Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 16:40:12 (6211)

1996-05-17 16:40:12# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[16:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekkert verið að alhæfa í þessari umfjöllun minni og ég hef heldur ekki sagt að verkalýðsfélögin hafi lagt blessun sína yfir frv. eins og það liggur fyrir núna eða þær breytingartillögur sem á því voru gerðar. En ég vek athygli hv. þm. á því að verkalýðsfélögin voru fyrst og fremst að mótmæla upphaflegu frv. og gagnrýndu sum ákvæði þess. Sum sögðu bara: Burt með þetta og létu þar við sitja. Það var reynt að koma til móts við rökstuddar ábendingar, rökstudda gagnrýni á einstaka efnisþætti málsins í nefndarstarfinu og ég vonast til þess að verkalýðshreyfingin sjái ekki í þessu frv. atriði sem meiða hana eða verða henni til tjóns. Ég tel meiri líkur á aukinni launajöfnun. Ég tel meiri líkur á að verkalýðshreyfingin nái vopnum sínum og árangri í kjarasamningum samkvæmt breyttum lögum en reynslan hefur sýnt að hún hefur gert samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru.