Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 16:44:38 (6214)

1996-05-17 16:44:38# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[16:44]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er þó ánægjulegt að heyra að hæstv. félmrh. gerir sér grein fyrir því að thatcherismi sé við lýði hjá ríkisstjórninni þó að hann viðurkenni ekki að hann sé við lýði í því frv. sem hann er að leggja fram.

Þegar frv. um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur kom fyrst til umræðu í þinginu var strax bent á ýmsa vankanta á því af hálfu stjórnarandstöðunnar. Þar var bæði um að ræða efnislega vankanta en ekki síður var þunginn í gagnrýninni fólginn í gagnrýni á þær aðferðir sem hæstv. félmrh. hefur beitt við undirbúning frv. Misskilningur um það hvað felst í hugtakinu samráð, skilningsskortur á hlutverki stjórnvalda í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins, skortur á skilningi á hagsmunum launafólks og samtaka þess, hlutdrægni gagnvart aðilum vinnumarkaðarins þar sem taumur annars er dreginn mjög verulega á kostnað hins og svo mætti lengi telja er dæmi um þetta. Gagnrýnin beindist ekki síst að því klaufalega framtaki hæstv. ríkisstjórnar að ætla að þröngva Frónbúum með löggjöf inn í áratuga gamalt skipulag hins danska vinnumarkaðar sem umfram allt hefur byggt á þeirri grundvallarreglu að aðilar vinnumarkaðarins semja sjálfir um samskiptareglur sínar. Grunntónninn í allri aðkomu stjórnvalda að málefnum þeirra er samráð og það á líka við um það þegar verið er að setja löggjöf um málefni þeirra. Á þessu hefur hæstv. ríkisstjórn ekki skilning og hver hæstv. ráðherrann á fætur öðrum hefur í forundran lýst yfir hneykslan sinni á því hversu óforskömmuð íslensk verkalýðshreyfing sé að vilja ekki lúta vilja löggjafans. Hún skuli læra hér og nú hver það er sem ræður á þessum bæ.

En er þetta svona einfalt? Er íslensk verkalýðshreyfing óforskömmuð að vilja ekki lúta lögum sem hinn þungi meiri hluti á hinu háa Alþingi ætlar að láta ganga yfir þjóðina? Það er þess virði að skoða þann þátt örlítið betur, ekki síst fyrir þær sakir að í fljótu braðgi er auðvelt að telja fólki trú einmitt um þessa hluti. En þegar betur er að gáð, þá er veruleikinn annar og það vita þeir sem hafa komið nálægt kjarasamningagerð eða þeir sem hafa yfirleitt kynnst því hvernig samskiptum hinna tveggja meginafla á vinnumarkaði er farið, þ.e. atvinnurekenda annars vegar og samtaka launafólks hins vegar. En það er rétt minna á það hér og er sérstök ástæða til þess að gera það og helst svo að hæstv. ráðherrann heyri, að stéttarfélög eru löglega ákveðnir og alþjóðlega viðurkenndir aðilar til að semja fyrir hönd launafólks um kaup þeirra og kjör. Það er kannski kominn tími til þess að hæstv. ráðherrann átti sig á því áður en lengra er haldið. Og það veitir ekki af því að minna á þetta stöðugt vegna þess að áróður ríkisstjórnarinnar gegn samtökum launafólks hefur verið þvílíkur að undir honum verður ekki setið þegjandi. Það að ætla að auka frelsi einstaklinganna í stéttarfélögunum eins og það heitir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar felur í sér þá staðhæfingu að einstaklingarnir í stéttarfélögunum séu ekki frjálsir. Ríkisstjórnin talaði ekki um að auka lýðræðið í samtökum atvinnurekenda í stefnuyfirlýsingunni, enda er hún ekkert í stríði við samtök atvinnurekenda. Ég verð hins vegar sannfærðari um það með hverjum deginum sem líður hér í þinginu og þessi mál eru til umfjöllunar að það er leynt og ljóst stefna þessarar ríkisstjórnar að segja verkalýðshreyfingunni skýrt og skortinort hverjir það eru sem ráða og henni er ögrað vísvitandi í hverju málinu á fætur öðru.

Allt tal forustumanna þeirra tveggja flokka sem nú sitja við stjórnvölinn um óskir um gott samstarf við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðar í því skyni að tryggja áframhaldandi stöðugleika var því ekkert annað en innantómt skraf fyrir kosningar og lýsir engu öðru en óskammfeilni þeirra sem höfðu þau orð í frammi. Hvað hefur gerst síðan fyrir kosningar, herra forseti, sem breytir þessum skýra vilja forustumanna stjórnarflokkanna? Hvað breyttist frá því að hæstv. forsrh. var fyrir kosningar að lýsa yfir þakklæti til verkalýðshreyfingarinnar og launafólksins í landinu sem hafði fært fórnir í nafni þjóðarsáttar? Hvað hefur breyst frá því að hann lýsti því yfir og þar til atlagan að verkalýðshreyfingunni hófst? Og dylgjurnar og fullyrðingarnar um alla ófrjálsu einstaklingana sem eru bundnir á klafa verkalýðshreyfingarinnar sem ríkisstjórnin ætlar að bjarga úr ánauð. Af hverju heyrðust þessar fullyrðingar ekki fyrir kosningar? Af hverju sýndu menn ekki sitt rétta andlit þá og lofuðu þjóðinni því að þeir mundu svínbeygja verkalýðshreyfinguna og hunsa vilja hennar við fyrsta tækifæri sem byðist? Af hverju höfðu stjórnarflokkarnir það ekki á stefnuskrá sinni að þeir ætluðu að draga taum atvinnurekenda en ekki launafólks í samskiptum aðila vinnumarkaðar á kjörtímabilinu og að þeir ætluðu að sjá til þess með góðu eða illu að hinum efnahagslega stöðugleika sem launafólk hafði hert sultarólina fyrir yrði ekki ógnað með því að borga yrði þeim fyrir viðvikið?

