Umgengni um nytjastofna sjávar

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 13:52:39 (6254)

1996-05-18 13:52:39# 120. lþ. 141.3 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[13:52]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Varðandi þá tillögu sem ég kom með sem hugmynd inn hjá hv. sjútvn. er það að segja að hún hefur að sjálfsögðu ekki verið rædd hjá þeim hagsmunaaðilum sem hún varðar. Ég tel þess vegna ekki við hæfi að hún sé samþykkt á hinu háa Alþingi vegna þess að ekki er hægt að sjá afleiðingar hennar fyrir. Ég tel hins vegar mjög brýnt að þessi hugmynd verði rædd sem og aðrar hugmyndir, sem kynnu að koma upp, um það hvað gera skuli í vandanum með aflann sem er hent í sjóinn að því talið er.

Ég taldi að í 2. umr., þar sem ég tók til máls og reifaði þessa hugmynd, væri nægilegt til að koma hugmyndinni á framfæri og að hún yrði síðan rædd í sumar og í framhaldinu af þeirri nefnd sem samdi frv. sem við erum að ræða.

Um það til hvaða stofnana fjármunirnir skuli renna þá verð ég að segja að ég er ekki alveg sammála hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um að gjaldið eigi að renna jafnframt í Landhelgissjóð. Landhelgissjóður er til að hafa eftirlit með sjómönnum og ég er ekki viss um að vilji þeirra sé til að styrkja hann mjög mikið þó að sjálfsögðu standi vilji annarra til þess. En það er mjög mikilvægt að sjómenn og skipstjórnarmenn sjái þessa fjármuni renna til verkefna sem þeir eru hlynntir. Þá sá ég sérstaklega rannsóknastofnanir sjávarútvegsins. Það mætti hugsanlega ræða líka um slysavarnafélög eða björgunarstofnanir, þyrlusjóð eða eitthvað slíkt sem sjómenn hafa beinan hag af að fjármunirnir renni til þannig að þeir finni enn frekar hjá sér hvatningu til að koma með aflann að landi og láta andvirði hans renna til þessara stofnana.

Að öðru leyti finnst mér þessi tillaga ekki vera þess eðlis að hægt sé að samþykkja hana vegna þess sem ég gat um áðan að það hefur ekki verið haft samráð, hvorki við sjómenn né útgerðarmenn um það hvernig hún komi til með að virka og vinna. Ég tel aftur á móti mjög brýnt að einhver slík hugmynd verði rædd til lausnar á þessum vanda.