Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 11:49:57 (6234)

1996-05-18 11:49:57# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[11:49]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í minni ræðu að mér var kunnugt um að þetta hefði verið gert áður en þó ekki síðan rækjukvótanum var úthlutað á Skjálfanda. Frá því að lögin voru sett 1990 hafa menn ekki unnið með þessum hætti eftir þeim upplýsingum sem ég hef.

Ég get hins vegar verið sammála hv. þm. um að það er eðlilegt að menn greiði fyrir veiðiheimildir sínar. Ég vil bara að það gerist öðruvísi. Ég vil að menn greiði fyrir veiðiheimildir sínar með þeim gjaldmiðli sem þeir nota í viðskiptum sín í milli, þ.e. með peningum og að þegar sú aðferð að láta menn gjalda fyrir sínar veiðiheimildir er tekin upp, þá eigi hún við um alla, ekki bara suma. Það er á því sem ég byggi mína gagnrýni. Það er fyrst og fremst á því að mér finnst það ekki réttlátt að sumir séu látnir greiða á meðan aðrir eru ekki látnir gera það og að greiðslan fari fram í veiðiheimildum til þeirra sem síðan mega selja þær fyrir peninga. Það er einfaldlega það ósamræmi og það óréttlæti sem í þessu felst sem ég er að gagnrýna.