Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 16:23:16 (6275)

1996-05-20 16:23:16# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[16:23]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er afar mikilvægt mál sem við erum að ræða núna, fíkniefnavandinn, og það er líka nauðsynlegt að sú umræða beri árangur. Ég nefndi hér í desember þegar við höfðum mjög góða umræðu um þessi mál að Alþingi ætti ekki að láta fjölmiðla stjórna umfjöllun sinni um þessi afdrifaríku mál heldur ættu þingmenn virkilega að vinna að því saman að finna úrlausn. Ég held því fram að umræðan í desember hafi verið mjög góð og við fengum þá upplýsingar sem eru margar hverjar í þessari skýrslu þannig að í henni er kannski ekki svo mjög margt nýtt. Seinna við umfjöllun um þingmál lagði ég til að félmn. og heilbrn. og vonandi allshn. líka héldu sameiginlegan fund og fengju þá aðila sem boðað var að væru að vinna í þessu máli fyrir hönd stjórnvalda á sinn fund svo við gætum, stjórn og stjórnarandstaða, sýnt viljann í verki með því að fylgjast með framvindu í þessum málaflokki, fylgjast með því sem stjórnvöld hygðust gera og leggja okkar af mörkum. Til að fylgja þessari tillögu eftir ritaði ég bréf þessa efnis til formanna beggja nefndanna og þetta hefur verið rætt í báðum nefndunum en annir í þinginu í öðrum ,,mikilvægari málum`` hafa verið slíkar að það hefur þurft að fresta slíkum fundi. Af honum getur ekki orðið fyrr en í þinglok eða a.m.k. eftir að nefndir ljúka störfum. Ég mun leggja mikla áherslu á að halda áfram að fylgja því eftir í minni nefnd að slíkur fundur komist á því ég tel að það sé hagur allra að við reynum að vinna saman að þeim málum sem geta horft til góðs í þessum hrikalega vandamálaflokki, ef ég get orðað það svo.

Þessi skýrsla sem við fengum og höfum ákveðið að ræða er mjög viðamikil, þ.e. spurningarnar eru mjög margar sem settar eru fram en svörin eru ekki mjög ítarleg og sums staðar eru reyndar engin svör, virðulegi forseti. Það kemur mér ekki á óvart að ekki kemur margt nýtt fram í skýrslunni en engu að síður er mjög gagnlegt að í skýrslunni eru tekin saman svör og upplýsingar sem eru þá tiltæk á einum stað. Áður en ég vík að skýrslunni sem slíkri ætla ég aðeins að koma inn á það sem mér finnst mikilvægt í henni og það er þá helst eins og hér hefur verið nefnt að áætlað verðmæti haldlagðra fíkniefna á 10 árum eru 350 millj. Nú erum við að tala um forvarnir og að verja auknu fé til forvarna en það eru 50 millj. samtals sem á að verja til þessa og í Forvarnasjóð sem í raun samkvæmt lögum á eingöngu að vinna að áfengisvörnum. Þá má nefna af því við erum að tala um tölur, 350 millj. haldlagt efni, 50 millj. til forvarna að götuverðmæti þeirra efna sem hald var lagt á á árinu 1995 er áætlað um 40 millj. ef eingöngu eru skoðuð þau efni sem mest eru í dreifingu um þessar mundir, þ.e. hass, amfetamín og E-töflur. Það sem mér finnst líka merkilegt og vil árétta áður en ég vík að skýrslunni er að það er ekki vitað hvort efni kemur aðallega með flugi eða skipum. Hvort það er flutt til landsins með burðardýrum eða í öðrum flutningi. Það er ekki vitað hvort efni kemur til höfuborgarsvæðisins og er dreift út á landsbyggðina eða öfugt. En það er vitað að neyslu er nú til að dreifa á flestum þéttbýlisstöðum landsins og það er vitað að foreldrar leita örvinglaðir leiða til að fylgjast með og fyrirbyggja og að í mörgum bæjum eru gönguhópar skipulagðir, svokallað foreldrarölt, á svæðin sem sögur fara af. Og þetta, virðulegi forseti, er mjög mikilvægt að staldra við.

