Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 16:02:00 (6201)

1996-05-17 16:02:00# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[16:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka félmn. og sérstaklega þá meiri hlutanum fyrir góða vinnu. Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að þakka formanni nefndarinnar alveg sérstaklega fyrir vönduð vinnubrögð sem hún hefur viðhaft í þessu máli. Eins og hv. þingmenn hafa heyrt er hún mjög andvíg málinu og ég er svo sem ekkert að þakka henni fyrir þá ræðu sem hún var að flytja áðan, en á sínum tíma þegar breyting var gerð á þingsköpum og þinghefðum sem hér hafa viðgengist lengi, þá átti ég töluvert mikinn þátt í þessum breytingum m.a. vegna þess að þá var ég formaður þingflokks framsóknarmanna.

Það var baráttumál mitt að stjórnarandstaða fengi tækifæri til þess að stýra einhverjum af nefndum þingsins. Þetta vakti í fyrstu verulega hörð viðbrögð hjá stjórnarflokkum eða hjá sumum aðilum í stjórnarflokkum og einstökum ráðherrum sem töldu að með þessu væri verið að skerða áhrifavald stjórnarmeirihluta og hugsanlega koma í veg fyrir það að meirihlutavilji Alþingis kæmi fram. Það var veruleg andstaða við þetta. Það var talað um að frv. yrðu tafin og fæti brugðið fyrir meirihlutaviljann en ég tel að hér einmitt höfum við ágætt dæmi um það að þetta hefur verið afsannað. Ég vona að aðrir formenn nefnda úr stjórnarandstöðunni og í framtíðinni taki þessi vinnubrögð sér til fyrirmyndar. Mér virðist hv. formaður félmn., Kristín Ástgeirsdóttir, hafa unnið samviskusamlega að þessu máli þó að hún sé á móti því. Það hefur fengið vandlega afgreiðslu, vandlega umfjöllun og eðlilega afgreiðslu undir stjórn þessa hv. formanns. Og eins og skáldið sagði: ,,Ég hef ekkert upp á hann að klaga.``

Frv. hefur tekið talsverðum breytingum í meðförum félmn. og í framsögu minni benti ég á atriði sem ég taldi að vel gæti komið til með að þurfa að breyta eða að eðlilegt væri að breyta. Það eru mörg álitamál í svona löggjöf og það hefur verið reynt eftir því sem mögulegt hefur verið að koma til móts við gagnrýni, efnislega gagnrýni sérstaklega frá launamönnum eða fulltrúum launamanna. Það hefur að vísu verið einskis metið opinberlega og verkalýðshreyfingin hefur haldið sig formlega við þessa hina nýju línu frá því í janúar að ekki megi breyta lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þeir hafa þó ekki krafist þess enn að þrælalögin frá 1938 verði afnumin. Það var aðeins að mér fannst að síðasti hv. ræðumaður væri að ýja að því að kannski væri rétt að afnema þau líka því þetta ætti allt að vera samningsatriði og það hefði út af fyrir sig verið rökrétt miðað við málflutninginn hjá mörgu af þessu fólki. En ég er ekki sammála þeim málflutningi. Ég tel nefnilega að kjarasamningar og samskipti á vinnumarkaði séu ekkert einkamál launamanna og atvinnurekenda. Þetta eru málefni sem varða þjóðfélagið allt og almannaheill bókstaflega krefst þess að um þessi samskipti séu lögfestar reglur. Samningar eru góðir svo langt sem þeir ná en þeir binda ekki nema þá sem eru aðilar að samningnum og nóg um það. Þar af leiðandi tel ég að það sé óhjákvæmilegt að hafa lög um þessi atriði eða rammalöggjöf og það sé eðlilegt og þær breytingar sem hér eru lagðar til séu allar til bóta á þeim lögum sem nú eru í gildi.

Þróun kjaramála undanfarin ár er svo sem ekkert sérstaklega fagur vitnisburður um gildandi starfshætti. Það má vafalaust gagnrýna ríkið með réttu. En kjaramál hafa ekki þróast með nógu heppilegum hætti að mínum dómi. Launamunur hefur farið sívaxandi og ég held að við þurfum ekki að deila um það að lægstu laun í landinu séu verulega lægri en þau þyrftu að vera. Þó hefur fólk orðið að búa við gildandi reglur sem nú má ekki breyta.

