Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 14:11:27 (6183)

1996-05-17 14:11:27# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, Frsm. meiri hluta SF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[14:11]

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta félmn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Nefndarálitið er á þskj. 954 og meðfylgjandi breytingartillögur á þskj. 955.

Markmið frv. er að setja reglur um verklag og vinnubrögð við gerð kjarasamninga þar sem höfuðáhersla er lögð á sjálfstæði, frumkvæði og ábyrgð samningsaðila en þess jafnframt freistað að færa í skipulegra horf það viðræðuferli sem óhjákvæmilega verður að eiga sér stað sem undanfari hverra kjarasamninga.

Við það er miðað að samningsferlið hefjist fyrr og því ljúki fyrr en tíðkast hefur miðað við lausn samninga. Stefnt er þannig að samtímalausn kjarasamninga.

Félmn. hefur fjallað ítarlega um málið á alls 15 fundum sem einungis voru um þetta frv. Nefndinni bárust um 300 umsagnir um málið aðallega frá stéttarfélögunum og fékk hún á sinn fund upp undir 40 gesti, aðallega talsmenn stéttarfélaga, þ.e. samtaka aðila vinnumarkaðarins, sérfræðinga og hlutaðeigandi embættismenn til að fjalla um frv. Til að auðvelda umfjöllun málsins fékk nefndin Lagastofnun Háskóla Íslands til að semja lögfræðilegt álit á því hvort ákvæði frv. og framlagning þess bryti í bága við stjórnarskrá og þá þjóðréttarsamninga sem Ísland er aðili að.

Áður en vikið verður að breytingartillögum sem meiri hluti félmn. flytur við frv. er ástæða til þess að víkja almennt í upphafsorðum að nokkrum þáttum þessa máls. Varðandi þá gagnrýni að framlagning frv. brjóti í bága við stjórnarskrá og alþjóðasamninga er niðurstaða Lagastofnunar skýr. Höfundar álitsgerðar stofnunarinnar eru afdráttarlausir um þetta atriði. Þeir segja, með leyfi forseta:

,,Niðurstaða okkar er sú að með framlagningu frv. hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár eða alþjóðasáttmála.``

Í áliti Lagastofnunar koma fram nokkrar athugasemdir og ábendingar sem nefndin hefur fjallað um og tekið afstöðu til. Skipta má ábendingum Lagastofnunar í fernt. Lagastofnun gerir athugasemd við eitt atriði frv. og telur að það kunni að brjóta í bága við alþjóðasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 98, um samningafrelsi. Þetta atriði snertir miðlunartillögu ríkissáttasemjara og heimild hans til að láta hana ná til fleiri hópa sem eiga í kjaradeilu. Að þessu atriði verður komið síðar.

Í öðru lagi er um að ræða athugasemdir þar sem Lagastofnun tekur ekki undir með gagnrýnendum sem hafa haldið því fram að með tilteknum ákvæðum sé með ólögmætum hætti verið að hlutast til um innri mál stéttarfélaganna og það brjóti í bága við alþjóðasamþykktir. Þetta gildir t.d. um ákvæði frv. um samningsumboð og viðræðuáætlun.

Í þriðja lagi bendir Lagastofnun á efnistriði í frv. þar sem hún telur að ekki sé nægilega langt gengið í að fjölga kostum á myndun nýrra tegunda stéttarfélaga eða auka rétt einstaklinga gagnvart þeim. Þetta á við um ákvæði um vinnustaðarfélög og rétt til að standa utan stéttarfélaga.

Fjórða atriðið snertir ákvæði gildandi laga um stéttarfélög og vinnudeilur og laga um sáttastörf í vinnudeilum. Lagastofnun vekur á því athygli að nokkur atriði í gildandi lögum hafa verið gagnrýnd af stofnunum sem fylgjast með framkvæmd Íslands á alþjóðlegum skuldbindingum á sviði félags- og vinnumála. Þetta á við t.d. um einkarétt stéttarfélaga til að boða til verkfalls. Í öðru lagi vekur Lagastofnun athygli á því að skipan Félagsdóms kunni að brjóta í bága við mannréttindasáttmála Evrópu.

