Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 13:18:44 (6249)

1996-05-18 13:18:44# 120. lþ. 141.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[13:18]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu frekar um Neskaupstaðarmálið. Ég veit að hana þekkir hv. þm. mikið betur en ég og ástæðulaust er að fjalla um það frekar hér og nú. En auðvitað minnir það okkur á að við verðum að fylgja málunum eftir núna af fullri festu og megum ekki láta það henda okkur sem því miður gerðist þá og kannski vill gerast oftar, að rokið er til og hrint í gang einhverju átaki fyrst eftir alvarleg áföll. Að tveimur, þremur eða fjórum árum liðnum virðist hafa fjarað undan því og kannski að einhverju leyti málið gleymst og svo stöndum við uppi með ný alvarleg áföll sem eru auðvitað algjörlega óásættanleg, það má kannski segja óafsakanleg og hefðu ekki þurft að henda ef það hefði verið unnið að málum og þeim fylgt betur eftir en á árum áður. Þessi saga frá Neskaupstað ætti kannski fyrst og fremst að vera okkur víti til varnaðar og hvatning til að halda áfram af fullri festu með þetta mál sem nú er til umræðu.

Varðandi frv. eins og það liggur hér fyrir þá vil ég ítreka að ég tel að lántökuheimildin sé brýnust. Hún er númer eitt. Í öðru lagi vil ég leggja áherslu á að sjóðnum verði tryggður fastur tekjustofn. Ég held að það sé mjög brýnt og það er brýnt að gera það núna fyrst og fremst af þeirri ástæðu sem ég þó nefndi ekki fyrr en rétt í lok ræðu minnar, þ.e. gjalddagar tryggingaiðgjaldanna. Ef haldið er við þennan tekjustofn sem hér er lagður til sem tekjur til ofanflóðasjóðsins og að þær séu af svipuðum toga og til Viðlagatryggingarinnar, þá eru gjalddagar a.m.k. hjá sumum tryggingarfélögunum 1. október. Þess vegna er mjög brýnt að fá það mál einnig afgreitt nú. Með aðra þætti eins og nafngift og kannski útvíkkun á verksviði sjóðsins og slíkt tel ég að séu auðvitað ekki aðalmálin sem við erum að fjalla um núna þó það hafi verið talið rétt í ráðuneytinu að koma því fram núna til lagfæringar ef það mætti takast. En hitt eru aðalatriðin.