Hæstv. forsrh. kallaði það í hópi aðdáenda sinna á aðalfundi VSÍ að það yrði að koma í veg fyrir þenslu í þjóðfélaginu. Á hæstv. ráðherra kannski við með öðrum orðum að það verði að koma í veg fyrir að verkalýðshreyfingin verði í stakk búin til þess að krefjast þess að fá bita af kökunni ef góðærið gefur eitthvað í aðra hönd? Er hann kannski með þessu að réttlæta það eða gera tilraun til að réttlæta það hvers vegna ríkisstjórnin er tilbúin að sýna samtökum launafólks og launafólki öllu fullkomna vanvirðu og draga taum atvinnurekenda í þessu máli? Svo mikið er alla vega víst að atvinnurekendur kvarta ekki sáran undan stefnu ríkisstjórnarinnar í vinnumarkaðsmálum. Þeir mættu skælbrostandi til aðalfundar samtaka sinna nú nýverið, enda er ekki verið að þröngva upp á þá lögum um þeirra eigin málefni. Þeir lögðu leiftursókn ríkisstjórnarinnar gegn verkalýðshreyfingunni lið með því að upplýsa alþjóð um innihald digurs verkfallssjóðs svona til að minna á það hver á peninga í dag og hver hefur efni á því að fara í langar vinnustöðvanir þegar þar að kemur, enda sýna ársreikningar fyrirtækja að staða fyrirtækjanna batnar sífellt. Það er gott og blessað út af fyrir sig. En á hinn bóginn fjölgar gjaldþrotum heimilanna á meðan. Þeim fjölgar á meðan gjaldþrotum fyrirtækjanna hefur stórlega fækkað. Þannig er vígstaðan á vinnumarkaði nú. Þannig verður vígstaðan á vinnumarkaðnum þegar kjarasamningar losna og ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar geri sér kannski einhverja grein fyrir þessu.

Hæstv. ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um það hvernig hún ætlar að vinna á þessu sviði og hún ætlar enn að skerpa á andstæðunum á komandi árum. En atvinnurekendur gerðu meira á aðalfundi sínum en að gorta af digrum verkfallssjóðum. Þeir samþykktu líka að nýta sér miðstýringuna sem þeir búa við til hins ýtrasta og þeir afsöluðu sér rétti til þess að geta samið um sakaruppgjöf að loknum vinnudeilum, en eins og flestir vita hefur það oft og tíðum verið hluti af samningum aðila í kjölfar vinnudeilna. Nei, nú hafa atvinnurekendur í VSÍ fallist á að ef slíkt kemur upp þá geti þeir vitnað í VSÍ og sagt: ,,Því miður, þetta leyfir Þórarinn ekki.`` Með þessu eru þeir að auka enn á miðstýringuna hjá sér og ef maður ber þennan aðalfund og skilaboð hans saman við yfirlýsingar framkvæmdastjóra VSÍ sem hefur verið ötull stuðningsmaður þeirra breytinga sem nú liggja fyrir í þessu frv. og ef maður ber það saman við yfirlýsingar hans um það hvers vegna eigi að breyta lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur, þá er þar eitthvað sem ekki passar, herra forseti, því að auk þess sem framkvæmdastjórinn virðist vera á móti gömlum lögum út af fyrir sig og það er reyndar umdeilanlegt hvort hægt sé að kalla það gömul lög sem eru frá 1938, þá er það meginröksemd fyrir breytingunum að það þurfi að greiða fyrir samningsgerð á vinnumarkaði og stytta samningsferlið.

Ég er reyndar sammála framkvæmdastjóra VSÍ um gildi þessa. Það er nauðsynlegt að greiða fyrir samningsgerð á vinnumarkaði og það er nauðsynlegt að stytta samningsferlið. En við erum greinilega ekki sammála um það hvernig þetta skuli gert og ekki heldur sammála um það hvort þetta sé yfirleitt gerlegt og það veltur á mjög mörgum þáttum. Mér er a.m.k. algerlega fyrirmunað að skilja að stríðsyfirlýsingar aðalfundar VSÍ gagnvart samtökum launafólks geti talist líklegar til að greiða fyrir samningsgerð og stytta samningsferlið. Mér er líka fyrirmunað að skilja að löggjöf sem sett er á svo viðkvæmu samningssviði eins og á vinnumarkaðnum, í algerri andstöðu við annan samningsaðilann en svo til samkvæmt pöntun hins, geti nokkurn tíma orðið annað en ólög og mér er algerlega fyrirmunað að skilja að hún sé til þess fallin að greiða fyrir samningsgerð og stytta samningsferlið. Það er nefnilega svo að löggjöf á þessu sviði er um margt gerólík öllum öðrum. Hún krefst annars konar undirbúnings og annars konar aðkomu á allan hátt.