[14:15]

Í framhaldi af síðastnefndu ábendingum Lagastofnunar hefur meiri hluti félmn. orðið sammála um að ekki sé rétt að hrófla við venjum sem gilt hafa í samskiptum aðila vinnumarkaðarins á undanförnum áratugum eða breyta ákvæðum í gildandi lögum sem ekki var fjallað um í áfangaskýrslu samráðshóps félmrn. og helstu samtaka á vinnumarkaði sem birt er sem fskj. með frv. Þetta á eins og áður sagði við félagssvæði stéttarfélaga, forgangsrétt félagsmanna stéttarfélaga til vinnu og réttar til að standa utan stéttarfélaga og skipan Félagsdóms. Sum þessara atriða hafa staðið óbreytt í lögum án þess að fram hafi komið gagnrýni frá innlendum aðilum eða hlutaðeigandi alþjóðlegum stofnunum.

Skýrslan sem samráðshópur félmrn. gerði og skilaði 22. nóv. 1995 er grundvöllur þess lagafrv. sem hér er til umfjöllunar. Að þessu verður vikið nánar síðar.

Í umræðum á Alþingi og í þjóðfélaginu hefur því verið haldið fram að ekki hafi verið haft samráð við samtök aðila vinnumarkaðarins og þá einkum og sér í lagi við samtök launafólks við samningu frv. Þar sem mikið hefur verið gert úr þessu atriði er rétt að upplýsa um það samráð sem átti sér stað og það nokkuð ítarlega.

Hinn 4. október 1994 skipaði þáv. félmrh. vinnuhóp um samskiptareglur á vinnumarkaði. Í vinnuhópnum áttu sæti tveir fulltrúar ASÍ og einn fulltrúi frá eftirtöldum aðilum: Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, fjmrn., Vinnumálasambandinu og Vinnuveitendasambandi Íslands. Fjmrh. skipaði vinnuhópnum formann. Í skipunarbréfi kemur fram að vinnuhópnum er falið að kynna sér þróun samskiptareglna samtaka atvinnurekenda og launafólks í öðrum löndum og bera þróunina saman við stöðu mála hérlendis. Fyrir hópinn var lagt að taka saman skýrslu um niðurstöðuna af athugun sinni. Ef í ljós kæmi að breyta þyrfti íslenskri löggjöf var hópnum falið að setja fram tillögur um það efni.

Á fyrstu fundum vinnuhópsins áttu sér stað almennar umræður um samskiptareglur aðila vinnumarkaðarins á Íslandi. Í framhaldi af þeim var talin ástæða til að taka til sérstakrar athugunar reglur um gerð kjarasamninga og vinnustöðvun. Hefur víða verið leitað fanga um heimildir til samanburðar í þessu efni. Meðal annars áttu fulltrúar félmrn. og ASÍ og VSÍ fund með fulltrúum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf sl. sumar. Fram hefur komið að samræming á reglum sem gilda á almennum og opinberum vinnumarkaði var meðal markmiða sem að var stefnt.

Hinn 22. nóvember 1995 skilaði vinnuhópurinn félmrh. áfangaskýrslu sem ber heitið Samskiptareglur á vinnumarkaði. Með skýrslunni gerir hópurinn grein fyrir nýjum hugmyndum í sambandi við undirbúning og gerð kjarasamninga og leggur áherslu á umfjöllun um leiðir til þess að kjaraviðræður verði markvissari og styttri. Hópurinn telur mikilvægt að hugmyndirnar fái sem fyrst umfjöllun í hlutaðeigandi samtökum. Í áfangaskýrslunni er einkum til þess litið hvort setja megi nánari reglur um verklag og vinnubrögð við gerð kjarasamninga þar sem höfuðábyrgð verði þó lögð á sjálfstæði, frumkvæði og ábyrgð samningsaðila en þess jafnframt freistað að færa í skipulegra horf það viðræðuferli sem óhjákvæmilega verður að eiga sér stað sem undanfari hverra kjarasamninga. Hefur m.a. verið unnið út frá því sjónarmiði að samningsferlið hefjist fyrr og því ljúki fyrr en tíðkast hefur.

