Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 14:41:35 (6184)

1996-05-17 14:41:35# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[14:41]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. frsm. félmn. greindi frá niðurstöðum Lagastofnunar háskólans sem leitað var eftir áliti til af hálfu nefndarinnar. Ég vil af því tilefni koma því að að Lagastofnun háskólans er að sjálfsögðu enginn hæstiréttur í málum, mjög langt frá því. Álit Lagastofnunar háskólans sem og annarra svonefndra stofnana háskólans nær ekki lengra en undirskrift þeirra manna sem upp á það álit skrifa. Undir þessu áliti eru nöfn tveggja hv. lögfræðinga, Sigurðar Líndals og Tryggva Gunnarssonar, og ég tel að þeirra álitsgerð sé á þeirra ábyrgð. Ég veit að vísu ekki nákvæmlega hvernig Lagastofnun fjallar um álitsgerð af þessu tagi en ekkert kemur fram um það að fleiri en þessir hv. aðilar og einn aðstoðarmaður sem þeir kvöddu til hafi um þetta fjallað.

Þessar stofnanir háskólans sem til eru komnar á seinni árum eru í rauninni ekkert annað en tæki starfsmanna háskólans, kennara fyrst og fremst, til þess að geta selt út vinnu sína. Þannig eru þær tilkomnar. Þetta hefur ekkert með álit lagadeildar háskólans að gera. Hún hefur hvergi nærri þessu komið, lagadeildin. Ég tek þetta einfaldlega fram vegna þess að það er verið að leggja þessar álitsgerðir stofnana háskólans fram sem eitthvað sérstaklega gildar álitsgerðir sem taki fram álitum annarra lögfræðinga. Það gera þær í rauninni ekki. Þetta er einfaldlega lögfræðiálit tilgreindra lögfræðinga sem segja ekkert meira. Ég er með þessum orðum ekkert að lítilsvirða þetta álit sem slíkt. En ég tel náttúrlega að það beri að líta með sama hætti á álit annarra lögfræðinga eins og Atla Gíslasonar, Ástráðs Haraldssonar, Gunnars Ármannssonar og fleiri sem hafa tjáð sig um þessi efni sem lögfræðingar.