Umgengni um nytjastofna sjávar

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 13:55:23 (6255)

1996-05-18 13:55:23# 120. lþ. 141.3 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[13:55]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Eitt meginhlutverk Landhelgissjóðs er að fjármagna uppbyggingu Landhelgisgæslunnar sem hefur ekki bara því hlutverki að gegna að vera lögregla á miðunum heldur einnig að veita sjómönnum mjög mikilsverða björgunar- og aðstoðarþjónustu. Ég er alveg sannfærður um að svo mikill áhugi er hjá sjómönnum um að byggja upp Landhelgisgæsluna sem þjónustustofnun að þeir mundu síður en svo hafa neitt á móti því að Landhelgissjóður yrði studdur með þessum hætti. Hins vegar kom mér á óvart að heyra að ekki væri viðeigandi að samþykkja tillögu sem ættuð er beint frá hv. þm. vegna þess að hún hefði ekki verið rædd nógu mikið við hagsmunaaðila. Ég hélt að hv. þm. Pétur H. Blöndal væri nú einmitt þeirrar gerðarinnar að hann teldi skynsamlegar tillögur skynsamlegar án tillits til þess hvort einhverjir hagsmunaaðilar hefðu fjallað um þær. Ég finn heldur ekki að það sé óviðeigandi að flytja tillögu á Alþingi sem hv. þm. hefur sannfærst um að væri rétt og skynsamleg. Það vandamál sem ég var að lýsa áðan hefur lengi verið til umræðu meðal sjómanna og útvegsmanna og margir útvegsmenn og sjómenn hafa látið í ljós þá skoðun að einmitt svona bæri að leysa þessi vandamál, með sambærilegum hætti og tillagan leggur til og á sambærilegum nótum eins og við höfum talað ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal. Þannig að hann veit ósköp vel að þetta hefur verið rætt meðal sjómanna og útvegsmanna og að mörgum lýst vel á þessar hugmyndir. Að færa þau rök fram á Alþingi gegn sinni eigin tillögu að ekki sé við hæfi að tillaga frá honum sé samþykkt er að mínum viti ekki hv. þm. til mikils sóma.