Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:11:27 (6163)

1996-05-17 12:11:27# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:11]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. og formanni sjútvn. að efni þeirrar breytingartillögu sem ég lagði fram var rædd í nefndinni og fékkst ekki fylgi við hana þar. Það kemur hins vegar mjög skýrt fram hjá hv. þm. sem lýsir líka þeim umræðum sem áttu sér stað að þessi löndunarkvöð sem er sett á íslensk fiskiskip snýst ekki um umgengni um nytjastofna sjávar. Hún snýst kannski meira um umgengni við aðrar atvinnugreinar. Mér finnst það vera mjög umhugsunarvert að kvaðir skuli vera lagðar á íslenskan sjávarútveg sem eru þess eðlis. Það liggur að sjálfsögðu fyrir að þetta er einungis eitt form eða ígildi auðlindaskatts á íslenskan sjávarútveg. Það getur að sjálfsögðu verið að það hafi einhvern tíma verið þörf á því að vera með slíkar kvaðir en ég hygg að eftir því sem árin hafi liðið hafi fiskvinnslan orðið samkeppnishæfari, eins skipasmíðaiðnaðurinn, og þjónustuaðilar við sjávarútveginn hafi orðið samkeppnishæfari en þessar greinar voru áður. Þörfin fyrir þessa kvöð fer því minnkandi. Varðandi frystitogarana og það hvort þeir megi landa erlendis þegar þeir eru búnir að semja um það að fara í slipp þá sé ekki að nein sérstök hætta sé af því búin fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað. Mér finnst hins vegar það viðhorf ekki gott sem kemur fram í því að ef hagnaður er í þessari grein, þá sé sjálfsagt að setja alls konar pinkla og kvaðir á starfsemina sem eykur kostnað hennar.