Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:37:38 (6171)

1996-05-17 12:37:38# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:37]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að það hefur verið leitast við að hluta til að leiðrétta frv. Til dæmis með því að hafa ekki fortakslaust ákvæði um að það sé leyfilegt að henda afskurði heldur sé það sett með reglugerð og farið varlega með þær heimildir.

Varðandi það ákvæði að heimilt sé að varpa fyrir borð fisktegundum sem ekki sæta takmörkunum í leyfilegum heildarafla get ég ekki séð neinar forsendur fyrir því að hafa það þarna inni. Í flestum tilfellum er um frekar lítinn hluta af heildarveiðinni að ræða. Þær tegundir sem menn eru að fá aukalega þvælast venjulega inn á slóðir þar sem þær eru ekki venjulega. Menn geta sótt sértegundir eða aukategundir á aðrar veiðislóðir þar sem þær eru frekar. Menn vita nokkurn veginn hvað þeir eru að veiða þar sem þeir eru hverju sinni. Það er því alger óþarfi að hafa þetta ákvæði þarna inni enda eru fiskmarkaðir í dag mjög þróaðir í því að hafa samband og koma tegundum í verð sem ekki hafa verið nýttar áður. Ég tel að það sé full ástæða til að treysta fiskmörkuðunum til að koma þessum fisktegundum á framfæri og hvetja frekar en letja veiðimenn til að koma með þær að landi. Það kemur ekki til með að eyðileggja neitt. Það pláss sem fer í þetta er sáralítið hjá skipunum og þess vegna þeim ekki til trafala. Þetta er þeim frekar til framdráttar og mun auka þróun í vinnslu og nýtingu þess afla sem fæst á Íslandsmiðum.