Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:50:24 (6173)

1996-05-17 12:50:24# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, Frsm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:50]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við tilmælum um að reyna að skýra ákvæði 25. gr. eftir því sem ég er í færum til þess. Það að þetta skuli vera svona orðað í frv. að greinin þarfnist ekki skýringa vísar kannski meira til þess að það er fjallað um refsiákvæðin í umsögn um 24. gr. og síðan er væntanlega litið svo á að fullnægjandi skýringar hafi verið gefnar þar gagnvart 25. og 26. gr. Í umsögn um frumvarpsdrögin sem komu frá nefndinni á sínum tíma voru gefnar skýringar á einstökum greinum. Þar segir um 26. gr. í því frv., sem er sambærileg við 25. gr. í þessu ef ég hef farið rétt yfir, að sektir megi gera jafnt lögaðila sem einstaklingi og þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 25. gr. megi ákvarða lögaðila sekt þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra einstaklinga. Hugsunin sem gengur í gegnum þessi refsiákvæði er sú að unnt sé að sekta hvoru tveggja, lögaðilann sem slíkan og síðan einstakling ef einstaklingur brýtur af sér en það sé jafnframt hægt að sekta lögaðilann þó að sök sannist ekki á neinn tiltekinn starfsmann, hvorki forsvarsmenn eða einhvern tiltekinn starfsmann. Þetta lýtur kannski að nokkru leyti að því hvers eðlis þessi brot eru. Ef tilraunir eru í gangi til auðgunarbrota eða til þess að hagnast t.d. á því að vigta ekki afla eða eitthvað því um líkt getur verið afar erfitt að sanna hver var nákvæmlega sökudólgurinn í hverju einstöku tilviki en brotið getur falið það í sér að lögaðilinn hagnist og honum er þá gerð sektin. (LB: Já, það er skýringin.) Þannig er væntanlega hugsunin og að öðru leyti verð ég að vísa til þess að sérstakir sérfræðingar í refsiákvæðum sömdu þessi ákvæði frv. að beiðni nefndarinnar á sínum tíma. Sjútvn. fór yfir þessi ákvæði en treysti því að öðru leyti að það væru réttar upplýsingar að þarna væri á ferðinni sambærilegur frágangur á málinu og við ætti í hliðstæðum tilvikum.

Ég er ekki í færum til að gefa á þessu frekari skýringar, því miður, og yrði þá að afla þeirra sérstaklega ef óskað er eftir.