Það hefur reyndar verið farið um þetta mjög mörgum orðum í sölum hins háa Alþingis á undanförnum vikum, en þrátt fyrir allt virðist sem a.m.k. hæstv. félmrh. og reyndar líklega ríkisstjórnin í heild hafi ekki enn þá áttað sig á þessum hlutum, þessum einföldu hlutum sem var bent á strax í upphafi 1. umr. um frv. Ekki síst er sérstakur undirbúningur og sérstök aðkoma að löggjöf á vinnumarkaði einkenni hins norræna módels sem svo er kallað. Við Íslendingar höfum byggt að mestu leyti á því módeli en norræna módelið er á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og víðs vegar margrómað fyrir það hversu vel þar hefur tekist til með þríhliða samskipti og skipulag á vinnumarkaði sem þykir hvað best í heiminum. Þetta vita allir sem hafa kynnt sér starf Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á einhvern hátt og ég tala nú ekki um þá sem hafa sótt þing þeirrar stofnunar ár eftir ár. En sumir sem þekkja þetta vel virðast ekki vilja af því vita.

Íslenskir atvinnurekendur gera sér líklega heldur ekki grein fyrir því að fulltrúar samtaka þeirra eru ekki að tala í nafni allra atvinnurekenda Evrópu þegar þeir veifa nýsjálensku leiðinni og lofa hana í hverju orði því staðreyndin er sú að þær þjóðir heims sem hafa valið þá leið að keyra yfir verkalýðshreyfinguna við breytingar á vinnumarkaðsreglum njóta langt í frá virðingar á þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar heldur þvert á móti skipa þær svolítið sérstakan sess. Ég vil nefna sem dæmi þá Nýsjálendinga og Breta. Og nú virðist sem Íslendingar ætli að fara að skipa sér í þann hóp.

Það er kannski ekki heldur alls kostar rétt að kenna íslenskum atvinnurekendum alfarið um þá stöðu sem komin er upp núna þótt íslenskir atvinnurekendur eigi að sjálfsögðu sinn þátt í öllu saman. Atvinnurekendasamtökin hafa hins vegar hagsmuna að gæta. Þeir eru gæslumenn ákveðinna hagsmuna og þessir hagsmunir fara oft og tíðum ekki saman við hagsmuni launafólks eða við hagsmuni samtaka launafólks. Það er hins vegar hlutverk ríkisstjórnar hverju sinni að gera sitt besta til þess að auðvelda nálgun þessara tveggja öndverðu póla á vinnumarkaði. Það er hennar hlutverk að tryggja að tekið sé tillit til beggja aðila við lagasetningu af því tagi sem hér er til umræðu eða þegar settar eru aðrar reglur um samskipti þessara tveggja aðila. Það er hennar hlutverk að hvetja menn til að ná saman í stað þess að skerpa andstæðurnar á milli þeirra. Í stað þess að ríkisstjórnin skili þessu hlutverki sínu skilmerkilega búum við nú við gífurlega ólgu í gervallri verkalýðshreyfingunni og það er sýnt að þeirri þróun sem þar er hafin verður ekki við snúið nema mikið komi til. Að mínu mati er það aðeins eitt sem verkalýðshreyfingin getur sæst á sem málalok miðað við málflutning hennar í þessu máli og það er að frv. sé dregið til baka og sett í farveg samráðs og samvinnu sem hefði verið meginkrafa allra stéttarfélaganna í landinu og samtaka þeirra.

Verði raunin sú að verkalýðshreyfingin setjist niður við samningaborðið án skilyrða með ríkisstjórn sem aftur og aftur hefur sýnt henni lítilsvirðingu og misnotað samvinnuvilja hennar hvað eftir annað, þá hefur ætlunarverk stjórnarinnar og atvinnurekendasamtakanna tekist, en það virðist vera að veikja verkalýðshreyfinguna, draga úr henni allan mátt svo að hún þvælist ekki fyrir við ráðstöfun á hugsanlegum efnahagsbata.

Ég sagði áðan að löggjöf sem sett er á vinnumarkaði í óþökk annars samningsaðilans væri ólög. Eftir henni er ekki farið og hún er jafnvel verri en engin lög. Ég vil nefna sem dæmi ákvæði núgildandi laga um sáttastörf í vinnudeilum um tengingarheimildir sáttasemjara, en ákvæði þeirrar greinar hefur nú verið tekið upp að nýju í frv. sem hér liggur fyrir. Samkvæmt því ákvæði skal sameiginleg miðlunartillaga sem nær yfir fleiri en einn deiluaðila borin sameiginlega undir atkvæði þeirra og skal sameiginlegt atkvæðamagn ráða úrslitum. Ákvæði þessu hefur mér vitanlega aldrei verið beitt. Ég hef verið að gera sérstaka athugun á því núna upp á síðkastið og mér er sagt að það sé möguleiki að einhvern tíma hafi þessu verið beitt í tengslum við tiltekinn samning vegna svokallaðrar Búrfellsdeilu, en þar hafi það verið gert í sátt aðila. En heimild sáttasemjara eða við skulum segja skylda samkvæmt lagaákvæðinu til að bera svona tillögu sameiginlega undir atkvæði þannig að sameiginlegt atkvæðamagn ráði úrslitum hefur ekki verið virt í reynd. Samt ætla menn að reyna að setja samskiptareglur á vinnumarkaði núna í óþökk allrar verkalýðshreyfingarinnar í landinu og telja sér trú um að það muni verða henni til farsældar.

