Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 11:16:12 (6158)

1996-05-17 11:16:12# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, VE
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[11:16]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Ég skrifaði undir nál. sjútvn. með fyrirvara. Ég er sáttur við allar þær brtt. sem hv. formaður rakti áðan og tel að málið hafi batnað mikið við þær. Síðan er þarna eitt mál sem mér finnst að standi út af sem ég flyt hér brtt. um. Það er að í 6. gr. frv. er það fyrirkomulag sett fram varðandi landanir úr vinnsluskipum að ,,þegar sérstaklega stendur á t.d. vegna alvarlegrar vélarbilunar, getur Fiskistofa heimilað að skip sem vinna afla um borð landi erlendis. Skal slíkt leyfi bundið því skilyrði að útgerð skipsins greiði kostnað vegna ferðar eftirlitsmanns til að fylgjast með löndun úr skipinu erlendis eða kostnað vegna annarra sambærilegra eftirlitsaðgerða sem Fiskistofa telur nauðsynlegar.``

Þetta ákvæði hefur verið túlkað mjög þröngt og staðan er sú að frystitogari hefur nánast þurft að vera í því ástandi að hann sé dreginn til hafnar erlendis í viðgerð til þess að það væri hægt að landa úr honum þar. Þegar öðruvísi hefur staðið á hefur það verið algjörlega fortakslaust að frystitogari hefur þurft að landa afla sínum hér heima. Ég hefði talið eðlilegt ef frystitogari hefur t.d. samið um það að fara í slipp erlendis að hann þyrfti ekki að landa hér heima. Hann ætti að geta farið með fiskinn og landað honum erlendis þar sem hann er t.d. að fara í slipp og gert það eðlilega. Það getur ekki verið neinum í hag að frystitogarinn þurfi fyrst að landa hér heima og kosta síðan eitthvað á aðra milljón í frakt undir farminn og fraktskipið er jafnvel að sigla rétt á undan eða rétt á eftir togaranum í þessu tilviki. Mér finnst einfaldlega ekki eðlilegt að þannig sé gengið frá löggjöf og mér finnst að ekki hægt að láta það spyrjast um mig að ég samþykki þetta þannig að minnsta kosti án þess að gera heiðarlega tilraun til þess að fá því breytt á hinu háa Alþingi.