðgangi almennings. Aftur á móti er kveðið á um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál sé heimilt að veita aðgang að slíkum skýrslum og sjúkraskrám til rannsókna eftir að þær hafa verið afhentar skjalasafni. Veiti nefndin slíkt leyfi er henni heimilt að binda það þeim skilyrðum sem hún metur nauðsynleg hverju sinni, svo sem að gætt sé þagmælsku og að niðurstöður séu ekki birtar undir nafni þeirra einstaklinga er upplýsingar varða eða á annan sambærilegan hátt.

Það er skilningur nefndarinnar á ákvæði 11. gr. að meginreglan hljóti að verða sú að gögn séu afhent samdægurs eða a.m.k. sem allra fyrst. Sjö daga fresturinn eigi því fyrst og fremst við í vafatilvikum, þ.e. þegar ekki er ljóst hvort afhenda megi gögnin og stjórnvald þarf lengri frest til að leita af sér allan grun í því sambandi.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði afgreitt með þeirri breytingu sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Ljóst er að hér er á ferðinni mál sem mikilvægt er að kynnt verði sem rækilegast áður en lögin taka gildi. Í því sambandi er ekki síst mikilvægt að forsætisráðuneytið beiti sér fyrir því að haldin verði námskeið fyrir þá sem ætlað er að starfa eftir lögunum, þ.e. starfsfólk stjórnsýslunnar, þar sem farið verði vandlega yfir efni laganna og tilgang þeirra.

Jóhanna Sigurðardóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita auk þeirrar sem hér stendur Sólveig Pétursdóttir formaður, Sighvatur Björgvinsson, Hjálmar Jónsson, Árni R. Árnason, Jón Kristjánsson og Kristján Pálsson. Ögmundur Jónasson ritar undir með fyrirvara og Guðný Guðbjörnsdóttir einnig með fyrirvara.