Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:57:35 (6177)

1996-05-17 12:57:35# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:57]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um umgengni við auðlindir sjávar og vil ég sem áheyrnaraðili í hv. sjútvn. segja nokkur orð um frv. Ég vil byrja á því að vekja athygli á upphafi greinargerðarinnar með frv. en þar segir:

,,Auðlindir sjávar eru sameign þjóðarinnar sem verður að nýta þannig að þær gefi sem mestan arð. Tæp 80% af útflutningstekjum Íslendinga eru af sjávarafurðum.``

Undir þetta ákvæði og þessi orð í greinargerðinni tek ég að sjálfsögðu heils hugar. Ég vek athygli á þessu vegna þess að þegar lögunum um stjórn fiskveiða hefur verið breytt að undanförnu, bæði á þessu þingi og á síðasta vorþingi er eins og þetta ákvæði sé ekki til og sama á við um frv. um úthafsveiðar sem hefur nýlega verið lagt fram. Af þessum frumvörpum og af þessum breytingum á fiskveiðistjórnunarlögunum mætti ætla að það væri ekki þjóðin sem ætti veiðiheimildirnar heldur þeir sem hafa veiðireynslu og fá árlega úthlutað aflakvóta.

Lögð er áhersla á þessi orð í greinargerðinni á meðan það eru ekki hagsmunir kvótaeigenda sem eru í húfi. Það á ekkert að skerða þá með þessu, nei, ef eitthvað er, er útlit fyrir að þetta frv. hafi í för með sér aukinn kostnað sem gæti fallið í ríkissjóð og þá er auðvitað sjálfsagt að minna þjóðina á að það er hún sem á auðlindina en ekki kvótakóngarnir.

[13:00]

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson benti áðan í umræðunni jafnframt á að það væri varla réttlætanlegt að hvetja útgerðina til að landa afla hér á landi. Kannski er réttlætanlegt að ganga svo langt að gefa kvótaeigendunum nytjastofnana og leyfa þeim að fara með þá úr landi! Þessu er ég að sjálfsögðu gjörsamlega ósammála og vildi vekja á því athygli áður en ég kem að umræðu um efni frv.

Þetta frv. er tilraun til að bæta umgengni við nytjastofna sjávarins. Hún er í sjálfu sér virðingarverð en mun þó alls ekki koma í veg fyrir einn alvarlegasta fylgifisk aflamarkskerfisins, nefnilega brottkastið, eins og vel hefur komið fram í þessari umræðu. Brottkastið er ekki bara sóun eins og hér hefur komið fram heldur er það einnig vandamál sem kemur í veg fyrir að það sé hægt að nota þetta kerfi við skynsamlega stjórnun fiskveiða. Að mínu mati er brottkast einn alvarlegasti fylgifiskur aflamarkskerfisins og það er mjög erfitt að taka á því. Ég get alls ekki séð að hér sé nein alvarleg tilraun gerð til að taka á brottkasti.

Við kvennalistakonur munum að sjálfsögðu styðja þetta frv. (Gripið fram í: Af hverju að sjálfsögðu?) Vegna þess að það er margt mjög jákvætt í því og ég mun auðvitað hvetja til góðrar umgengni um auðlindir sjávar (Gripið fram í: Er það femínismi?) Ég tel að langflestar breytingartillögur hv. sjútvn. séu til bóta en ég vil þó undanþiggja breytingartillöguna sem meiri hluti nefndarinnar gerir varðandi 4. gr. frv. Mér virðist birtast ákveðin tilslökun í breytingartillögu sjútvn. varðandi þá grein. Þó get ég tekið undir það að líklega er greinin framkvæmanleg eins og hún er orðuð samkvæmt þeirri breytingartillögu. Og hún hefði varla verið það eins og hún var orðuð í upphaflega frv.

Ég tel þær hugmyndir sem Pétur H. Blöndal setti fram varðandi breytingu á 4. gr. vera athyglisverðar, ekki síst vegna hugsunarinnar sem þar kom fram, nefnilega að tilgangurinn var að ef allur afli kæmi að landi þá væri hægt að upplýsa um allan veiddan afla. Það tel ég ákaflega mikilvægt til að við getum stjórnað þessu kerfi almennilega og einnig síðara markmiðið að þar með mætti líta á þetta sem tekjuöflun fyrir Hafrannsóknastofnun eða til sjávarrannsókna. Hins vegar tel ég mjög ólíklegt að tillaga hans sé framkvæmanleg af þeirri einföldu ástæðu að ekki átti að umbuna viðkomandi skipum fyrir að koma með þennan afla að landi. Ég er alls ekki fylgjandi því. En í því liggur meginmótsögnin. Þar með verður þetta brottkast aldrei lagað eða mjög seint lagað. Ég tel að þetta frv. muni alls ekki duga til þess og að þetta vandamál sé í raun og veru svo til óleysanlegt eins og ég sé það núna á meðan aflamarkskerfið er við lýði.

Ég tel að það ríki mjög mikill tvískinnungur varðandi það hvernig á að taka á brottkasti. Það er t.d. mjög umhugsunarvert hvers vegna ekki liggja fyrir nú þegar ítarlegar rannsóknir á brottkasti. Hvers vegna hefur ekki Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa eða jafnvel frjálsir vísindamenn reynt að beita aðferðum þar sem trúnaðar yrði að sjálfsögðu gætt til að rannsaka þetta fyrirbæri alvarlega? Við höfum í sjútvn. fengið upplýsingar sem eru mjög ískyggilegar um hvað brottkast er mikið. Reyndar stangast upplýsingar á. Ég vil eindregið hvetja þá sem stunda rannsóknir í sjávarútvegi til að taka þetta vandamál alvarlega og rannsaka það til hlítar.

Ég vil aðeins stuttlega koma að breytingartillögum þeim sem hér hafa verið lagðar fram. Ég legg til að tillaga hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar verði felld þar sem ég tel mjög mikilvægt að brot á þessum lögum séu talin jafnalvarleg og önnur efnahagsbrot eins og fram hefur komið í þessari umræðu. Einnig legg ég til að breytingartillaga frá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni verði felld og tek undir röksemdafærslu formanns sjútvn. varðandi það mál.