Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 11:55:09 (6237)

1996-05-18 11:55:09# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[11:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er mín skoðun að við séum að ræða mjög svo tímabæra lagasetningu. Það hefði verið æskilegra að þessi löggjöf hefði verið sett áður en Íslendingar fóru í stórum stíl að sækja á úthafsmið og afla sér þar veiðireynslu, þannig að menn hefðu gert það í ljósi tiltekinna lagareglna sem mundu gilda um meðferð þeirra réttinda sem þannig mynduðust. En það er betra seint en ekki og það er tvímælalaust tímabært að endurskoða lögin frá 1976 sem af eðlilegum ástæðum ná engan veginn utan um þá miklu þróun sem orðið hefur í hafréttinum og úthafsveiðunum síðan.

Það er líka ljóst að stjórnvöld voru að ýmsu leyti vanbúin að takast á við útrás íslenskra veiðiskipa út fyrir landhelgina sem hófst í nágrenni við 1990 með veiðum á Reykjaneshrygg og síðan í Smugu, í Barentshafi, á Flæmingjagrunni og víðar. Ég ætla ekki að fara að eyða tíma í þá sögu. Hún er þekkt. En batnandi mönnum er best að lifa, segi ég gjarnan og ég held að það sé ljóst að núna er ekki lengur uppi neinn ágreiningur um mikilvægi þessara veiða né réttmæti þess að við Íslendingar gerumst fullgildir þátttakendur í nýtingu auðlindanna á úthafssvæðunum eftir því sem það er enn okkur opið.

Það er líka rétt sem hér var nefnt að auðvitað eru í þessu máli heilmikil tímamót séð í sögulegu samhengi við réttndabaráttu okkar, baráttu fyrir útfærslu landhelginnar og því að breikka grundvöll sjávarútvegsins sem atvinnugreinar í landinu og þar með auðvitað efnahagslegrar undirstöðu þjóðarinnar. Mér finnst við hæfi, herra forseti, að nefna til sögunnar nöfn tveggja manna sem mér koma sérstaklega í hug við þessar aðstæður, þ.e. þeirra Lúðvíks Jósepssonar, fyrrv. sjútvrh., sem að öðrum mönnum ólöstuðum á kannski stærstan hlut í útfærslu okkar réttinda á þessari öld og Eyjólfs Konráðs Jónssonar, fyrrv. alþingismanns, sem var óþreytandi baráttumaður fyrir því að við Íslendingar afsöluðum okkur í engu möguleikum til réttinda á aðliggjandi hafsvæðum okkar lögsögu. Ég leyfi mér, herra forseti, að nota þetta tækifæri og færa þessum tveimur heiðursmönnum þakkir fyrir þeirra framlag á þessu sviði.

Það er kannski við hæfi, herra forseti, einnig að fara aðeins yfir það hversu stór þáttur verðmætasköpunar af úthafsveiðum er orðinn í íslenskum sjávarútvegi og þjóðarbúskap. Ég hef nýlega verið að líta á tölur í því sambandi og taka þær aðeins saman. Reyndar birtust þær í fjölmiðlum fyrir nokkru unnar af einum af starfsmönnum Landssambands íslenskra útvegsmanna. Ef litið er til heildarverðmæta sem úthafsveiðar hafa fært inn í þjóðarbúið og færa væntanlega á þessu ári og tekið árabilið 1993 til og með 1996, þá liggur það þannig að á árinu 1993, fyrsta stóra árinu ef svo má segja í úthafsveiðunum --- en á því ári hófust bæði veiðar í Smugunni og á Flæmingjagrunni --- þá skiluðu úthafsveiðar 33 þús. tonnum rúmum í afla upp á verðmæti 2,2 milljarða. Það ár, 1993, var hlutfall úthafsafla af heildaraflaverðmæti íslenska flotans 4,3%. Á árinu 1994 var magnið 86.500 tonn að verðmæti 5,2 milljarðar kr. tæpir. Þá þegar var aflaverðmæti úthafsaflans orðið 10% af heildaraflaverðmæti íslenska flotans. Á árinu 1995, á síðasta ári, öfluðust 245.441 tonn. Þá er norsk/íslenska síldveiðin komin inn í miklu magni og aflaverðmætið 6 milljarðar rúmir eða 11,4% af heildaraflaverðmæti íslenska flotans. Samkvæmt áætlun sem nú er hægt að gera í kjölfar samninganna um norsk/íslenska síldarstofninn og 190 þús. tonna veiðiheimilda þar má ætla að þetta verðmæti verði einhvers staðar á bilinu 7,5--8 milljarðar kr. og aflinn gæti orðið nálægt 280 þús. tonnum sem þýðir að líklega verða um 12--14% jafnvel allt að 15% af heildaraflaverðmæti íslenska flotans vegna úthafsveiðanna á yfirstandandi ári.