Frv. tekur fyrst og fremst á kannski fimm atriðum sem eru nýmæli.

Í fyrsta lagi fá vinnustaðarsamningar stoð í lögum. Vinnustaðarsamningar hafa verið gerðir en þeir hafa ekki haft neina stoð í lögum. (Gripið fram í: Af hverju þurfa þeir stoð í lögum?) Ég tel að það sé heppilegt að þeir hafi stoð í lögum og ég tel eðlilegt að greidd séu um þá atkvæði úr einum potti, þ.e. starfsfólkið á vinnustaðnum greiði atkvæði og þau séu talin í sameiningu. Ég vitna til hremminga sem urðu varðandi vinnustaðarsamning hjá Slippstöðinni Odda síðasta vetur.

Eftir því sem ég best veit mun þing ASÍ í næstu viku leggja sérstaka áherslu á gildi vinnustaðarsamninga sem heppilegs tækis til að fá fram kjarabætur. Vinnustaðarsamningar eiga ekki að geta neytt launamenn í því formi sem þeir eru settir fram. Hitt er annað mál og ég tók mark á þeirri gagnrýni sem kom fram frá ASÍ, að vinnustaðarfélög gætu orðið til þess að koma meira losi á verkalýðshreyfinguna og fjölga verkalýðsfélögum og stéttarfélögum óhóflega og þess vegna var bakkað með það atriði sem reyndar margir hv. þm. voru mjög hrifnir af.

Varðandi viðræðuáætlun eru í sjálfu sér allir jákvæðir fyrir því að tíminn sé notaður til að undirbúa nýja kjarasamninga áður en samningar eru lausir og á þessu hefur verið mikill misbrestur. Það nægir að nefna sjómannadeiluna þar sem samningar voru lausir í 10 mánuði áður en sjómenn gátu dregið viðsemjendur að viðræðuborði. Í upphaflegum drögum var gert ráð fyrir því eins og hv. síðasti ræðumaður kom rækilega inn á að heildarsamtök verkalýðsins mótuðu viðræðuáætlun fyrir sitt leyti. Þessu hefur verið breytt og það var vegna þess að það vakti mjög hörð viðbrögð landssambandanna sem ekki vildu fela ASÍ umboð. Ég verð að játa það, herra forseti, að ég sé eftir upphaflegum hugmyndum með nokkrum trega vegna þess að ég tel að það sé mjög brýnt að styrkja ASÍ og að það komi fram og sé í öflugu og trúverðugu fyrirsvari fyrir launamenn í landinu. Þetta ákvæði er búið að taka þessum breytingum. Viðræðuáætlun getur ekki neytt launamenn. Menn hafa verið að ímynda sér og fara með furðuleg dæmi um það hvað viðræðuáætlanir gætu orðið margar. Auðvitað verða viðræðuáætlanir ekki nema örfáar þó að mörg félög standi að þeim. Væntanlega mótast viðræðuáætlun sem mörg félög verða aðilar að.

Það eru lagðar auknar skyldur á ríkissáttasemjara áður en hann leggur fram miðlunartillögu. Ekki getur það meitt launamenn þótt ríkissáttasemjari reyni til þrautar að koma á frjálsum samningum áður en hann leggur fram miðlunartillögu. Miðlunartillaga er þrautaráð en það er þó betra en lagasetning sem því miður hefur verið gripið til 12 sinnum á undanförnum 12 árum hér á landi. Ég tel að það sé óheppilegt að Alþingi sé að grípa inn í kjaradeilur með lagasetningu. Þó hef ég átt þátt í því sjálfsagt í 10 skipti af þessum 12 eða ég geri ráð fyrir því. Ég tala ekki um að grípa inn í kjaradeilur með bráðabirgðalögum sem er náttúrlega ómögulega aðferð. (ÖJ: Er bara um þessa tvo valkosti að ræða?) Valkosturinn númer eitt er að sjálfsögðu frjálsir kjarasamningar og ég er að reyna að segja að það á ekki að grípa til miðlunartillögu nema sem þrautalendingar. En hún er þó skárri en að fara í lagasetningu. Að sjálfsögðu ber ævinlega að stefna að frjálsum kjarasamningum en miðlunartillaga getur verið þrautalending ef eðlilegir kjarasamningar nást ekki og það er þó skárri lending en lagasetning.

