Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 18:23:28 (6217)

1996-05-17 18:23:28# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[18:23]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er afskaplega ánægður með að hv. þm. hefur setið fyrir framan sjónvarpið og fylgst með ræðunni og nú eru þrír sjálfstæðismenn hér en framsóknarmennirnir eru hins vegar allir horfnir. Ég vissi ekki að sjálfstæðismenn væru búnir að setja sig á mælendaskrá en ég fagna því. Mér finnst að menn eigi að taka dálítið á í umræðunni því að hún snýst um grundvallaratriði.

Hv. þm. sagði að ég væri með klisjur úr fortíðinni þegar ég er að tala um hagsmuni vinnuveitenda, verkalýðshreyfingar eða launþega en það er ekki svo. Í kjarasamningum er vitaskuld verið að takast á um hagsmuni. Það er verið að takast á um kaup og kjör. Það er verið að skipta ákveðnum verðmætum í þjóðfélaginu og ég get flutt langar ræður um það hvernig sú skipting er hér á landi miðað við önnur lönd, þ.e. launþegar og fyrirtæki en ég ætla ekki að gera það. Við erum hins vegar að ræða um hvort þessi löggjöf taki annan aðilann fram yfir hinn. Þingmaðurinn veit mætavel að ég er fyrir blómlegt atvinnulíf og öfluga og mikla verðmætasköpun og get aftur flutt mikla ræðu um það. Hins vegar er það mjög mikilvægt í því sambandi að staðið sé skynsamlega að skipulagi á vinnumarkaði þegar menn reyna að endurmeta 60 ára gömul lög. Það hefur ekki verið gert skynsamlega, hv. þm., hvorki aðferðin, hvernig menn gerðu það, né heldur innihaldið. Það ber að harma að svo skuli hafa farið. Sjálfstfl. er stór flokkur og ég sagði meira að segja að hann væri kannski stærsti launþegaflokkur á Íslandi. Spá mín er hins vegar sú að eitthvað kvarnist af honum launþegafylgið á þessu kjörtímabili. Það má vel vera að hv. þm. geti snúið því við. Ég held að besta leiðin fyrir hv. þm. væri að leggja til við ríkisstjórn sína að draga þessi frv. til baka. Þá mundi hann halda í launþegana.