Rannsókn flugslysa

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 13:23:06 (6251)

1996-05-18 13:23:06# 120. lþ. 141.7 fundur 191. mál: #A rannsókn flugslysa# frv. 59/1996, Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[13:23]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. samgn. um frv. til laga um rannsókn flugslysa ásamt breytingartillögu við sama frv.

Meginefni þess frv. sem hér um ræðir er að það er gert ráð fyrir breytingum á rannsóknum flugslysa þannig að rannsóknarheimildir og skyldur Flugmálastjórnar eru algerlega felldar niður og rannsókn lögð í hendur eins sjálfstæðs og óháðs aðila, rannsóknarnefndar flugslysa. Þessi stefna að aðskilja flugslysarannsóknir frá starfsemi Flugmálastjórnar er mjög í samræmi við þá þróun sem hefur orðið í löndunum í kringum okkur, t.d. í Evrópu, og er framhald af skrefum sem þegar hafa verið stigin hér á landi. Ég nefni í þessu sambandi tilskipun Evrópusambandsins frá 21. nóv. 1994 sem varðar grundvallaratriði í rannsóknum flugslysa og flugatvika. Samkvæmt þeirri tilskipun skulu aðildarríki Evrópusambandsins hafa komið á þeirri skipan sem tilskipunin mælir fyrir um ekki síðar en 21. nóvember nk. Það sem verið er að gera með þessu frv. hér er í raun og veru að stíga enn eitt skrefið í þessa átt, þ.e. að skilja að rannsóknir flugslysa annars vegar og skyldur Flugmálastjórnar hins vegar.

Samgn. gerir nokkrar breytingartillögur á frv. sem allar lúta að því að styrkja þessa grundvallarhugsun.

Í fyrsta lagi er lagt til í 3. gr. frv. að gerðar verði sömu kröfur til varaformanns rannsóknarnefndar flugslysa og formanns, þ.e. um hæfi, reynslu og þekkingu enda er gert ráð fyrir því að varaformaður sé staðgengill formanns.

Í öðru lagi er lögð til sú breyting á 7. gr. frv. að flugmálayfirvöldum beri að sjá til þess að úrbótatillögur rannsóknarnefndarinnar í flugöryggismálum verði teknar til formlegrar afgreiðslu þannig að það liggi fyrir með hvaða hætti þessar tillögur verði afgreiddar og úr þeim skorið.

Síðan er lögð til sú breyting á 12. gr. frv. að gögn úr svokölluðum flugritum beri að varðveita varanlega þannig að grípa megi til þessa mikilvæga rannsóknargagns ef ástæða þykir til síðar.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á 14. gr. frv. sem snertir birtingu lokaskýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þessi breyting er gerð í samræmi við breytingu sem lögð er til á 16. gr. frv. Samkvæmt henni ber nefndinni að senda aðilum máls lokaskýrslu rannsóknar og síðan hæfilegan eintakafjölda til Flugmálastjórnar sem afhendir eintök af skýrslunni þeim sem þess óska. Þar er einnig kveðið á um að nefndin skuli taka saman heildarskýrslu um störf sín ár hvert og að þær skýrslur megi selja á kostnaðarverði.

Loks er lagt til að bætt verði inn nýju ákvæði í frv. þess efnis að drög að skýrslu rannsóknarnefndarinnar um slys skuli send hlutaðeigandi aðilum til umsagnar. Þetta er talið mjög mikilvægt atriði. Þessum aðilum skal gefinn tilskilinn frestur til þess að koma að athugasemdum sínum áður en endanlega er gengið frá skýrslunni, enda liggi afstaða þeirra ekki þegar fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft.

Virðulegi forseti. Þetta er nál. samgn. Þetta mál hefur fengið eðlilega umfjöllun í nefndinni. Við höfum kallað á okkar fund fulltrúa flugslysanefndar og Flugmálastjórnar og fengið umsagnir frá fjölmörgum aðilum. Nefndin stendur öll að afgreiðslu frv.