Tóbaksvarnir

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 15:28:56 (6268)

1996-05-18 15:28:56# 120. lþ. 141.6 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[15:28]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir undirtektir við að athuga stöðuna varðandi leigubifreiðar. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að ég þykist hafa orðið var við að þessu sé misjafnlega háttað í leigubifreiðum og þarna sé eðlilegt að bæta úr ef það skortir á lagareglur. Varðandi það atriði sem hv. þm. nefndi hér í lokin, þ.e. hvernig reykingamenn margir hverjir kasta frá sér stubbum þá er það vissulega umhugsunarefni hvernig úr skuli bæta. Þetta þekkja menn og það er með fádæmum hvernig umgengni reykingamanna er að þessu leyti. Það er eins og um þetta gildi eitthvað annað en um annað rusl á víðavangi. Við þekkjum þess mörg dæmi. Meðal annars er ekki óalgeng sjón að sjá fólk kasta logandi sígarettu út úr bifreiðum á akstri um götur borgarinnar og sjálfsagt mjög víða. Það nær auðvitað engir átt. Ég nefni það að í Bandaríkjunum og sjálfsagt víðar eru mjög hörð viðurlög við slíku, háar fjársektir við slíku athæfi. Ég bið hv. þm. að íhuga hvort ekki væri skynsamlegt að taka alveg sérstaklega á því atriði í sambandi við afgreiðslu þessa frv.

[15:30]