[17:00]

Ég vil benda á í þessu samhengi að umrætt ákvæði var til umræðu í félmn. á sínum tíma. Ríkissáttasemjari kom fyrir nefndina og hann var spurður hvers vegna ekki hafi verið farið eftir þessu skýra ákvæði laganna. Hann staðfesti að a.m.k. mætti rekja hluta skýringarinnar til þess að menn hafi ekki verið sáttir um það að beita þessu ákvæði og umhverfið er einfaldlega þannig á vinnumarkaði að það er ekki hægt að setja lög sem menn eru ekki sammála um að fara eftir. Allur árangur kjarasamningaviðræðna byggir á því að það sé vilji þeirra sem semja að koma ákvæðunum í gegn og það sé sátt um málið. Þetta er bara eitt dæmi um að nú á að fara að bæta enn við lagaákvæði í íslenskum lögum sem menn eru ósáttir við og nánast vitað að það verður aldrei farið eftir þeim. Í stað þess að opna augun fyrir því að það þýðir ekki á þessu réttarsviði að setja reglur sem menn vilja ekki fara eftir. Ég er ekki að tala um að menn þurfi beinlínis að samþykkja allar reglur þótt vissulega sé það þannig í öðrum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. En það er lágmarkið að menn séu tiltölulega sáttir við reglurnar, að um þær sé einhver sátt.

Lagasetning sú sem hér er verið að setja í algjörri andstöðu við annan samningsaðilann býður einungis heim hættunni á því að innihald kjaraviðræðna snúist á næstunni og jafnvel til lengri tíma um formreglur en ekki innihald. Og þá er kannski lítið eftir af hinum upphaflegu markmiðum með blessaðri lagasetningunni sem átti að vera það að greiða fyrir samningsgerð.

En hverju spá forustumenn verkalýðshreyfingarinnar um andrúmsloftið í komandi kjarasamningum eftir að ríkisstjórnin verður búin, ef fram fer sem horfir, að gera að lögum frv. sem á að greiða fyrir kjarasamningum, fyrir samningagerð? Ég hef farið yfir stríðsyfirlýsingar sem ég vil kalla svo frá aðalfundi Vinnuveitendasambands Íslands sem hefur sýnt mjög hversu skörp skilin eru að verða á milli þessara tveggja aðila. Ég vil reyndar fullyrða að það sé nokkuð langt síðan svo skörp skil hafi verið þar á milli og það getur varla boðað mikinn samningsvilja í komandi kjarasamningum. En hvað segja forustumenn verkalýðshreyfingarinnar? Hverju spá þeir um andrúmsloftið í komandi kjarasamningum ef frv. verður að lögum? Ég vil, með leyfi virðulegs forseta, vitna hér í viðtöl í nýútkomnu Vikublaði við forustumenn verkalýðshreyfingarinnar. (ÖS: Lestu leiðarann.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur sjálfur lesið leiðarann ef hann hefur áhuga. Ég ætla hins vega að vitna hér, herra forseti, í viðtöl við nokkra forustumenn í verkalýðshreyfingunni um það hverju þeir spá um andrúmsloftið í komandi kjarasamningum. Hér vil ég fyrst grípa niður í viðtal við Hervar Gunnarsson, formann Verkalýðsfélags Akraness og varaforseta Alþýðusambandsins, en hann er spurður um það hvaða sess hann reikni með að vinnulöggjafarmálið eða frv. til breytinga á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og skyld stjórnvaldsmál hafi á komandi þingi Alþýðusambandsins. Og Hervar segir, með leyfi forseta: ,,Afstaða okkar er skýr. Við höfum viljað semja um þessi mál við viðsemjendur okkar og við teljum okkur vera fullburðug til þess og minnum í því sambandi á að það var þessi verkalýðshreyfing sem skóp þjóðarsáttina á sínum tíma. Því má ekki gleyma. Hafi hreyfingin þá verið þess megnug að skapa þjóðarsátt þá hlýtur hún að vera þess megnug nú að semja um hvernig eigi að halda á málum milli aðila vinnumarkaðarins.`` Hervar er síðan spurður um það hvernig hann reikni með því að staða kjaramála verði í lok árs þegar samningar losna. Og hann segir, með leyfi forseta: ,,Að því gefnu að frumvarpið um stéttarfélög og vinnudeilur nái fram að ganga sé ég fyrir mér að upphaf kjaraviðræðna snúist um allt annað en kjarasamninga, heldur snúist það um það hvernig menn eigi að vinna samkvæmt þessum lögum og deilum þar að lútandi. Ég hef virkilega miklar áhyggjur af því að þetta muni leiða til einhvers sem við kærum okkur ekki um,`` segir Hervar.

Hér er líka viðtal við Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur, formann Landssambands verslunarmanna, og hún er spurð að því hvaða áhrif hún haldi að frv. ríkisstjórnarinnar um stéttarfélög og vinnudeilur hafi á þinghaldið á Alþýðusambandsþinginu. Hún segir, með leyfi forseta: ,,Það hlýtur auðvitað að hafa mjög mikil áhrif. Þetta er mál sem lýtur að grundvallaratriðum fyrir alla verkalýðshreyfinguna og ég er sannfærð um að það verði látið fá forgang fram yfir allt annað á dagskránni.`` Og síðar segir hún, með leyfi forseta: ,,Ég er viss um að ef þetta frumvarp yrði að lögum mundi það setja kjaraviðræður í miklu erfiðari stöðu en annars kæmi upp. Ég er viss um að það verði þá miklu harðari deilur á vinnumarkaðnum og ábyggilega miklu meira af verkföllum en við höfum séð í mjög langan tíma. Það er verið að setja þarna af stað maskínu sem er allt önnur en við höfum starfað við og þetta skapar mikla spennu. Kjörin hafa verið afar lök og fólk hefur væntingar um betri tíð með blóm í haga.``