Í áfangaskýrslunni eru settar fram hugmyndir um viðræðuáætlun, miðlunartillögu og tengingarreglu sem sáttasemjari geti beitt til lausnar kjaradeilu, samningsumboð og fjallað um aðgerðir í kjaradeilum. Áfangaskýrsla vinnuhópsins var lögð fram til kynningar í ríkisstjórn 23. nóvember 1995. Hún var um svipað leyti tekin til umræðu á fundum hjá ASÍ og BSRB. Fulltrúar þessara samtaka kynntu á 35. fundi vinnuhópsins sem haldinn var 14. desember 1995 þær undirtektir sem áfangaskýrslan fékk á fundunum. Á þessum fundi vinnuhópsins fengu starfsmenn hans heimild til að semja texta um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og á lögum um sáttastörf í vinnudeilum sem leiddu að hugmyndum í áfangaskýrslunni. Í samræmi við ákvörðun 35. fundar voru vinnuhópnum sendar 3. janúar sl. tillögur um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og á lögum um sáttastörf í vinnudeilum. Þessar tillögur voru fyrst teknar til umræðu í vinnuhópnum á 38. fundi 4. janúar sl.

Í framhaldi af umræðum sem áttu sér stað á fundinum, m.a. vegna ábendingar fulltrúa ASÍ, var ákveðið að freista þess að hrinda tillögum vinnuhópsins í framkvæmd með breytingum á lögum um sáttastörf í vinnudeilum. Í frumvarpstillögum var fjallað um ákvæði um umboð samningsnefnda, breytinga á 15. gr. gildandi laga um vinnustöðvun, breytingar á ákvæðum um sáttastörf í vinnudeilum, ákvæði um viðræðuáætlun og ákvæði um miðlunartillögu og tengingarreglu. Þess ber að geta að ýmsir höfðu efasemdir um að þetta væri fær leið þar sem margir af forustumönnum launafólks væru þeirrar skoðunar að ekki mætti hreyfa við stafkrók í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Nýjar tillögur voru samdar og kynntar á 40. fundi vinnuhópsins 15. janúar sl. Nýju tillögurnar byggðu á því að tillögum vinnuhópsins yrði hrundið í framkvæmd með breytingum á lögum um sáttastörf í vinnudeilum. Þessum nýju tillögum var fylgt úr hlaði með þeim orðum að um væri að ræða fyrstu drög og umræðugrundvöll. Formaður vinnuhópsins hvatti fulltrúa í vinnuhópnum til að koma fram með breytingar og ábendingar um það sem betur mætti fara. Í þessari tillögu að frv. var gert ráð fyrir að heildarsamtök á vinnumarkaði gegndu mikilvægu hlutverki í sambandi við skipulag samningaviðræðna. Drögin voru því samin með samþykki allra í vinnuhópnum. Um það var rætt á nokkrum fundum vinnuhópsins í janúar.

Þessi frumvarpsdrög voru tekin til umfjöllunar á fundi formanna landssambanda Alþýðusambands Íslands sem haldinn var 8. og 9. febr. sl. í Ölfusborgum. Á þeim formannafundi var samþykkt að hafna drögunum en í staðinn taka upp beinar viðræður við samtök atvinnurekenda með það að markmiði að hrinda tillögum vinnuhópsins í framkvæmd með kjarasamningi. Þessi tillaga var tilkynnt félmrh. en á þeim tíma hafði vinnuhópur ráðherra haldið 47 fundi. Í tillögunni fólst að málið var sett í allt annan farveg og samráði hafnað við fulltrúa ríkisvaldsins um framvindu málsins. Af hálfu félmrh. komu fram efasemdir um að hægt væri að hrinda tillögunum í framkvæmd með kjarasamningi með þeim hætti að það væri bindandi fyrir vinnumarkaðinn í heild. Einnig var aðilum gert ljóst að ríkisstjórnin vildi að yfirstandandi Alþingi lyki umfjöllun um málið og ráðherra hygðist halda áfram vinnu við samningu frv. samhliða samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins. Atvinnurekendur lýstu strax yfir vilja til viðræðna um málið en kröfðust þess að þar sem ASÍ hefði ákveðið að setja málið í þennan óvænta farveg væri það hlutverk þess að setja fram tillögur um það hvernig samkomulag aðilanna um efni áfangaskýrslunnar gæti litið út.