Ég ætla að leyfa mér að fletta skýrslunni örlítið og staldra við það sem þar kemur fram og mér hefur þótt merkilegt. Ég legg áherslu á að við höfum fjallað um þetta allt áður í hverri einustu umræðu hér. Fíkniefnaneytendum hefur verið að fjölga, aldur neytenda lækkar, dómar í fíkniefnamálum eru vægir og sektir hrikalega lágar. Þetta kemur fram í skýrslunni. Dómar vegna eins kg af hassi eru þriggja til fimm mánaða fangelsisvistir. Umfang hefur aukist mjög mikið. Viðskipti með fíkniefni eru orðin mjög skipulögð, haldlögð fíkniefni mjög mismunandi frá ári til árs og mjög mismunandi hvort það er þetta efnið eða hitt sem lagt er hald á hverju sinni. Ekki er vitað hvort haldlagt efni endurspeglar magn efnis í umferð eða hvort það er tilviljun hvaða efni hefur náðst hverju sinni. En ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að yfirlit yfir haldlögð fíkniefni á sl. 10 árum sem er hér á bls. 5 sýnir t.d. að á árinu 1995 var hald lagt á 1820 E-töflur, sem valda nú einmitt svo miklum óróa. Götuverðmæti er áætlað u.þ.b. 6--9 millj. kr.

[16:30]

Slíkar upplýsingar getum við fengið í skýrslu. En í svona skýrslu stendur ekki það sem er miklu hrikalegra eins og það sem var rætt manna á meðal í vetur að á ákveðnum skemmtistöðum í Reykjavík væri vatnsglasið selt á 100 kr., vatnsglas selt á 100 kr. á skemmtistað. Vegna hvers? Jú, vegna þess að ungmennin urðu svo þyrst af E-töflunum og þau keyptu ekkert á skemmtistaðnum en báðu stöðugt um vatn. Og hvað gerir maður þá? Þá selur maður vatnið. Svona staðreyndir er ekki hægt að setja í skýrslu, en slíkar staðreyndir verða að koma í umræðuna líka.

Það kemur líka fram í skýrslunni að það megi telja líklegt að það verði mikið heilsutjón af neyslunni, en það liggja engar rannsóknir fyrir um það. Það kemur einnig fram að það séu aðeins þrjú skráð dauðsföll vegna áfengisneyslu 1989 og það sé aðeins hægt að rekja fáein dauðsföll beinlínis til ofneyslu ávana- og fíkniefna, en bara það sem komið hefur fram í fjölmiðlum á allra síðustu árum segir okkur að þessi tala er ábyggilega alveg skuggalega há í litlu landi eins og okkar.

Það er líka spurt um afbrotin og líkum er aðeins leitt að því hver þáttur vímuefna sé í aukningu afbrota, en flestir telja að enginn vafi leiki á því að afbrot til þess að fjármagna ávana- og fíkniefnaneyslu hafi aukist. Það kemur líka fram að það er mjög gott aðgengi ungmenna að efnum. Það kemur fram á bls. 12.

Hins vegar, virðulegi forseti, langar mig að beina ákveðnum atriðum til dómsmrh. sem hér situr. Ég fagna því sérstaklega að ráðherrarnir hafa svo margir gefið sér tíma til að sitja hér og hlýða á þessa umræðu vegna þess að það skiptir máli fyrir okkur. Það er spurt í skýrslunni hvernig sérþjálfun starfsfólks sé háttað á sviði fíkniefnamála og varðandi toll- og löggæslu. Mér finnst satt að segja að frásögur af því hvernig staðið er að þessari sérþjálfun sé veikleiki í þessari umfjöllun. Það er eiginlega ekkert sagt um sérþjálfunina. Það er bara sagt að flestir tollgæslumenn hafi numið við Tollskóla ríkisins og þar hafi verið kennt til verka varðandi fíkniefnamál og að þessir menn hafi allir langa og víðtæka starfsreynslu. Mig langar að beina því til dómsmrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir því að tekið verði á í þessum efnum vegna þess að það er tilfinning mín að þarna þurfi að gera sérstakt átak og þjálfa verulega fólk það sem vinnur við þessi verk.

Mér finnst að við verðum að horfast í augu við það að þó að margt jákvætt hafi gerst í baráttunni á liðnum árum og það hafi verið tekið á á ýmsum sviðum, þá hefur okkur mistekist að vinna bug á fíkniefnavandanum. Við erum best í eftirvörninni. Þegar ég segi þetta er ég ekki að draga fram stjórn og stjórnarandstöðu. Það er ljóst að næstum allir flokkar hafa komið að landsstjórninni á þeim tíma sem fíkniefnavandamálið hefur orðið sýnilegt sem vandamál. Þess vegna hljótum við hvert um sig að horfa á það að þó að við höfum verið að hreyfa þessum málum, flytja tillögur, jafnvel frumvörp og náð því að koma þeim hingað inn á borð þó að þau hafi ekki orðið að lögum, þá hefur þetta engan veginn dugað og eins og kom fram í umræðunni áðan þá hefur samstarfsnefnd ráðuneyta ekki reynst öflugt tæki í þessari baráttu.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði eftir skýrslu samstarfsnefndar. Ég var með tillögur þessarar nefndar undir höndum í umræðunni í desember. Ég er ekki með hana hér á borðum nú. Það voru nokkrar tillögur. En þessi nefnd hefur ekki verið öflugt tæki og við höfum ekki gert ýmislegt sem hefði hjálpað til í baráttunni svo sem að staðfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn ávana- og fíkniefnum. Ég hef nokkrum sinnum borið fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um það. En nú þegar við fjöllum um Schengen-skýrsluna, þá kom fram að stjórnvöld munu ætla að staðfesta þennan sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er ekki seinna vænna vegna þess að þar eru ýmis ákvæði sem bæði auðvelda lögreglunni í hennar störfum og væntanlega tollinum líka og það er ýmislegt sem gerist í okkar löggjöf við að staðfesta þennan sáttmála sem skort hefur á.