Að endingu vil ég vitna í Benedikt Davíðsson, forseta ASÍ, en hann er einnig spurður að því hvort það megi ekki búast við því að frv. ríkisstjórnarinnar um stéttarfélög og vinnudeilur komi eins og sprenging inn í umræðuna á þinginu. Og hann segir, með leyfi forseta: ,,Ég tel fyrst og fremst ef þetta frumvarp verður ekki að lögum séu allar líkur til þess að hægt sé að koma að málefnalegri vinnu að gerð kjarasamninga mjög snemma á hausti.`` --- Ég ítreka ef frv. verður ekki að lögum. --- ,,Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að gera það. Miðað við stöðuna í dag og horfur fram undan tel ég að það sé staða til að ná verulegum árangri í næstu kjarasamningum í því að bæta kjörin. Ef þetta verður hins vegar að lögum sé ég fyrir mér mikla erfiðleika við að koma á raunverulegum viðræðum um kjara- og efnahagsmálin og mikla annmarka á því að menn fáist til að gera áætlanir langt fram í tímann. Þess vegna tel ég mikilvægast fyrir þjóðfélagið allt að hægt yrði að stöðva þetta mál og aðilar fengju sjálfir að koma að gerð samskiptaáætlana í sumar þannig að samkomulag aðila liggi fyrir um það í haust. Ef menn yrðu sammála mætti lögfesta eitthvað af því. Við höfum oft farið þess á leit við stjórnvöld að einhver hluti þessa umhverfis verði lögfestur með góðu samkomulagi, málið yrði þá frá og hægt að snúa sér að framtíðarlausn efnahagsvandans til lengri tíma.``

Það er alveg ljóst af þeim viðtölum sem hér hefur verið gripið niður í við forustumenn verkalýðshreyfingarinnar að þar kveður við allt annan tón en hjá þeim sem mættu á aðalfund VSÍ fyrir skömmu. En hæstv. félmrh. þverskallast við og vitnar í skoðanakannanir og er sá málflutningur hreinlega til skammar. Að túlka þær tvíræðu spurningar sem spurt var á þann veg að þjóðin hafi lýst yfir stuðingi við frv. ríkisstjórnarinnar er ályktunarfærni sem fáum er gefin. Og undir þetta hefur reyndar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og frsm. meiri hluta félmn. tekið undir og nú er svo að skilja að búið sé að sækja um leyfi hjá þjóðinni fyrir frv. og innihaldi þess. Sé það einlægur vilji ríkisstjórnarinnar að láta launafólk sjálft ráða um þessi mál eins og hún hefur nú verið að ýja að, ætti hún að hafa jafnvel ákvæði þess efnis í frv., eins og einhver nefndi hér í umræðum við 1. umr., að það skuli fara fram atkvæðagreiðsla í öllum stéttarfélögum í landinu um það hvort frv. eigi að taka gildi. Það var einhver sem minntist á það við 1. umr. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Ef það er einlægur vilji ríkisstjórnarinnar að auka veg einstaklinganna, þessara ófrjálsu einstaklinga í stéttarfélögum, væri það kannski eina leiðin. Og ekki síður, ef þetta væri einlægur vilji ríkisstjórnarinnar, hefði hún átt í samráði við verkalýðshreyfinguna að standa fyrir ítarlegri kynningu á efni frv. þannig að almenningur í landinu ætti þess kost að kynna sér virkilega hvað það þýddi og hvaða þýðingu samþykkt þessa frv. hefði fyrir starfsemi stéttarfélaganna í landinu og þar á meðal fyrir launafólk sjálft. Það væru vinnubrögð sem bragð væri að og meira í anda þess félagslega anda sem hingað til hefur ríkt á vinnumarkaði mestmegnis hér á landi. Það væri eitthvað meira bragð af slíkum vinnubrögðum heldur en innihaldslausum skoðanakönnunum með tvíræðum spurningum sem eru síðan túlkaðar á mjög vafasaman hátt. En Framsfl. virðist hafa fengið ofurtrú á slíkum fyrirbrigðum en það er hins vegar ekki til farsældar að nota svoleiðis skrum þegar verið er að tala um grundvallarmannréttindi eins og við erum að fjalla um í þessu frv.