Fyrsti fundur aðilanna var haldinn um 16. febrúar án þess að tillögur kæmu fram. Þær komu fyrst fram 8. mars og var þá ljóst að þýðingarlaust var að halda áfram viðræðum. Frv. félmrh. var síðan kynnt aðilum sem áttu fulltrúa í vinnuhópnum 19. mars. Af framangreindu má ljóst vera að frá upphafi hafa helstu samtök á vinnumarkaði átt aðild að þessu máli. Að halda öðru fram stenst ekki. Þau hafa átt þess kost að fjalla um frumvarpsdrög og koma athugasemdum sínum á framfæri. Það var hins vegar ákvörðun formanna landssambanda ASÍ að söðla um, taka málið upp á öðrum vettvangi og hætta samstarfi við stjórnvöld. Þetta eru staðreyndir sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Víkur nú að umfjöllun um breytingar á einstökum ákvæðum frv. Í fyrsta lagi breytingar á 1. gr. frv. Það ákvæði frv. sem hvað mesta athygli hefur vakið er heimild til stofnunar stéttarfélaga á stórum vinnustöðum. Þorri starfandi stéttarfélaga hafa lýst andstöðu við þetta ákvæði og talið að það veiki skipulag verkalýðshreyfingarinnar. Stéttarfélögin hafa því sérstaklega andmælt breytingum á lögmæltum skilyrðum fyrir stofnun og starfrækslu stéttarfélaga eins og þau eru samkvæmt 2. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur og hafa verið allt frá 1938. Í áliti Lagastofnunar koma hins vegar fram efasemdir um að gildandi skipan sé fyllilega í samræmi við ákvæði samþykkta ILO nr. 87, og að mikilvægt sé að tryggja launafólki rétt til að velja hvort það kýs starfsgreinafélag eða vinnustaðarfélag sem grunneiningu. Í áliti stofnunarinnar kemur enn fremur fram að tillaga frv. um að heimila vinnustaðarfélög verði með engu móti talin brjóta gegn alþjóðasáttmálum. Þvert á móti sé spurningin fremur sú hvort heimildin sé of takmörkuð. Athugasemdir stéttarfélaganna og Lagastofnunar ganga þannig til sitt hvorrar áttar.

Meiri hluti félmn. telur æskilegt að samningar taki í meira mæli tillit til aðstæðna í hlutaðeigandi fyrirtæki og því sé sameiginlegur kjarasamningur allra starfsmanna og fyrirtækis æskilegur. Með þeim hætti geta starfsmenn af eigin reynslu og þekkingu á viðfangsefnum fyrirtækis komið til móts við sérstakar þarfir þess og tryggt sér eðlilega hlutdeild í ávinningi þess. Sameiginlegir hagsmunir fyrirtækisins og starfsmanna þess verða sýnilegri og líkur eru á hagfelldari launaþróun og minni launamun en ella væri. Meiri hluti nefndarinnar telur hins vegar varhugavert að lögfesta ákvæði um vinnustaðarfélög við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu, einkum með tilliti til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið af hálfu stéttarfélaganna. Því leggur meiri hluti félmn. til að 1. gr. frv. falli út. Meiri hluti nefndarinnar telur að hluti af markmiðum með vinnustaðarfélagum megi í raun ná með svonefndum vinnustaðarsamningum þar sem stéttarfélög og hlutaðeigandi starfsmenn standa sameiginlega að gerð eins kjarasamnings fyrir alla sína félagsmenn. Þar skortir þó á skýr ákvæði sem mæla fyrir um afgreiðslu slíkra samninga og tryggja að meirihlutavilji starfsmanna í heild ráði niðurstöðu við atkvæðagreiðslu um samninginn.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á 2. gr. frv. Í fyrsta lagi er lagt til að orðin ,,sé ekki á annan veg samið`` verði flutt til í 1. málsl. 2. mgr. Við þá breytingu mun kjarasamningur, sem undirritaður hefur verið af til þess bærum fulltrúum samningsaðila, gilda frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða heldur er verið að taka af tvímæli um það að einungis sé átt við að hægt sé að semja um gildistökudaginn.

Í öðru lagi er lagt til að niðurstaða leynilegrar póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildi óháð þátttöku.

