Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 16:31:25 (6206)

1996-05-17 16:31:25# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[16:31]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki að spyrja að því þegar hæstv. félmrh. fer að tjá sig um þetta ágæta þingmál. Það örlar á misskilningi í öðru hverju orði. Hann er enn að tala um úrskurð Lagastofnunar Háskóla Íslands. Enn og aftur er talað um úrskurð Lagastofnunar Háskóla Íslands. Ég má til með enn einu sinni að benda hæstv. ráðherra á að hér er ekki um úrskurð að ræða heldur einungis lauslega álitsgerð tveggja lögfræðinga.

En það var ekki það sem hvatti mig til að fara í andsvar við hæstv. ráðherra heldur fyrst og fremst fullyrðingar hans og alhæfingar um skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar sem hreint og beint eru ekki alls kostar réttar, herra forseti. Það er mjög mismunandi skipulag hjá stéttarfélögunum í landinu og ég get nefnt sem dæmi að innan raða ASÍ eru u.þ.b. 200 stéttarfélög ef ég man rétt. Þau hafa mjög mismunandi reglur um sitt skipulag þó að þær byggi flestar á sama grunninum. Hæstv. ráðherra hneykslaðist á því að það þyrfti einungis einfaldan meiri hluta til þess að taka ákvarðanir í verkalýðshreyfingunni. Einfaldur meiri hluti hefur hingað til þótt ágætis lýðræðisleg aðferð í flestum tegundum af félagsskap sem ég þekki til (KÁ: Í alþingiskosningum.) Til dæmis í alþingiskosningum, eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir bendir á. Mér finnst alger óþarfi að vera að tala um þær aðferðir af þessum óvirðuleika sem hér hefur verið gert, herra forseti, og ekki síður að hæstv. félmrh. skuli láta standa sig að því að fullyrða og alhæfa svona um innri skipulagsmál hreyfingarinnar.

Ég vil líka benda á að félagarnir í stéttarfélögunum hafa ekki sérstaklega, a.m.k. ekki mjög margir, mótmælt því skipulagi sem ríkir í þeirra félögum. Þeir eiga þar aðkomu að félagsfundi til þess að leggja fram breytingartillögur á lögum sínum. Ég vil bara segja það hreint út, herra forseti, að hæstv. ráðherra kemur þetta ekkert við frekar en mér kemur það við hvernig Framsókn fer að því að velja skósveina sína til hinna ýmsu trúnaðarstarfa í flokknum.