Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:54:20 (6175)

1996-05-17 12:54:20# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, Frsm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:54]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við verðum að treysta því að með þessi ákvæði verði farið af skynsemi af stjórnvöldum og dómstólum ef til kæmi. Ég held að reglan sé ekki hugsuð þannig að menn verði teknir og sektaðir fyrir brot sem hugsanlega hafi orðið heldur sé um það að ræða ef brot sannast. En takist á hinn bóginn ekki að rekja það til neins einstaks starfsmanns, hvorki forsvarsmanns viðkomandi fyrirtækis (LB: Þá verður að ná í einhvern.) né einstaks starfsmanns, þá má gera lögaðilanum sem slíkum sem hagnast á brotinu sekt. (Gripið fram í.) Ég held að það sé alveg augljóst mál að í framkvæmdinni yrði enginn einstaklingur sektaður eða engum einstaklingi refsað (LB: Það er kveðið á um það í lögunum.) Nei, ég er ósammála þeirri túlkun. Ég held að það liggi alveg gersamlega í hlutarins eðli að afleiðingin yrði sú að þá fengi viðkomandi lögaðili sekt sem hagnaðist á brotinu. Ég er að segja að það liggur svolítið í eðli þessara mála að ef sannað þykir að fyrirtækið sé að selja meiri afurðir eða eitthvað en nemur þeim afla sem þar var inn veginn og sannað að um brot er að ræða og nokkuð ljóst hvað það er umfangsmikið o.s.frv., en hins vegar ekki hægt að sanna þátttöku í brotinu á neinn einstakan starfsmann sérstaklega eða draga einhvern einn öðrum fremur til ábyrgðar á því, þá falli málið ekki niður heldur sé þá hægt að gera lögaðilanum sektina. Þannig hef ég skilið þetta og vona að það sé rétt.