Umgengni um nytjastofna sjávar

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 13:44:10 (6253)

1996-05-18 13:44:10# 120. lþ. 141.3 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, SighB
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[13:44]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í umræðum um mál þetta í hv. sjútvn. kom m.a. fram frá ýmsum sem þar mættu sem gestir að ástæða væri til að ætla að verulegum afla væri hent í sjóinn. Ekki síst meðafla þegar stunduð væri veiði á utankvótategundum eða sérveiði og aflakvóti viðkomandi skips, t.d. á þorski væri að mestu uppurinn. Þá ættu menn aðeins um tvo kosti að velja. Annaðhvort að koma með meðaflann sem væri umfram kvóta að landi og eiga þá á hættu að missa veiðileyfi eða að láta aflann fara í sjóinn og brjóta þannig gegn ákvæðum frv. þess sem hér er til umræðu um að skylda sjósóknara til að koma með allan afla að landi.

Það má segja að frv., eins og það er úr garði gert, stefni í gagnstæðar áttir. Annars vegar að skylda alla sjómenn sem sækja fisk til að koma með afla að landi hvort sem þeir eiga kvóta fyrir honum eða ekki og á hvaða verði sem hann kann að seljast. Hvort það er fyrir neðan það verð t.d. sem þeir hafa leigt kvóta á ef um leigukvóta er að ræða eða hvort það að koma með meðafla að landi gæti kostað þá veiðileyfi ef þeir væru búnir með þorskaflakvóta sinn eins og ég rakti áðan. Um þetta urðu miklar umræður í sjútvn. eins og ég sagði frá og hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem átti þar sæti um hríð í forföllum annars, kynnti m.a. skynsamlega lausn á þessu máli sem byggir á því að hægt sé að koma með allan afla að landi og standa þannig við ákvæði laga um umgengni um nytjastofna sjávar eða frv. þess sem væntanlega verður að lögum en jafnframt að gera kleift að hægt væri að koma með afla að landi án þess að það kostaði sviptingu veiðileyfis þó svo að kvóti væri að mestu leyti uppurinn. Um þetta urðu nokkrar umræður í gær. Ég gat því miður ekki verið viðlátinn, ég hafði veikindaleyfi í gær. Mér er tjáð að nokkrar umræður hafi verið um þetta í gær og þar á meðal umræður um þá hugmynd sem hv. þm. Pétur H. Blöndal lagði fram í nefndinni. Sú hugmynd hefur verið ofarlega á baugi í umræðum margra annarra þingmanna, m.a. þess sem hér stendur. Ég lýsti því á fundi nefndarinnar að ég gæti mætavel fallist á tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem væri ein aðferð sem hægt væri að nota til að taka á þessu mikla vandamáli, þ.e. að gera mönnum kleift að koma með afla að landi umfram þann kvóta sem þeim er úthlutaður hverju sinni en þó þannig að þeir hefðu ekki fjárhagslega hagsmuni af því að sækja sér afla umfram þann aflakvóta, sem þeim hefði verið úthlutað, heldur rynni þá afraksturinn af þeim veiðiskap til þjóðþrifamála sem gætu komið sjávarútveginum að gagni. Auðvitað má hugsa sér ýmsar aðferðir á útfærslu á þessum atriðum svo sem að menn gætu keypt sér viðbótaraflakvóta áður en þeir héldu úr höfn ef þeir væru búnir með aflakvóta sinn, t.d. í þorski, og væru að stunda aðrar veiðar þar sem hætta væri á að þorskur kæmi í veiðarfærin og borga þá fyrir það eitthvert ákveðið gjald sem gengi til ríkissjóðs eða til sérstakra þarfa. Eða þá í slíku tilviki rynni ekki nema tiltölulega óverulegur hluti aflaverðmætisins til útgerðar, áhafnar og skipstjóra en meginhluti aflaverðmætisins rynni til þjóðþrifaverka sem gætu komið útgerðinni vel. Það er sú tillaga sem hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsti m.a. á fundi sjútvn. og ég lýsti fylgi mínu við.

Virðulegi forseti. Ef ég hefði getað verið hér við 2. umr. hefði ég að sjálfsögðu flutt þá breytingartillögu sem ég nú flyt við 3. umr. á þskj. 1004 en ég gat það ekki af óviðráðanlegum ástæðum. Ég flyt þessa breytingartillögu ekki vegna þess að ég telji að hún hafi nægilegan stuðning á hinu háa Alþingi Íslendinga til að fá meirihlutasamþykkt heldur fyrst og fremst til að vekja athygli á málinu og sýna m.a. hvernig hægt er að framkvæma þessa hugmynd og finna henni stað í lögum. Auðvitað mætti hugsa sér aðrar framkvæmdaleiðir en meginatriðið er að koma þeirri hugmynd á framfæri sem hér er lögð fram og ég tel vera mjög jákvæða því hún gerir það að verkum að menn geta staðið við þau fortakslausu fyrirmæli væntanlegra laga um umgengni um nytjastofna sjávar að koma með allan afla að landi án þess að eiga á hættu að það að virða lögin geti kostað þá veiðileyfissviptingu vegna þess að þeir hafi ekki átt fyrir þeim afla í kvóta sem þeir hafa fengið þegar þeir hafa stundað veiðar á öðrum fiski en t.d. kvótasettum fiski og ekki getað átt von á því að sá afli kæmi í veiðarfærin sem þó kom. Slíkt getur oft komið fyrir. Við Vestfirðingar þekkjum það vel t.d. í línuútgerð að það getur iðulega komið fyrir þegar róið er með línu í þeirri von að fá steinbít að þá komi þorskur upp með veiðarfærinu og jafnvel verulega mikill þorskur þó að reynt sé að hafa stjórn á því, m.a. eins og hefur verið gert á þeirri línuvertíð sem hefur staðið yfir í vetur að menn hafa reynt að beita fyrir steinbítinn með beitu sem þeir telja að laði ekki þorsk sérstaklega þó það kosti þá að fá minni steinbítsafla en ella. Jafnvel þó menn beiti slíkum aðferðum getur verið mjög erfitt að áætla fyrir fram hvernig aflasamsetningin í línuróðrinum verður. Hún getur orðið með þeim hætti sem enginn átti von á og þá er búið að koma skipstjórum og sjómönnum í þá stöðu að verða að velja á milli þess annars vegar að brjóta lög og láta aflann fara í sjóinn eða hins vegar að koma með hann að landi og missa veiðileyfið.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa breytingartillögu sem hér er flutt. Hún er flutt eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kynnti hana að öðru leyti en því að í tillögunni er ekki gert ráð fyrir því að verðmæti slíks umframafla renni allt til rannsóknastofnana sjávarútvegsins heldur að hann skiptist á milli rannsóknastofnana og Landhelgissjóðs. Ekki er vanþörf á að bæta landhelgissjóði þar við því hæstv. dómsmrh., sem er sjútvrh. jafnframt, hefur lýst yfir ríkum vilja til að stuðla að eflingu Landhelgisgæslunnar án þess að nokkur sérstök tillaga hafi verið flutt um hvernig það skuli gert. Tel ég því eðlilegt að Landhelgissjóður geti notið einhvers hags af því að fá hlutdeild í verðmætum þess afla sem þannig yrði veiddur.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki meira um þessa breytingartillögu að segja en vek athygli á því að þarna er bent á leið sem að mínu viti er skynsamleg og æskilegt að fara til að koma til móts við þau vandamál sem ég hef reynt að lýsa án þess að ætla sér að leysa það allt með lögregluaðgerðum og hörðu eftirliti.