Í þriðja lagi hefur orðalag í 3. málsl. 2. mgr. verið gagnrýnt. Í því skyni að gera orðalag skýrara er lagt til að í stað orðanna: ,,að ákveða í kjarasamningi`` komi orðin ,,að ákveða í samningnum.`` Með þessu eru tekin af öll tvímæli um heimild aðila til að kveða á um í nýjum kjarasamningi að þeir einir séu atkvæðisbærir sem hann tekur til.

Í fjórða lagi er fellt brott ákvæði sem byggði á skilyrði um hærri hlutfallstölur þegar atkvæðagreiðslur um samninga næðu til hluta af félagi. Það er gert til einföldunar og samræmingar vegna gagnrýni stéttarfélaga og fleiri á fjölbreyttar reglur um atkvæðagreiðslur sem fram koma í frv.

Að því er varðar reglur 2. og 4. gr. um samninga og vinnustöðvanir liggur fyrir það álit Lagastofnunar að þröskuldarnir séu í góðu samræmi við alþjóðasamninga og stríði hvergi gegn stjórnarskrá. Þrátt fyrir það þykir rétt að taka nokkurt tillit til athugasemda og einfalda reglur um þessar atkvæðagreiðslur. Því er lagt til að í stað mismunandi skilyrða um þátttöku, stuðning eða andstöðu komi almenn krafa fram um fimmtungs þátttöku. Samkvæmt því verði löglega gerður samningur því aðeins felldur að fimmtungur atkvæðisbærra taki þátt í atkvæðagreiðslu og meira en helmingur þeirra greiði atkvæði gegn samningi. Á sama máta verði það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um vinnustöðvun að þátttaka í atkvæðagreiðslu nái fullum fimmtungi af atkvæða- eða félagaskrá en meiri hluti greiddra atkvæða ráði niðurstöðu.

Í fimmta lagi er að finna ákvæði um vinnustaðarsamninga og er það nýmæli. Hér er um að ræða kost sem að ýmsu leyti kemur í stað vinnustaðarfélags sem mætti mikilli gagnrýni stéttarfélaga og launafólks, eins og áður hefur verið vikið að. Þetta form tíðkast nú þegar á ýmsum vinnustöðum. Hins vegar hafa ýmsir orðið til þess að benda á þann ókost sem felst í rétti einstakra félaga til að fella slíkan samning enda þótt mikill meiri hluti starfsmanna sé hlynntur samningsniðurstöðu. Þar af leiðandi er kveðið á um það að slíkur samningur skuli borinn sameiginlega undir atkvæði allra félagsmanna sem hann tekur til og ráði meiri hlutinn niðurstöðu. Stéttarfélögin sem ganga af fúsum og frjálsum vilja til samningaviðræðna um vinnustaðarsamning bera þannig sameiginlega ábyrgð á samningsniðurstöðunni. Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að starfsmenn taki sameiginlega afstöðu til hennar.

[14:30]

Í þessu sambandi má vekja athygli á drögum að stefnu ASÍ sem tekin verður til umfjöllunar á þingi þess eftir helgi, en þar er lögð áhersla á vinnustaðarsamninga sem leiðir til kjarabóta.

Breytingar á 4. gr. frv. Í fyrsta lagi er lagt til að sé vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað þurfi einungis fimmtungur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu í stað helmings áður. Breytingar þessar eru gerðar til samræmis og einföldunar samanber umfjöllun um 2. gr. hér að framan.

Í öðru lagi er í fyrri málslið 3. mgr. bætt við orðinu ,,einkum``. Með breytingunni er textinn færður til samræmis við ákvæði 16. gr. gildandi laga, nr. 80/1938, þar sem notað er orðið ,,aðallega.`` Einnig er verið að koma til móts við ábendingar, en þær hafa miðað að því að of strangar kröfur séu gerðar um skilgreiningu á því til hverra vinnustöðvun sé ætlað að taka.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á 4. mgr. 4. gr. Ástæðan eru umræður í félmn. og ábendingar í umsögnum og frá einstökum aðilum. Þetta gildir fyrst og fremst um ákvæðið um frestun boðaðrar vinnustöðvunar. Sérstök ástæða er til þess að leggja áherslu á að heimildin til að fresta boðaðri vinnustöðvun án samþykkis gagnaðila tekur eingöngu til vinnustöðvunar sem ekki er hafin. Hún tekur þannig ekki til yfirstandandi vinnustöðvunar. Í þessu felst að einungis er heimilt að fresta vinnustöðvun áður en hún hefst og þá með þeim fyrirvara sem kveðið er á um í 4. mgr. Meiri hlutinn leggur til að heimildin til frestunar verði rýmkuð þannig að heimilt verði að fresta boðaðri vinnustöðvun einu sinni eða oftar, um allt að 28 sólarhringa í stað 14 áður. Í þessu felst að hafi vinnustöðvun verið boðuð 1. janúar er heimilt að fresta henni til 29. janúar. Þann dag tekur vinnustöðvunin gildi hafi samningar ekki tekist en fellur niður að öðrum kosti. Heimildin til frestunar í 28 sólarhringa miðast þannig við upphafsdag boðaðs verkfalls.