Mér finnst það mjög alvarleg og reyndar ný staðreynd að ofbeldi er meira en áður í okkar samfélagi og það virðist fjölbreyttara ef hægt er að nota það orð. Yngra fólk á hlut að máli og þetta eru eins og maður segir orðin afar ómerkileg afbrot eins og t.d. að ganga eftir fólki sem er á leið heim til sín í vesturbænum og hrinda því um koll til að hirða af því veskin. Þetta hlýtur að segja okkur á hvaða leið við erum.

Niðurstaða mín er að ef okkur hefur mistekist í forvörnunum af því að við erum best í eftirvörnunum þrátt fyrir góðan vilja, þá verður að kosta öllu til núna. Ég tel að stjórnvöld eigi að nota þá stöðu að stjórnarandstaða er mjög jákvæð til þeirra aðgerða sem gripið verður til og vill koma að málunum með stjórnarliðum til þess að taka á í þessum efnum. Þegar við erum að tala um aðgerðir, þá erum við að tala um að afstýra því að efni komist inn í landið. Ef þau komast inn í landið, þá viljum við afstýra því að efni komist í hendur neytenda og ef það tekst ekki að afstýra því að efni sé í boði fyrir neytendur, þá verðum við að vera með öfluga fræðslu fyrir börn og unglinga og áróður um að vímuefni og neysla vímuefna sé ekki flott. Í engum af þessum atriðum hefur okkur tekist upp.

Ég hef áður hrósað því að menntmrh. hafi stutt við og komið á samstarfi við framhaldsskólann um jafningjafræðsluna, en í fyrirspurn til menntmrh. í síðustu viku kom það fram að það er mjög óljóst hver þáttur ríkisins er í fræðslu í grunnskólunum og að sum sveitarfélög kosta nokkru til að ákveðnir bekkir fái fræðslu um vímuefnavarnir en fræðsla um vímuvarnir er ekki skylda í grunnskólunum þó að nokkrir kennarar hafi sótt námskeið til þess að geta kennt þessi fræði. Það er sannfæring mín að við getum gert miklu meira með jákvæðum áróðri en við gerum nú.

Á sínum tíma, skömmu áður en ég hætti í menningarmálanefnd Norðurlandaráðs, þá var þar einmitt til umfjöllunar tillaga. Áformað var að nýta sér það að í nýjum áherslum Norðurlandaráðs var samþykkt að leggja áherslu á börn, unglinga, tungumál, tungumálasamstarf og fjölmiðla. Við í menningarmálanefndinni sem vorum að fjalla um það hvernig ætti að nýta þessar áherslur vorum að vinna tillögur til að leggja fyrir norræna kvikmyndasjóðinn um að þessar áherslur yrðu nýttar til þess að annars vegar yrði unnið fræðsluefni fyrir bæði börn og ungmenni til að nota við tungumálakennslu í skólunum og einnig skemmtiefni fyrir sjónvarp sem í fælist jákvæður áróður um að það er ekki fínt að nota vímuefni. Að vísu var tekið inn í þetta að vinna gegn ofbeldinu samhliða því að vera með vímuefnin og þessi tillaga var sett fram. En því miður veit ég ekki afdrif hennar. Þarna væri t.d. hægt að nota tæki sem þegar væri búið að ákveða að sé nýtt á ákveðinn hátt. Það á að nota það í tungumálasamstarfi. Það á að nota það til þess að styðja við Norðurlandasamstarf varðandi börn og ungmenni og það á að leggja áherslu á fjölmiðla. Þarna er því hægt að nota fjármagn sem kemur annars staðar frá í baráttunni sem við eigum hér í án þess beinlínis að það sé verið að nota það sem vímuefnavörn.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að nýta allan minn tíma í þessari fyrri umferð. Ég ætla að nýta mér það að mega hlýða á fleiri þingmenn og geta þá komið með athugasemdir í síðari umræðu.