Ég verð að viðurkenna að ég er farin að þreytast örlítið á því að reyna að koma einhverjum örlitlum skilningi inn í kollinn á hæstv. ríkisstjórn í þessum málum. Þó vil ég nú gera enn eina tilraunina til þess að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstjórn og því ætla ég að fara nokkrum orðum um einkenni hins norræna módels og gildi samráðsins og sáttarinnar á vinnumarkaði ef ske kynni að framganga ríkisstjórnarinnar byggðist kannski að einhverju leyti á misskilningi eins og mér finnst örla fyrir hjá talsmönnum meiri hlutans í þessum málum. Mér finnst alltaf vanta einhvern grundvallarskilning á því hvernig hið norræna módel virkar í raun og veru. Norræna módelið eða norræna líkanið einkennist af nokkrum þáttum. Frumþáttur þess er að samvinna í stað átaka er lögð til grundvallar í samskiptum aðila vinnumarkaðarins og félagsaðild er almenn að stéttarfélögum. Og það að samvinna í stað átaka sé lögð til grundvallar, er einmitt öfugt við það sem ríkisstjórnin er --- ég vil beinlínis segja --- að efna til með framlagningu þessa frv. og annarra frv. sem hér hafa verið og hafa verið líkt við thatcheríska tilburði. Lagareglur um lágmarksvernd fyrir einstaka starfsmenn eru fáar samkvæmt norræna líkaninu og þær geta tekið breytingum og gera það mjög oft með almennum kjarasamningum. Samtök launafólks koma að jafnaði fram fyrir einstaklingsins hönd í ágreiningsmálum við atvinnurekendur en þannig njóta í raun og veru starfsmennirnir verndar gegn beinum þrýstingi frá atvinnurekanda í tengslum við réttindaágreining. Þannig er í raun og veru ekki sértaklega litið á það sem eftirsóknarverðan hlut að einstaklingarnir eigi að fá að semja sem mest sjálfir fyrir sína hönd. Það hefur hingað til ekki gefist mjög vel, herra forseti. Verkfallsréttur er frjáls þegar kjarasamningar eru ekki í gildi en friðarskylda er alger eða svo til alger á meðan kjarasamningur gildir. Rammalöggjöf eða aðalkjarasamningar ákvarða samkvæmt norræna módelinu hvernig haga eigi kjarasamningum aðildarsamtaka en kjarasamningar ásamt vinnulöggjöfinni eru grundvallarreglur vinnuréttarins.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að því stefnt að auka áhrif einstaklinganna í stéttarfélögunum eins og ég hef komið inn á hér áður í ræðu minni. En hvað þýðir þessi boðskapur í reynd? Hvað býr að baki hjá frjálshyggjumönnum eða framsóknarmönnum sem flagga einstaklingsfrelsinu gegn stéttarfélögunum? Er það tóm frelsisást og tóm velvild í garð hins vinnandi manns? Því miður segir mér svo hugur að svo sé ekki. Hér býr að baki vísvitandi viðleitni til að veikja stöðu verkalýðshreyfingarinnar og við þeirri atlögu verður hreyfingin og launafólk að bregðast af fullri hörku.

Sá grundvallarmunur, ef við víkjum aftur að norræna módelinu, er á miðevrópskum vinnurétti og norrænum vinnurétti að sá norræni byggir fyrst og fremst á samtökum eða hópum en sá síðarnefndi á einstaklingum. Norræna kerfið hefur þá hugsun að leiðarljósi að samskipti atvinnurekenda og launamanna á einstaklingsgrunni hljóti að fela í sér sterkari stöðu þess fyrrnefnda, þ.e. atvinnurekandans. Reynslan sýnir að í slíkum viðskiptum er launamaðurinn sá veikari og besta trygging hans gegn ofurvaldi atvinnurekandans eru sterk verkalýðssamtök sem verja grundvallarrétt hans. Grundvöllur sterkra samtaka launafólks er almenn félagsaðild að stéttarfélögum. Það er á þessum grunni sem stéttarfélögum er fengið svo mikið vald og mikil ábyrgð líka, herra forseti, sem reyndin er á Norðurlöndum. Það má eiginlega segja að félagsleg réttindi og félagslegar skyldur séu styrkt á kostnað þeirra einstaklingsbundnu að nokkru leyti. Einmitt þess vegna er það að oft stangast á álit ýmissa, t.d. alþjóðastofnana um þessi mál, um mannréttindamál, um annars vegar mannréttindi einstaklinga og hins vegar mannréttindi félagslegs eðlis. Það er vegna þess að þessi tvö sjónarmið koma oft og tíðum hvort úr sinni áttinni. En einhverja millileið verðum við jú að reyna að fara.

[17:15]

Sú skipan sem ríkir á Norðurlöndunum um fyrirkomulag á vinnumarkaði og ég hef verið að lýsa hér og hefur verið kölluð hið norræna módel, er komin til vegna óska launafólks, sem kom þessu fyrirkomulagi á á sínum tíma og um hana hefur ríkt sátt hingað til. Það er nauðsynlegt að skoða hina svokölluðu leiftursókn ríkisstjórnarinnar sem hefur verið nefnd svo í því ljósi sem hér hefur verið lýst og snúast jafnframt til varnar gegn þeirri bábilju að flokkarnir tveir sem nú sitja við stjórnartaumana séu að vinna sérstaklega í þágu launamannsins. Því er alltaf stillt upp þannig að þessir ríkisstjórnarflokkar séu að vinna sérstaklega í þágu launamannsins, að þeir séu að auka lýðræðið í stéttarfélögunum fyrir launafólk. Það er raunar mjög undarlegt að það skuli svo koma í ljós að þeir sem hrópa hvað hæst húrra yfir því eru atvinnurekendur, samtök atvinnurekenda. Það er orðið eitthvað undarlegt hagsmunanet á milli samtaka atvinnurekenda og litla mannsins í stéttarfélögunum. Það hefur komið í ljós í umræðunum um þessi svokölluðu skerðingarfrv. að ríkisstjórnin hefur ekki mjög mikinn skilning á samskiptum á vinnumarkaði og réttindum launafólks og ekki fyrir því hvernig slíkar reglur eigi að vera eða hvernig þær virka í framkvæmd. Ég vil nefna sem dæmi um vanvirðu ríkisstjórnarinnar fyrir samráðinu sem ég hef hingað til viljað kalla misskilning en ég held að það sé ekki lengur hægt að tala um misskilning heldur hreint og beint um ásetning, að það á ekki að fara eftir þeim reglum sem hafa tíðkast á Norðurlöndunum um samráð heldur eigi að búa til einhvers konar platsamráð, einhvers konar málamyndasamráð. En samráðið er einmitt ein af þeim grundvallarreglum sem norræna líkanið byggir á. Samráð ríkisstjórnarinnar felst í því að hafa samtök launafólks með í nefndarstarfi til undirbúnings löggjöfinni en notar hins vegar aðeins það sem hentar í endanlegum tillögum. Slík vinnubrögð eru ekki samráð og þau eru ekki samvinna. Það má frekar segja að hér sé um að ræða álitsumleitan til þessara aðila. Hún uppfyllir, herra forseti, alls ekki skilyrði norræna líkansins um samvinnu aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda og samráð. Það er langt því frá. Hún er ekkert í ætt við það einu sinni. Vilji ríkisstjórnin vinna í þágu launamanna þá ætti hún að virða þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið á norrænum vinnumarkaði í stað þess að hvetja til annarra vinnubragða sem einungis eru til þess fallin að skerpa andstæðurnar á milli aðila vinnumarkaðarins.