Sú ábending hefur komið fram að með ákvæðum 4. gr. séu stéttarfélögum settar óeðlilegar skorður við beitingu vinnustöðvunar. Atvinnurekendur hafa á hinn bóginn haldið því fram að tjóni af völdum boðaðrar vinnustöðvunar verði yfirleitt ekki afstýrt með minna en þriggja sólarhringa fyrirvara og því sé óæskilegt að fresta megi verkfalli án samþykkis gagnaðila með minni fyrirvara. Þótt Lagastofnun telji ákvæði frv. um þessi efni í góðu samræmi við alþjóðasamninga og aðra löggjöf þykir rétt að taka mið af athugasemdum aðila vinnumarkaðarins og rýmka heimildir til frestunar vinnustöðvana sem áður hefur verið gerð grein fyrir jafnframt því sem fyrirvari fyrir einhliða frestun er lengdur.

Loks er lagt til að niðurlagsmálsliður verði þannig að ljóst verði að aðilum sé sameiginlega ávallt heimilt að fresta boðaðri eða yfirstandandi vinnustöðvun. Hér er verið að festa í sessi verklagsreglur sem í raun hafa gilt við lok kjaradeilu.

Ákvæði 5. gr. um skilgreiningu á vinnustöðvun. Lögð er til sú breyting á 5. gr. frv. að felld verði brott tilvísun til fjöldauppsagna. Hér er þó ekki lagt til að fjöldauppsögnum verði aldrei unnt að jafna til vinnustöðvunar, enda geta slíkar uppsagnir fallið undir aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launamanna sem jafna má til vinnustöðvunar. Það reynir þá á sönnun þess hvort slíkum aðgerðum sé ætlað að hafa hliðstæð áhrif og formleg vinnustöðvun, þ.e. að fella niður störf eða torvelda tiltekna starfsemi í þeim tilgangi að knýja á um sameiginlegar kröfur í þágu þeirra sem að aðgerðum standa.

Breytingar á a-lið 6. gr. Lagt er til að ákvæði stafliðarins um skipun ríkissáttasemjara verði breytt. Í gildandi lögum og í frv. er tekið fram að ríkissáttasemjari skuli skipaður til fjögurra ára í senn. Samkvæmt frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er gert ráð fyrir breytingum á skipunartíma ýmissa opinberra starfsmanna. Samkvæmt því frv. er m.a. gert ráð fyrir fimm ára skipunartíma. Lagt er til að þessi regla verði tekin upp að því er varðar skipun ríkissáttasemjara.

