Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 12:47:13 (6245)

1996-05-18 12:47:13# 120. lþ. 141.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[12:47]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég á sæti í þeirri þingnefnd sem mun fá þetta mál til meðferðar. Ég ætla ekki að ræða mikið einstök efnisatriði þessa frv. en koma að nokkrum almennum þáttum sem það snerta. Ég vil þó nefna varðandi 2. gr. frv., þ.e. nýja nafngift á þann sjóð sem hér um ræðir að ég er ekki alveg sannfærður um að það sé rétt að gefa sjóði af þessum toga nafnið Forvarnasjóður vegna þess að forvarnir eru víða viðhafðar og þurfa víða við að koma, t.d. á heilbrigðissviði og gæti hugsanlega leitt til misskilnings. Þó að það þurfi ekki að vera til baga þá nefni ég þetta nú sem álitaefni en ekki er ástæða að ræða það svo frekar af minni hálfu við þessa umræðu.

Það sem mér er aðallega í huga er hvernig ákvörðun verður tekin í sambandi við aðgerðir á þeim mörgu þéttbýlisstöðum þar sem bregðast þarf við hættu af snjóflóðum sérstaklega og í hvaða röð slíkar ákvarðanir verða teknar.

Mér hefur lengi fundist að meðferð þessara mála hafi sætt heldur litlum skilningi hjá stjórnvöldum þrátt fyrir að þetta ástand hafi verið ljóst um fleiri áratugi og alveg ótrúlegur sofandaháttur hjá hinu opinbera kerfi þar að lútandi að tryggja aðgerðir. Þetta hef ég sagt áður og ætla svo sem ekki að gera hér frekar að umtalsefni. En síðan gerist það að á síðasta ári fyrst og fremst og þessu ári að við fáum mikið högg á Vestfjörðum og það verður til þess að gripið er til skipulegra aðgerða og þetta frv. er m.a. afleiðing af því. Sannarlega ætla ég ekki að draga úr því að brugðist verði við m.a. með gerð varnarvirkja á stöðum sem hafa orðið fyrir miklu áfalli vegna snjóflóða og þar sem menn hafa verið að athuga þessi mál og vonandi komist að góðri niðurstöðu, án þess að ég hafi athugað nokkuð sérstaklega þær tillögur sem liggja fyrir um varnarvirki. Það er sérfróðra aðila í samvinnu við heimamenn að taka ákvarðanir þar að lútandi þó að auðvitað sé um að ræða gífurlega mikla fjármuni sem jafnframt er eðlilegt að fjallað sé almennt um af hálfu þingsins.

Ég vil minna á að það eru mun víðar en á Vestfjörðum byggðarlög sem búa við snjóflóðahættu, t.d. í minni heimabyggð þar sem menn fengu skell mikinn fyrir röskum 20 árum. Þar voru gerðar tillögur um varnarvirki fljótlega á eftir. Fyrstu tillögur að gerð varnravirkja lágu fyrir 1976. En ekkert hefur verið aðhafst í þeim efnum í framhaldi af því, m.a. vegna þess að lagaramminn og fjárhagsramminn um ofanflóðasjóð var ekki með þeim hætti að það hvetti til aðgerða. Bæði var sveitarfélagi ætlaður mjög stór hlutur en þess utan var mikið tómahljóð í ofanflóðasjóði lengst af á þessu tímabili sem m.a. varð þess valdandi að menn ekki horfðu til slíkra aðgerða eins og ella hefði verið.

Nú veit ég að víða um land er unnið að mótun tillagna um þessi efni. Ég tel að þinginu og framkvæmdarvaldinu beri að sjá til þess að á eðlilegan hátt sé tekið á aðgerðum og það sé vandlega athugað og metið í hvaða röð brugðist skuli við í þessum efnum. Ég hefði talið að frv. af þessum toga hefði þurft að koma fram fyrr á þinginu þannig að meira ráðrúm væri til en líklegt er að verði til þess að fjalla um ýmsa þætti sem því tengjast. Það blasti við þegar í haust að mjög aukin fjárveiting þyrfti að koma til í einhverju formi vegna þessara mála og það er heldur slæmt að við skulum um miðjan maímánuð vera að fjalla um þetta þegar fáir dagar eða fáar vikur a.m.k. lifa af þessu þinghaldi. Það er ekki til fyrirmyndar. Ég hefði talið að eðlilegast væri að taka á þessum málum þegar fyrir lægju tillögur um aðgerðir sem víðast þó að hitt sé jafnljóst að einhvers staðar þarf að byrja. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við þær framkvæmdahugmyndir sem hér liggja fyrir en ég vek samt athygli á því að ýmsum spurningum er ósvarað um framhaldið. Ég vil spyrja í sambandi við þessi efni: Hvernig sér hæstv. umhvrh. að tekið verði á þessum málum? Gerir hæstv. ráðherra ráð fyrir því að lánsheimilda verði aflað fyrir þennan eflda sjóð bara eftir þörfum þannig að það verði hægt að ráðast í framkvæmdir þegar undirbúningur liggur fyrir eða safnast þarna upp biðröð? Og þá vandast málið. Á þessu vildi ég vekja athygli, virðulegur forseti. En ég mun auðvitað leitast við að stuðla að því að þetta mál fái eðlilega meðhöndlun í nefnd og afgreiðslu af hálfu þingsins þó ég neiti því ekki að mér finnst málið vera óþægilega seint fram komið og að æskilegt hefði verið að það lægi fyrir jafnvel skýrari mynd og þá einnig að því er varðar fleiri staði sem eru að vinna að þessum málum, áður en menn færu að binda sig í aðgerðir.