[12:00]

Ef notuð er talan 7,6 milljarðar fyrir árið 1996 myndi það þýða að á fjögurra ára tímabili hefði 21 milljarður kr. rúmur komið inn í íslenska þjóðarbúið frá þessum veiðum. 21 milljarður í aflaverðmæti og nánast samsvarandi í beinum útflutningstekjum og rúmlega það þó vegna þeirrar verðmætaaukningar sem hér verður í landi t.d. í bræðslu eða vinnslu síldarinnar. Með öðrum orðum, herra forseti, hér eru á ferðinni gífurlega mikilvægir hagsmunir. Og það hefur gerst sem ýmsir spáðu, þar á meðal undirritaður fyrir um tveimur til fjórum árum, að þess væri skammt að bíða að hagsmunir Íslendinga yrðu í verulegum mæli blandaðir en ekki hreinir strandríkjahagsmunir eins og iðulega var haldið fram þegar úthafsveiðarnar voru að hefjast og jafnvel notað sem röksemdir gegn því að Íslendingar nýttu sér möguleika á þessu sviði að það myndi koma niður á okkur og verða okkur til tjóns af því að okkar hagsmunir lægju eingöngu í því að tefla fram hagsmunum strandríkja. Sem betur fer held ég að skilningur manna á þessu máli hafi aukist og menn átta sig á því að Ísland, rétt eins og flestar aðrar þjóðir sem stunda fiskveiðar í einhverjum umtalsverðum mæli, hefur þarna blandaða hagsmuni að verja. Við eigum orðið glettilega mikið undir því að sú verðmætasköpun sem sprettur upp úr úthafsveiðunum haldi áfram. Eða ætli það sé ekki farið að muna talsvert um það hvað verkefni fiskiskipaflotans snertir þegar svo er komið að aflaverðmætið sem frá úthafinu kemur er af þessari stærðargráðu, 12--15 af hundraði? Og verkefnin þar af leiðandi komin í að vera um einn og hálfur og jafnvel upp undir tveir mánuðir að meðaltali fyrir flotann sem þannig eru sprottin.

Um efni frv., herra forseti, ætla ég að fara hratt yfir sögu. Það gefst ekki tími til að ræða það í einstökum atriðum. Ég minni á, eins og hér hefur þegar verið gert, ákvæði 2. gr. sem eru sambærileg að mestu leyti við ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða til þess að tryggja það að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt þessum lögum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þetta er að sjálfsögðu eðlilegt ákvæði og í samræmi við þá grundvallarhugsun sem við viljum leggja í okkar löggjöf að menn eignist ekki í einkaeignarréttarlegum skilningi þau hlunnindi eða þann afnotarétt sem þeir fá í gegnum veiðar inni í efnahagslögsögunni eða í gegnum veiðar sem koma til á grundvelli samninga sem íslenska ríkið gerir við önnur ríki eða samtök um slíkt.

