Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 18:36:48 (6223)

1996-05-17 18:36:48# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[18:36]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki verið haft samráð við gerð þessa frv. Þetta frv. var í öðrum farvegi eins og menn vita. Það þarf að stafa ofan í hv. þm. eina ferðina enn að hér er verið að lögfesta samningsumgjörð sem ómótmælanlega gengur á annan samningsaðilann til hagsbóta fyrir hinn aðilann. Það er það sem hér er verið að gagnrýna. Þetta er ekki lítilvæg spurning eins og hv. þm. gaf í skyn, einhver formspurning, eitthvað ómerkilegt. Við erum kosnir til að fara með þetta löggjafarvald og grundvallaratriði hvernig við beitum því. Ég hef margoft bent á að ef menn hugsa sér að gera breytingar á vinnulöggjöf, sem vafalítið þarf að gera, þá verða menn að finna því bæði pólitískan og faglegan farveg þótt endanleg ákvörðun sé pólitísk. Þessi aðferðafræði ríkisstjórnarinnar hlýtur að teljast harkaleg og fruntaleg árás á skipulagða verkalýðshreyfingu í landinu. Það er ekki hægt að túlka þessi frv. á neinn annan máta. Ég fullyrði að verkalýðshreyfingin þarf vitaskuld að búa við góða samningsumgjörð, heiðarlega og rétt setta samningsumgjörð sem hún getur m.a. komið að til að ná fram hækkun launa. En ég vil benda hv. þm. á að það hefur ekki ríkt neitt málþóf í sambandi við þá umræðu sem vísað var til um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Menn voru þar að lýsa skoðunum sínum. Hér eru þingmenn fulltrúar margra kjósenda, menn eru ekki að blekkja sína kjósendur á neinn máta með því að tala ítarlega og af tilfinningahita um mikilvæg mál. Ef hv. þm. lítur svo á, held ég að hann hafi ekki áttað sig á ákveðnum grundvallarreglum í lýðræðinu. En það verður að bíða betri tíma að skiptast á skoðunum um það.