Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 18:26:00 (6218)

1996-05-17 18:26:00# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[18:26]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst tónninn í þessari ræðu hv. þm. ólíkt gæfulegri en tónninn í fyrri ræðu hans. Nú sagði hv. þm. það sem ég hef alltaf viljað ímynda mér að einlæg skoðun hans væri að hann væri stuðningsmaður blómlegs atvinnulífs og vildi verja blómlegt atvinnulíf og teldi það mjög mikils virði. Ég hef ævinlega trúað því þegar hv. þm. hefur talað með þeim hætti. Ég hef líka viljað trúa því þegar hann leggur áherslu á að menn séu nútímalegir þá hafi hann meint það. Þess vegna hnaut ég um þessi ummæli hans í fyrri ræðu hans sem voru úr þessari marxísku glatkistu sem ég hélt satt að segja að menn væru hættir að leita í nema kannski með örfáum undantekningum, virðulegi forseti. Þess vegna lít ég þannig á að síðari ræðan hafi verið tilkynning hv. þm. um að það sem hann sagði í fyrri ræðu sinni bæri ekki að taka allt of hátíðlega að þessu leytinu.

Ummæli hv. þm. um að launþegar í landinu og að þau 40% þjóðarinnar, sem hafa að jafnaði stutt Sjálfstfl., séu haldnir einhverri gríðarlegri blekkingu, átti sig ekki á því að Sjálfstfl. sé hinn mikli óvinur eins og hv. þm. var að ýja að og að kjósendurnir skilji þetta ekki finnst mér allt að því að vera hroki og forsjárhyggja af hálfu hv. þm. gagnvart þessu fólki. Auðvitað hafa þeir kjósendur, sem hafa komist að þessari niðurstöðu áratugum saman á Íslandi, eðlilegar ástæður fyrir því. Mér finnst menn ekki geta talað með þeim hætti að þetta sé allt einhver gríðarleg blekking sem enginn hafi séð í gegnum nema einhverjir örfáir einstaklingar.