Breytingar á i-lið 6. gr. um heimild ríkissáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu til að tengja ólíka hópa saman við lausn kjaradeilna. Fram hafa komið gagnrýnisraddir á tillögur frv. um heimildarákvæði sáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögur. Hefur Lagastofnun m.a. bent á athugasemdir sérfræðinganefndar ILO á framkvæmd hliðstæðra ákvæða í Danmörku. Í ákvæði frv. og ákvæði hliðstæðra danskra laga er sá munur að ríkissáttasemjara verður ekki heimilt að setja fram miðlunartillögu samkvæmt þessum staflið nema í raunverulegum kjaradeilum þar sem sættir hafa verið reyndar án árangurs og aðilum hafi gefist færi á að þrýsta á um kröfur sínar. Leggja ber áherslu á þennan mun á ákvæðum frv. og danskra laga. Samkvæmt 9. gr. gildandi laga um sáttastörf í vinnudeilum, nr. 33/1978, hefur sáttasemjari ríkar heimildir til að leggja fram miðlunartillögur sem taka samtímis eða sameiginlega á deilum fleiri félaga. Hann getur lagt fram eina eða fleiri tillögur í deilum félaga sem samtímis eiga saman í kjaradeilum og jafnframt ákveðið sameiginlega atkvæðagreiðslu um slíka tillögu. Áður en til þess kemur ber honum þó að hafa samráð við hlutaðeigandi samninganefndir. Lagt er til að efni 3. mgr. 9. gr. gildandi laga um sáttastörf í vinnudeilum komi í stað i-liðar 6. gr. frv. Rétt þykir að halda inni þeim skilyrðum fyrir framlagningu miðlunartillögu samkvæmt framanskráðu sem fram koma í stafliðum a--e í áður töldum i-lið 6. gr. en þeir eru eftirfarandi:

a. Að viðræður hafi átt sér stað um framlagðar kröfur, þar á meðal sérmál, eða að leitað hafi verið árangurslaust eftir viðræðum í samræmi við viðræðuáætlun.

b. Að tíma, sem ætlaður er til viðræðna milli aðila án milligöngu sáttasemjara samkvæmt viðræðuáætlun, sé lokið án þess að samningar hafi tekist.

c. Að sáttasemjari hafi leitað sátta milli allra samningsaðila sem eiga í hlut og telji ekki horfur á samkomulagi þeirra í milli.

d. Að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samnningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar.

e. Að aðilum vinnudeilu hafi gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hugmyndir sáttasemjara sem þeim hafa verið kynntar beint eða opinberlega um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu.

Enda þótt heimild sáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu sé tekin upp óbreytt úr gildandi lögum eru skilyrðin fyrir framlagningu nýmæli sem koma fram í frv. og meiri hluti félmn. leggur til að verði tekin upp í ákvæði greinarinnar.

Breytingar á l-lið 6. gr. Loks hefur ákvæði um tilskilið vægi mótatkvæða til að fella miðlunartillögu orðið tilefni til gagnrýni. Frv. tekur í þessu efni mið af dönskum reglum sem gera kröfu um 35% mótatkvæða til að fella miðlunartillögu þótt samkvæmt frv. sé miðað við einn þriðja atkvæðisbærra. Á það má minna að miðlunartillaga er neyðarúrræði til lausnar kjaradeilu. Þess vegna er eðlilegt að gera nokkrar kröfur um lágmarkshlutfall mótatkvæða. Í þeim tilgangi að skapa sátt um málið leggur meiri hlutinn til að verulega verði dregið úr kröfum frv. um hlutfall mótatkvæða og leggur til að miðað verði við að fjórðungur af atkvæða- eða félagaskrá þurfi að vera andvígur miðlunartillögu til að hún teljist felld í stað þriðjungs áður.

Breytingar á 8. gr. frv. Lagt er til að við 8. gr. frv. bætist tilvísun í 1. mgr. 66. gr. þar sem orðinu ,,atvinnumálaráðherra`` er breytt í ,,félagsmálaráðherra``.

Breytingar á 9. gr. frv. Greinin fellur brott vegna breytinga sem tengjast því að ákvæði frv. um vinnustaðarfélög fellur niður.

Ákvæði 11. gr. frv. Rétt er að geta þess vegna athugasemda frá Sambandi íslenskra bankamanna, en sérstök lög eru í gildi um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins, nr. 34/1977, að ekki er með þessu frv. ætlunin að fella brott eða breyta ákvæðum þessara laga. Í greinargerð með frv. er sérstaklega tekið fram að reglum þess er ekki ætlað að hafa áhrif á stöðu og valdsvið ríkissáttasemjara eða starfsmanna hans, samkvæmt öðrum lögum og eru fyrrgreind lög nefnd þar sem dæmi. Því má ljóst vera að lögin gilda áfram sem hingað til og ekki er verið að breyta réttarstöðu þeirra sem gert hafa samkomulag á grundvelli þeirra laga.

Meiri hluti félmn. leggur til að frv. verði samþykkt með framangreindum breytingum og telur að frv. sé til mikilla bóta fyrir framtiðarskipulag vinnumarkaðarins.