Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 18:21:15 (6216)

1996-05-17 18:21:15# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[18:21]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 11. þm. Reykn. barmaði sér undan því að þingmenn Sjálfstfl. væru ekki í hópi þeirrar fjölmennu sveitar sem setið hefur í þingsalnum undir ræðu hv. þm. Það var þó þannig að ég var staddur í húsinu ásamt fjölda annarra þingmanna Sjálfstfl., hlýddi á hluta af máli hv. þm. og var mætavel ljóst hvað hér fór fram. Þar fyrir utan hefði hv. þm. mátt vita ef hann hefði fylgst með að a.m.k. tveir þingmenn Sjálfstfl. eru á mælendaskrá við umræðuna og munu þess vegna hafa tækifæri til þess að tjá hug sinn til frv. sem við höfum unnið að í félmn. Mér fannst því að skeyti hv. þm. væru algjörlega út í loftið. Í máli hv. þm. komu fram gamlar og myglaðar lummur um að Sjálfstfl. væri flokkur sem tæki ævinlega afstöðu gegn launþegum, tæki ævinlega afstöðu með atvinnurekendum. Þetta eru gamlar lummur úr stéttarbaráttunni sem ég hélt satt að segja, virðulegi forseti, að heyrðu sögunni til. Ekki síst hjá þeim mönnum sem tala mjög þegar það á við um nauðsyn þess að menn séu nútímalegir í umræðunni. Nú hefur það gerst að hv. þm. hefur plokkað upp úr fortíðinni nokkra orðaleppa sem hann hefur kosið að beita fyrir sig í umræðunni til að hafa eins konar aðdraganda að þeim pirringi sem kom fram í máli hans yfir því að Sjálfstfl. væri svo sterkur í íslenskum þjóðmálum sem raun bar vitni og hann rakti reyndar í máli sínu.