Ég tel mikilvægt að niðurstaðan varð sú í úthafsveiðinefndinni sem hér eru lögð til óbreytt að upphafsmálsgrein 4. gr. yrði eins og hún er orðuð: ,,Öllum íslenskum skipum eru heimilar veiðar utan lögsögu Íslands með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum og reglum settum með stoð í þeim.`` Sem sagt, grundvallarreglan er áfram sú að veiðar á úthafinu eru frjálsar. Það er að mínu mati sjálfsagt að ganga þannig frá málinu og hafa það jafnan svo að þær veiðar sem við erum ekki vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga skyldugir til að takmarka séu frjálsar á meðan það er þjóðarétturinn. Hitt er jafnljóst að vegna takmarkananna sem síðar eru lagðar til í 4. gr. og að nokkru leyti í 10. gr. stefnir í að þessar veiðar verði leyfisbundnar og það verði samningar um nýtingu úthafsins, sambærilegir við þá sem má segja að gildi innan lögsögu ríkja. Það er markmiðið. Það er takmarkið sem menn hafa sett sér með útahafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna, með starfi Alþjóðamatvælastofnunarinnar FAO og annars staðar þar sem verið er að fjalla um þessa hluti að ná utan um þessar stjórnlausu veiðar sem frelsi úthafsins hefur hingað til leitt af sér. Almenna reglan er eftir sem áður sú í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna, sbr. t.d. 116. gr., að veiðarnar séu frjálsar. Þeirri reglu hafa menn ekki snúið við þrátt fyrir það að úthafsveiðisamningurinn hafi verið gerður enda er úthafsveiðisamningurinn að stofni til viðbót við hafréttarsamninginn frá 1982. Það er rétt að menn hafi það í huga.

Ég tel þess vegna að sumt af því sem sagt hefur verið hér um heimildirnar í 4. gr. og ákvæði 10. gr. byggi á þeim misskilningi að menn hafa ekki áttað sig á því að við Íslendingar verðum á komandi árum væntanlega, eins og allar aðrar ábyrgar þjóðir í okkar heimshluta og um allan heim, samningsbundnir og skuldbundnir til þess að stjórna þessum veiðum og leyfisbinda sókn okkar fiskiskipa á úthafið, alls staðar þar sem samningar hafa tekist um nýtinguna. Og ég á von á því að það muni verða almenn regla þannig að ég óttast ekki þá stöðu sem hér var tæpt á af hálfu einstakra ræðumanna að það sé líklegt að Ísland skeri sig úr í þessum efnum, að við séum þarna að beita takmörkunum sem aðrar þjóðir muni koma sér hjá og þar af leiðandi færist verkefni og umsvif og þjónusta við fiskiskip til annarra landa. Að sjálfsögðu eigum við ekki að afsala okkur möguleikum í þessum efnum sem aðrar þjóðir ætla þá að hremma frá okkur og það er eðlilegt að við beitum þessum heimildum þannig að þær verði í takt við þróunina og í takt við það sem gerist í nálægum ríkjum og hér í okkar heimshluta, einkum á því hafsvæði sem við tilheyrum, norðanverðu Atlantshafinu.

Varðandi ákvæði 5. og 6. gr. um meðferð veiðiheimilda og ákvarðana sem tengjast deilistofnum annars vegar og hreinum úthafsveiðistofnum eða víðförlum stofnum hins vegar er aðalefnisreglan sú, og hún er eðlileg, að veiðireynslan er lögð til grundvallar þeirri réttindamyndun, réttindaávinnslu sem þar er í gangi. Það er þó heimilt að grípa til annarra ráða þegar ekki er fyrir hendi samfelld veiðireynsla og það er eðlilegt að svo sé. Það er að mínu mati einnig rétt að draga athygli sérstaklega að því frumherjaákvæði sem fjallað er um í síðustu málsgrein bæði 5. og 6. gr. og er að mínu mati mjög mikilsverð hugsun sem endurspeglast í þeim ákvæðum, sem sagt sú að menn vilja hafa fyrir hendi hvatningu til þess að menn leiti nýrra verkefna eins og þess er kostur á úthafinu og það sé heimilt að umbuna þeim aðilum sérstaklega sem leggja í kostnað og taka áhættu af því að reyna fyrir sér á nýjum miðum. Ég tel t.d. að þetta ákvæði eigi sérlega vel við hvað varðar brautryðjendastarf íslensku frumherjanna við veiðar á Reykjaneshrygg. Það liggur alveg fyrir að þær útgerðir sem þar brutu ísinn lögðu í mikinn kostnað og tóku verulega áhættu. Það var þróuð hér í landinu ný kynslóð veiðarfæra og því fylgdi umtalsverður kostnaður. Mér er það líka vel kunnugt að á köflum stóð það býsna glöggt að síðustu útgerðirnar gæfust upp á þeim veiðum og létu þær lönd og leið. Svo erfiðlega gekk og svo mikill kostnaður var samfara því að læra á þessar veiðar og þessi mið og þróa ný veiðarfæri. Ég tel því að þeir sem þraukuðu og héldu út og brutu ísinn og öfluðu þeirrar þekkingar sem nú er grundvöllur gífurlega mikilvægrar verðmætasköpunar á þessum slóðum eigi það sannarlega skilið að fá það í einhverju metið. Þessi regla skiptir líka máli í samhengi við þau skerðingarákvæði sem er að finna í 5. og 6. gr., þ.e. að heimilt sé að skerða allt að 20% vegna varanlegra veiðiréttinda þegar deilistofnar eiga í hlut og allt að 10% þegar hreinir úthafsstofnar frá okkur séð eiga í hlut. Til mótvægis kemur þessi frumherjaregla sem verkar sem hvatning fyrir þær útgerðir sem eru að reyna fyrir sér á nýjum slóðum.

