Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 11:51:25 (6235)

1996-05-18 11:51:25# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[11:51]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ósamræmið í þessu máli hefði einungis falist í því ef ekki hefði verið farin sú leið sem lögð er til í frv. vegna þess að eins og ég rakti hérna áðan, þá hefur reglan ævinlega verið sú í þeim tilvikum sem ég þekki til og man eftir, að stuðst hefur verið við það að þegar ný tegund hefur verið sett inn í kvóta, hefur verið kvótasett, þá hefur þeirri aðferð verið beitt að viðkomandi útgerð hefur afsalað sér í einhverjum mæli hluta af þeirri veiðireynslu sem hún hafði í öðrum tegundum. Það er meginreglan þannig að það hefði verið ósamræmi í því ef ekki hefði verið með svipuðum hætti tekið á þessu máli núna. Síðan má auðvitað deila um það hversu há þessi prósenta á að vera o.s.frv. Um það geta menn auðvitað deilt. En mér finnst að menn geti ekki vikið sér undan í þessari umræðu að fjalla um þetta í samhengi. Hvað sem menn segja um spurninguna um stjórnkerfi fiskveiða, þá held ég að menn séu almennt sammála um að það verður að ríkja tiltekið samræmi í þessu á milli áranna þannig að ef mönnum hafa verið búnir þeir kostir á árum áður sem þeir hafa orðið að búa við æ síðan við úthlutun nýrra kvótategunda, þá er náttúrlega ekkert óeðlilegt að eitthvert svipað fyrirkomulag gildi í framtíðinni um þær tegundir sem verið er að kvótasetja. Í öðru væri falið hrópandi ósamræmi sem gæti að sjálfsögðu skekkt mjög samkeppnisstöðu einstakra byggðarlaga, einstakra útgerða, einstakra skipa og þar með þeirra sjómanna sem þar starfa.