Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:20:02 (6167)

1996-05-17 12:20:02# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:20]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég taldi hafa komið mjög skýrt fram í ræðu minni áðan var tilgangur minn með flutningi þessarar litlu brtt. einn, þ.e. að vekja athygli á því að þarna væri um mikið ósamræmi að ræða. Enda þó að ég styðji þetta frv. heils hugar og viti að það er mjög til bóta vil ég vekja athygli á því að það tekur ekki á aðalvandamálinu sem verið er að fást við en það er sóunin sem kerfið hefur í för með sér. Það er sóunin sem við vitum öll að er gríðarleg. Ástæðan fyrir brottkasti fisks er kannski ekki ein, kannski ekki tvær heldur margar. Eigi að síður er ég sannfærður um að aflamarkskerfið er einn af hinum stóru þáttum, ég veit að kerfið sjálft er að orsaka þessa sóun. Ég ætla ekki að taka undir með hæstv. sjútvrh. að þessi brot á fiskveiðistjórnunarkerfinu séu með allra alvarlegustu efnahagsglæpum. Ég er samt alveg viss um að brottkastið, sem á sér nú stað á Íslandsmiðum, er allra alvarlegasta sóun sem við nokkurn tíma höfum komist í tæri við. Eins og ég lít á málið er hér um sóun að ræða sem getur numið þó nokkrum milljörðum króna í útflutningsverðmæti á ári og þess vegna er höfuðnauðsyn að allir komi að því máli að finna hvernig við megum breyta þessu og hvernig við getum komið í veg fyrir það. Þá er fyrst og fremst um að ræða sjútvrn. og hæstv. sjútvrh., Alþingi Íslendinga og sjútvn., svo og aðilana sem fást við þetta, sjómenn landsins og þá útvegsmenn landsins ef þeir eru þá tilbúnir til þess að horfast í augu við að þetta er staðreynd. Ég ætla að vonast til þess að þrátt fyrir það að við samþykkjum þetta ágæta frv. verði öllum mönnum ljóst að það verður ekki hjá því hvikað að við verðum að takast á við þetta vandamál, verðum að leggja okkur öll fram um það. Það er meira atriði að gera þetta en að einbeita sér að refsingum. Það er röng áhersla, herra forseti.