Það er rétt að ítreka það eina ferðina enn að lögþvingunin ein og sér er hættuleg verkalýðshreyfingunni og það er því lykilatriði fyrir verkalýðshreyfinguna og fyrir launafólk að láta hana ekki yfir sig ganga hljóðalaust. Ég tel reyndar að með lögþvinguninni, ef hún fer hér í gegnum þingið, þá sé beinlínis verið að snúa frá norræna líkaninu á vinnumarkaði að vissu marki og þeim grundvallarlögmálum sem þar hafa gilt um samráð, samvinnu og frjálsan samningsrétt aðila vinnumarkaðar. Slíkt spor væri, herra forseti, íslensku launafólki alls ekki til heilla. Það er fjarstæða að halda því fram að það væri því til heilla.

Hvað einstök atriði frv. varðar þá hefur framsögumaður minni hluta félmn. þegar gert grein fyrir áliti okkar, þ.e. fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í félmn., í þeim efnum. Eins og þar var tekið fram þá er því nú svo komið að allt sem orkar til bóta í frv. hefur verið skemmt auk þess sem ýmsar hugmyndir sem lýst var í áfangaskýrslu vinnuhópsins hafa tekið verulegum breytingum síðan þá. Innihaldið er því kannski annað en til stóð, a.m.k. af hálfu einhverra í vinnuhópnum. Nokkrum ákvæðum hefur verið breytt í meðförum félmn. eins og fram kom í framsögu bæði meiri hluta og minni hluta hér áðan og sumt er að ábendingu Lagastofnunar Háskóla Íslands sem hefur greinilega mun meira vægi hjá hæstv. ríkisstjórn en álit okkar færustu sérfræðina á sviði vinnuréttar. Það er svolítið undarlegt. Á þessa sérfræðinga er ekki hlustað og meginástæðan sem er gefin fyrir því er sú að þeir séu of tengdir aðilum vinnumarkaðarins. En ég vil upplýsa það hér að því miður er það svo að í vinnurétti öðlast enginn mikla visku öðruvísi en að sjá reglurnar framkvæmdar í raun, að sjá lagareglurnar og þær reglur sem þar gilda framkvæmdar í raun, auk þess sem túlkun samninga og reglna byggir að miklu leyti á hefðum og venjum. Það er kannski pínulítið öðruvísi en er um mörg önnur svið lögfræðinnar.

Tryggvi Gunnarsson, annar höfundur álits Lagastofnunar Íslands, hafði t.d. fyrirvara á máli sínu er hann ávarpaði félmn. og gerði grein fyrir áliti stofnunarinnar. Hann byrjaði á því að segja að hann hefði áttað sig mjög fljótt á því að það var ekki jafnauðvelt á þessu réttarsviði og á mörgum öðrum að setjast bara niður og lesa sér til eins og venjan er þegar lögfræðingar gera lögfræðiálit. Þá bara ráðast þeir á þær heimildir sem til eru og þær eru yfirleitt mjög aðgengilegar. En það er öðruvísi á sviði vinnuréttarins. Það er ekki aðeins það að lesefnið er af skornum skammti heldur er það einnig svo að réttarsviðið er mjög sérstakt og um það gilda um margt öðruvísi reglur varðandi túlkun. Það er mikið byggt á hefðum og venjum, miklu meira heldur en annars staðar auk þess sem tiltölulega lítið er um íslenskar heimildir og vinnumarkaður í öðrum löndum er kannski ólíkur okkar að mjög mörgu leyti. Þó að byggt sé á sömu grundvallarreglum þá er ekki hægt að færa vísvitandi beint yfir túlkanir frá öðrum löndum. Ég er alls ekki með þessu að gera lítið úr áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands. Ég vil taka undir það sem kom fram hér áðan í umræðunum að hún er hins vegar enginn Hæstiréttur eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson orðaði það. Það skýtur að mínu mati mjög skökku við að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki taka meira mark á þeim sérfræðingum sem helst hafa kynnt sér sviðið. Þá er ég bæði að tala um þá sérfræðinga sem hafa starfað hjá ASÍ og VSÍ, hvoru megin borðs sem er eða hjá BSRB, eða þá fjölmörgu, eða alla vega nokkru, þeir eru kannski ekki fjölmargir, sem eru sjálfstætt starfandi lögmenn út í bæ og hafa sérhæft sig sérstaklega á sviði vinnuréttarins. En að þeirra ráðum hefur alls ekki verið farið. Hæstv. félmrh. eða hvort það var hv. framsögumaður meiri hlutans, Siv Friðleifsdóttir, talaði um það áðan að annar þessara manna sem Lagastofnun felur að semja álitsgerðina sé prófessor í vinnurétti og hafi verið það til margra ára. Það er vissulega rétt. Hann hefur góða akademíska þekkingu á því sviði. En án þess að það sé kannski ástæða til að fara mjög ítarlega ofan í það hér þá vitum við það líka að sá hinn sami er mjög þekktur fyrir að vera mjög hlutdrægur á því sviði og fyrir bein afskipti og blaðagreinar af einstökum deilumálum á milli aðila vinnumarkaðarins þar sem hann hefur ekki farið dult með skoðanir sínar á íslenskri verkalýðshreyfingu. Í dagblöðum og víðar hefur hann líkt henni við ótemju sem þurfi að koma böndum yfir. Ekki að það eigi í sjálfu sér að rýra hans álit sem slíkt en af því að hér er verið að segja að aðrir sérfræðingar sem tiltækir eru séu á einhvern veginn háðir eða bundnir öðrum samningsaðilanum, þá vil ég vekja athygli á þessu. Álit Lagastofnunar Háskóla Íslands á því alls ekki að vera neinn stærri dómur en álit annarra lögmanna sem jafnvel hafa meiri reynslu af þessum málum.