Varðandi tengiregluna varðandi afgreiðslu miðlunartillögu, þá er hún óbreytt frá lögunum frá 1978 um sáttastörf í vinnudeilum. Ekki getur það meitt launamenn.

Þá er, herra forseti, komið að rétti almennra félagsmanna til að hafa bein áhrif á meginákvarðanir um kjaramál: Verkfallsákvörðun, verkbanni, samþykkt kjarasamninga og afgreiðslu miðlunartillögu bæði meðal atvinnurekenda og launamanna. Það er rétt að leggja áherslu á að gagnkvæmni ríkir og hliðstæðar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur og launamenn í þessu efni. Breytingin er út af fyrir sig miklu meiri hjá atvinnurekendum en hjá launamönnum því að hingað til hafa 21 fulltrúi hjá Vinnuveitendasambandi Íslands afgreitt meginákvarðanir um kjaramál, en nú eiga 2.600 ef ég man rétt, rétt á því að blanda sér í þessa afgreiðslu. En óneitanlega er umboð stjórnar og trúnaðarmannaráðs nokkuð skert og það er e.t.v. skýringin á mjög harðri andstöðu sumra forustumanna verkalýðsfélaga. Vald stjórnar og trúnaðarmanna er ofurlítið skert og fært til almennra félagsmanna, eða hluti af því. Ég tel þetta vera í lýðræðisátt. Lagastofnun telur það reyndar líka. Og ég vænti þess að svona tveir þriðju þjóðarinnar líti sömu augum á málið.

[16:15]

Ég held að það sé rétt að staldra við í þessu tilefni og athuga hvernig stjórnir og trúnaðarmannaráð í stéttarfélögunum, a.m.k. allmörgum eða jafnvel flestum eru valin. Einfaldur meiri hluti ræður öllum fulltrúunum. Minni hlutinn hefur enga fulltrúa í stjórn eða trúnaðarmannaráði. Listi stjórnar og trúnaðarmannaráðs í félaginu fær meiri hluta atkvæða sem fer með stjórnina og skipar trúnaðarmannaráðin. Ég minni á harðar kosningar í Dagsbrún sem fóru fram í vetur. Listi stjórnar og trúnaðarmannaráðs hlaut eftir því sem ég veit best alla fulltrúana. Þó kom í ljós að þarna var ótrúlega stór minni hluti en hann hefur engin völd í því virðulega félagi. Ég tel að þetta sé óeðlilegt fyrirkomulag og það er ekki í takt við þau vinnubrögð eða þann hugsanagang sem við alþingismenn höfum tamið okkur. (Gripið fram í: Fulltrúalýðræði?) Þetta er ekki fulltrúalýðræði. Þetta er nefnilega ekki fulltrúalýðræði, hvað þá að almenningur hafi nokkur áhrif og jafnvel þó að 49,9% séu andvíg stjórn og trúnaðarmannaráði hafa þau enga tryggingu fyrir neinum rétti. Það er hægt að valta alveg gersamlega yfir 49,9% í verkalýðsfélagi. (Gripið fram í.) Já, það er rétt að þetta er ekki svona í öllum félögum en þetta er til í allmörgum af stóru félögunum og reyndar í litlum félögum líka. Þess vegna sé ég ekki að stjórnir og trúnaðarmannaráð séu endilega sá aðili sem sjálfkjörinn sé til að vera eingöngu með ákvörðunarvaldið. Auðvitað hefur stjórn og trúnaðarmannaráð eðli málsins samkvæmt alltaf mikil áhrif. Þetta eru aðalatriðin í frv. og þau standa. Ég þakka meiri hlutanum fyrir þær breytingartillögur sem hann hefur gert. Ég er prýðilega ánægður með frv. og ég tel að það hafi batnað í meðförum félmn.

