Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 11:02:26 (6228)

1996-05-18 11:02:26# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[11:02]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi grundvallarumræðu og það að undirrituð var ekki með í starfi nefndarinnar frá upphafi, þá hefur mér ávallt verið sagt og það kemur skýrt fram í greinargerðinni að raunveruleg vinna að frv. átti sér ekki stað fyrr en eftir að ég kom í nefndina. En ef einhver grundvallarumræða átti sér stað áður, þá er þessi gagnrýni réttmæt. Ég get ekki deilt við hv. þm. um það.

En það komu alltaf átök upp þegar grundvallarumræða hófst eins og um það hvort ganga bæri út frá núverandi lögum um stjórn fiskveiða og að hve miklu leyti og þá hvaða greinum þar. Það var aldrei í raun og veru tekin grundvallarumræða um það. Það voru bara átök og hver og einn lýsti sínum sjónarmiðum og það var ljóst að það var ekki leyft að rökræða það til neinnar hlítar. Það er mitt mat.

Hugmyndir mínar eða áhugi á auðlindaskatti kemur þessu máli ekkert við, ekki neitt. Það eina sem ég hef verið að tala um er að það særir réttlætiskennd mína að sameignarákvæðið um nytjastofnana skuli ekki vera virkt. Það eina sem ég er að biðja um er að það verði virkt hvort sem það verður með því að koma á auðlindaskatti eða einhverri annarri aðferð.