Örlítið aðeins um álit Lagastofnunar. Það er náttúrlega ekki óskeikult í sjálfu sér heldur eru nokkur atriði í því sem ekki er tekin í raun og veru skýr afstaða til. Það er gert vísvitandi og m.a. eftir að hafa spurt annan höfunda álitsins sem kom fyrir hv. félmn., Tryggva Gunnarsson, þá viðurkenndi hann að það er margt í þessu sem er ekki hægt að segja um að sé alveg ótvírætt. Ég vil nefna dæmi. Lagastofnun komst að raun um að: ,,Ákvæði i-liðar 6. gr. frv. um sameiginlega miðlunartillögu ríkissáttasemjara og atkvæðagreiðsla um hana fer í bága við samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 98 eins og félagafrelsisnefnd ILO hefur túlkað sáttmálann.``

Síðan er farin sú leið sem kemur fram hér í nefndaráliti meiri hluta félmn. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þá er loks lögð til breyting á reglu l-liðar (31. gr.) um atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu en sú regla hefur sætt gagnrýni. Á það má minna að miðlunartillaga er neyðarúrræði til lausnar kjaradeilu. Þess vegna er eðlilegt að gera nokkrar kröfur um lágmarkshlutfall mótatkvæða. Lagt er til að dregið verði verulegu úr kröfum frv. um hlutfall mótatkvæða og miðað verði við að fjórðungur samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá þurfi að vera andvígur miðlunartillögu til þess að hún teljist felld í stað þriðjungs áður.``

Nú var annar höfunda álits Lagastofnunar spurður að því fyrir hv. félmn. hvort þessi rýmkun mundi teljast fullnægjandi og hvort hann teldi að hún mundi brjóta í bága við ákvæði samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Það kom svona eiginlega jamm og já, eða í raun og veru ekkert svar. Af hverju er það, herra forseti, að lögmaðurinn gat ekki kveðið skýrt á um þetta? Það er einmitt vegna þess að hæstv. félmrh. er á svo gráu svæði með þessu ákvæði því að það er einfaldlega komið út á svo grátt svæði um leið og settar eru reglur um það sem getur flokkast undir innri málefni stéttarfélaga. Hvort það dugi að hlutfallið sé 25%, 30% eða 35%? Um það er mjög erfitt að segja. Það kemur væntanlega ekki í ljós fyrr en einhver kærir til félagafrelsisnefndar ILO eða einhverra annarra alþjóðasamtaka hvort það standist að víkja svona frá almennum reglum um atkvæðagreiðslur. Meira að segja hin óskeikula Lagastofnun Háskóla Íslands eða þeir sem sömdu það álit geta ekki sagt til um það fullkomlega hvort frv. hæstv. félmrh. standist ákvæði þessara samþykkta, jafnvel eftir að breytingarnar eru gerðar. Það á að vera hæstv. félmrh. nægilega mikil lexía til að draga frv. til baka í stað þess að vera að ögra friði á vinnumarkaði með framlagningu þess.

Ég vil í lokin, herra forseti, lýsa þeirri skoðun minni og ítreka það sem þegar hefur komið fram hjá framsögumanni minni hluta félmn. að frv. sem hér er til umræðu er þannig til komið að þrátt fyrir efnisbreytingar á því í meðförum félmn. stenst það ekki enn þær kröfur sem verður að gera til slíkrar löggjafar. Vegna aðferðanna við setningu þess verður markmiðunum ekki náð. Í stað þess að greiða fyrir kjarasamningum og auðvelda samningsgerð eins og markmið frv. var upphaflega þá mun samþykkt frv. þvert á móti leiða til skarpari skila milli hinna tveggja aðila vinnumarkaðarins og skapa vaxandi ólgu á vinnumarkaði. Þess vegna er aðeins ein leið skynsamleg um meðferð þessa frv., herra forseti, þ.e. að ríkisstjórnin dragi það til baka og setji endurskoðun samskiptareglna á vinnumarkaði í farveg sanngjarns samráðs í anda hins norræna líkans. Þrjóska og þvermóðska, herra forseti, er fulldýru verði keypt ef hér verður allt logandi í ófriði þegar samningar verða lausir í haust.