Í framhaldi af þeirri umræðu sem hér varð um réttmæti þess að beitt sé þeim skerðingarákvæðum að menn leggi eitthvað af mörkum þegar þeir fá varanlega úthlutað nýjum réttindum sem koma til sögunnar þegar eða ef þessari reglu yrði beitt held ég að þar hafi til viðbótar vantað eina veigamikla röksemd í umræðunni áðan. Hún er sú að þessi réttindi eru að hluta til að myndast á grundvelli íslensks ríkisfangs. Það er augljóst til að mynda þegar deilistofnar eiga í hlut að það er vegna réttinda íslenska strandríkisins sem veiðiheimildir myndast að hluta til handa okkur Íslendingum á Reykjaneshrygg. Nú liggur fyrir samkomulag þar sem einmitt Ísland sem slíkt fær umtalsverð réttindi. Til viðbótar koma svo réttindi sem við fáum á grundvelli aflareynslu sem þátttakendur í úthafsveiðunum á Reykjaneshrygg og sannast þá enn sem margir sögðu að það væri misskilningur að í því væri fólgin mótsögn. Annars vegar að halda fram réttindum strandríkjanna en hins vegar því að gerast þátttakendur í úthafsveiðunum. Niðurstaðan varðandi samningana um skiptingu veiðiheimilda á Reykjaneshrygg sannar einmitt hið gagnstæða. Hún sannar gildi þess að Íslendingar hafa gert hvort tveggja, haldið fram rétti sínum sem strandríki en líka verið þátttakendur í veiðunum. Og fá fyrir vikið jafnframt úr þeim potti sem skipt er á grundvelli aflareynslu á úthafinu. En það er sem sagt alveg ljóst að veiðiheimildir íslenskra skipa á Reykjaneshrygg í framtíðinni, þar verður með varanlegum hætti skipt upp aflahlutdeild, samanstanda af tveimur þáttum. Annars vegar veiðireynslu okkar, hins vegar af þeim hlut sem strandríkið Ísland fær vegna legu sinnar og vegna þess að hér er um deilistofna að ræða. Þá er að sjálfsögðu eðlilegt að þeir ávinningar komi að einhverju leyti öllum til góða sem veiðiréttindi hafa á grundvelli íslensks ríkisfangs. Af þeim sökum og þó ekkert annað kæmi til er eðlilegt að menn leggi að einhverju leyti til baka veiðiheimildir í sameiginlegan pott. Þessar röksemdir eiga að sjálfsögðu síður við þegar um hreina úthafsveiðistofna er að ræða eins og t.d. upp í Barentshafssmugunni og engum íslenskum strandríkjarétti er til að dreifa. Þar fáum við hvert einasta kíló sem við vonandi fáum á grundvelli samninga vegna þess að við brutumst þar til veiða, náðum þar aflareynslu og sýndum fram á að veiðimöguleikar á hinu alþjóðlega hafsvæði voru fyrir hendi. En verði gerðir um það samningar þá verða þeir samningar eftir sem áður gerðir af íslenska ríkinu. Það má því segja að þar sé eftir sem áður viss röksemd fyrir því að ákveðin sameiginleg réttindaávinnsla er að eiga sér stað sem eðlilegt er að komi í einhverjum mæli öðrum til góða. Það er þó að sjálfsögðu rétt að fara þar mun vægar í sakirnar og e.t.v. væri hyggilegra að reikna ekki með að beita þeirri heimild nema að hluta til.