Lagastofnun hefur orðið fyrir gagnrýni. Félmn. ákvað að vísa málinu til Lagastofnunar og það var Lagastofnun eftir því sem ég veit best sem valdi menn til að vinna þetta verk í umboði sínu og það er gert á ábyrgð Lagastofnunar. (Gripið fram í.) --- Það var ekki ég sem vísaði málinu til Lagastofnunar heldur gerði hv. félmn. það. Niðurstaða Lagastofnunar varð náttúrlega sú að þær fullyrðingar sem hér höfðu verið settar fram voru að hér um bil öllu leyti bornar til baka. Það var bent á ákvæði í gildandi lögum sem Lagastofnun taldi orka tvímælis, t.d. um skipan Félagsdóms og mörk stéttarfélaga en það er ekki tekið á því í þessu frv. Varðandi skipan Félagsdóms tel ég að við eigum ekki að róta við skipan hans nema við endilega þurfum. Ég tel að það sé heppilegt, öndvert við það sem Lagastofnun telur, að aðilar vinnumarkaðarins geti komið þar sínum sjónarmiðum á framfæri.

Á síðasta kjörtímabili, herra forseti, flutti ég í tvígang frv. um lagaráð Alþingis. Það var hugmyndin að koma upp nefnd þriggja tilnefndra lögfræðinga sem hefði ekki dómsvald heldur gæti fellt úrskurði eða sent frá sér álitsgerðir um mál sem þingmenn teldu annaðhvort geta varðað stjórnarskrá, lagasamræmingu og álitamál sem upp koma og hljóta sífellt að koma upp í daglegu starfi á Alþingi. Því miður náði frv. ekki fram að ganga en ég tel að það hefði verið mjög gott að hafa það í tilviki eins og þessu. Ég vænti þess að í framtíðinni beri Alþingi gæfu til að koma upp svona lagaráði. Menn hafa verið að halda því fram að þetta frv. sé skraddarasaumað handa VSÍ. En það er sannarlega ekki tilfellið. VSÍ hefur gagnrýnt mörg ákvæði í frv. og viðbrögð þeirra við málinu hafa hins vegar verið hófsamlegri en sumra forustumanna verkalýðshreyfingarinnar. VSÍ vildi t.d. endilega að kveðið væri á í frv. um rétt manna til þess að standa utan stéttarfélaganna. Ég tók það ekki í mál. Það er ekkert í lögum sem skyldar menn til þess að vera aðilar að stéttarfélagi. Í stjórnarskrá okkar eins og hún er nú er tryggður réttur manna til þess að standa utan stéttarfélaga. Það er einungis á einum stað sem ég veit um þar sem menn eru skyldaðir að vera í stéttarfélagi og það er meðal lögfræðinga og í undirbúningi er breyting á lögum um lögfræðinga. Ég vænti þess að tekið verði á þessu þar. Alls staðar þar sem svokölluð skylduaðild er viðhöfð er hún samningsatriði á milli VSÍ og launamanna eða milli atvinnurekenda og launamanna og ég tel alveg ástæðulaust að löggjafinn sé að blanda sér í það mál. Það er heimilt samkvæmt stjórnarskrá að vera utan stéttarfélaga. Það er félagafrelsi og ég hefði talið mjög misráðið að taka á því máli í þessari lagasetningu.

Það eru mörg fleiri atriði sem VSÍ hefur gagnrýnt í þessu frv. en ég mun ekki, herra forseti, tefja tímann á því að fara út í það. Ég tel að þrátt fyrir hrakspár sumra forustumanna verkalýðshreyfingar og ýmissa talsmanna hv. stjórnarandstöðu um að þetta sé vont frv. og verið sé að breyta lögunum til einhverra óbóta munu menn komast að því þegar þeir fara að búa við þessi lög að hér sé um framfarir og úrbætur að ræða. Ef reynslan kennir okkur að það sé eitthvað sem betur má fara í þessari lagasetningu sem við ekki komum auga á eða ég ekki kem auga á í dag, þá er tækifæri til að breyta því. Ég vænti þess að það þurfi ekki að líða 58 ár þangað til vinnulöggjöf verður endurskoðuð næst.

Erindi mitt hingað var fyrst og fremst að þakka hv. félmn. og formanni hennar fyrir góð störf og ég vænti þess að hér sé verið að breyta löggjöf til bóta.