Tóbaksvarnir

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 15:26:51 (6267)

1996-05-18 15:26:51# 120. lþ. 141.6 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, Frsm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[15:26]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að þessi ábending muni að notum koma hjá nefndinni ef hún kýs að taka málið aftur til umræðu. Ég skildi mál hv. þm. þannig að hann væri að inna eftir því hvaða ákvæði giltu um reykingar í bifreiðum.

Í opinberum almenningsfarartækjum, þ.e. langferðabílum eru lög sem banna reykingar. Ég hygg líka í leigubíl. Ég þori ekki að svara því. En þetta er atriði sem er sjálfsagt að kanna. Það er líka annað sem menn ættu að kanna í framtíðinni. Mér finnst að það ætti sums staðar að banna reykingar líka utan dyra þar sem menn koma saman. Ég nefni sem dæmi að nánast hvern einasta sunnudag fer ég niður á tjarnarbakka og gef öndum sem þar eiga heimkynni brauð ásamt nokkrum parti af fjölskyldu minni. Mér finnst það sárgrætilegt að stéttin þar er oft stráð sígarettustubbum. Mér finnst það alveg skelfilegt. Alveg finnst mér það jafnskelfilegt þegar ég er að koma úr mínum daglega sundspretti í laugunum að þar hímir oft fólk fyrir utan reykjandi. Mér finnst þetta alveg skelfilegt. Mér finnst líka alveg skelfilegt þegar ég er að koma úr mínum reglulega hlaupaspretti og er að teygja mig þegar því er lokið, herra forseti, fyrir utan skýlið í laugunum að þar eru sígarettustubbar stráðir um grasflötina. Mér finnst þetta alveg skelfilegt. Þess vegna segi ég út frá orðum hv. þm. hér fyrr þegar hann var að ræða um heimildina til að hafa afdrep fyrir reykingamenn innan húss. Er það ekki betra heldur en að hafa þetta lið norpandi fyrir utan og hendandi sígarettustubbunum á götuna öllum til ama og leiðinda? Sér í lagi litlum börnum sem koma og halda að það sé brauð.