Ég tek svo undir það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði. Það að menn láti að einhverju leyti á móti veiðiheimildir í öðrum tegundum þegar úthlutað er nýjum réttindum, þegar búin eru t.d. ný sérveiðiréttindi, er sú regla sem almennt hefur verið notuð í aflamarkskerfinu og þess vegna er það í samræmi við þá meðferð sem hér er lögð til. Ég minni á að það er grundvallarmunur á því hvort til sögunnar eru að koma ný réttindi sem eru að verða samningsbundin og kvótasett eða þegar aflamark var sett á á sínum sínum tíma 1983. Menn tala alltaf eins og þá hafi menn fengið eitthvað nýtt á silfurfati. En hvað fékk útgerðin á Íslandi þegar aflamarkið var sett á 1983? Hún fékk á sig takmarkanir. Hún fékk á sig niðurskurð frá þeim veiðum sem hún hafði verið að stunda og gert um áratuga skeið. Hvers vegna áttu menn endilega að fara að borga fyrir það þá að fá að gera það sem þeir höfðu verið að gera, þ.e. að sækja sjó? Ég spyr. Mér finnst oft grundvallarmisskilningur uppi í röksemdafærslunni í þessu máli sem virðist stafa af því að menn muna ekki nema aftur til 1985 eða 1990. Upphaf þessa máls er það að kvótinn er settur á 1983 og þá gerist það í formi þess að möguleikar manna eru takmarkaðir. Menn fengu þar ekki neitt ókeypis á silfurfati annað en að fá að hluta til að halda áfram að gera það sem þeir höfðu verið að gera.

Um 8. gr. um eftirlit hef ég ekki mörg orð. Það er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að hafa heimildir til gjaldtöku vegna kostnaðar af eftirlitinu. Það er búið að færa kostnað af veiðieftirliti að mestu leyti yfir á herðar íslenskrar útgerðar innan lögsögunnar. Það var gert í tveimur áföngum á síðasta kjörtímabili þegar kostnaður af svokölluðu veiðieftirlitsgjaldi var settur á útgerðina í tveimur þrepum og kostnaður upp á eitthvað á annað hundrað milljónir valt í tveimur skrefum yfir á útgerðina. Það er því til samræmis við það að úthafsútgerðin standi í sjálfu sér undir sínu eftirliti. En ég segi: Það er afar mikilvægt að samningamenn Íslands standi sig betur í þeim efnum en t.d. gerðist í samningunum um eftirlitið á Flæmingjagrunni. Þar er það sem slagurinn stendur, ekki í sjálfu sér í löggjöf okkar hér heima heldur í hinu að við náum samningum um hófsamlegt eftirlit sem ekki verði sligandi með óbærilegum útgjöldum fyrir útgerðirnar sem stunda veiðar á úthafinu. Það er það sem við þurfum að sameinast um en ekki hitt að deila um að óhjákvæmilegt er að einhverjar heimildir til gjaldtöku verði að vera í löggjöfinni. Vonandi verður svo farið skynsamlega með þær.

Að síðustu, herra forseti, hafði ég ætlað mér að nefna hér þá staðreynd að því miður er ekki búið að leggja fram á þingi tillögur til fullgildingar úthafsveiðisamningnum. Ég gagnrýni það, mér finnst það miður að hér skuli ekki á þessum vetri hafa verið unnin fullgildingarvinna af hálfu Íslendinga. Það er augljóst mál að úthafsveiðisamningurinn er á leiðinni sem þjóðaréttur varðandi veiðar á úthafinu. Mér hefði fundist við hæfi að við Íslendingar yrðum fyrsta þjóðin til þess að fullgilda að okkar leyti þennan samning. Það er ekki eftir neinu að bíða með það þannig að ég skora á hæstv. ríkisstjórn að drífa þau skjöl fram til meðferðar á þinginu í síðasta lagi þá í upphafi þings næsta haust úr því að tæplega verður við því séð á þessu vori. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.