Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 16:40:02 (6276)

1996-05-20 16:40:02# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., KH
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[16:40]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka fyrir þessa skýrslu og þakka hv. þingkonu Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir frumkvæði hennar við að óska eftir skýrsunni, en við kvennalistakonur vorum í hópi þeirra sem bárum þessa ósk fram í upphafi þings og hefur reyndar orðið nokkuð löng bið eftir skýrslunni.

Helsti kostur þessarar skýrslu er að hér eru dregnar saman á einn stað haldbærar upplýsingar um sitthvað sem varðar þessi mál, enda spurningarnar ítarlegar og víðtækar. Flest hefur reyndar áður komið fram eins og hér hefur verið drepið á, en annað ekki. Ég hef t.d. ekki fyrr séð þær upplýsingar sem fram koma á bls. 12 í svari við spurningu um reynsluna af lögleiðingu fíkniefna, t.d. í Hollandi með tilliti til afbrotamálefna og ég vil benda hv. þingmönnum á að skoða það. Niðurstaða af þeirri reynslu er að viðskipti með fíkniefni hafa aukist mikið í Hollandi og afbrotum fjölgað og eru nú afbrot nær hvergi fleiri í Evrópu og þá sérstaklega í Amsterdam. Þarna fylgir tafla þar sem hægt er að bera saman tíðni ýmissa afbrota miðað við 100 þús. íbúa í nokkrum borgum þar sem Reykjavík er meðtalin og þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar. Það hefur ekki verið hávær krafa hér á landi um að fíkniefni verði lögleidd en þessar upplýsingar eru þó alltént ekki hvetjandi til þess.

Því miður situr það helst eftir í huganum að lestri loknum hversu mikið skortir á að hægt sé að gera sér grein fyrir umfangi vandans, hversu mikið skortir á rannsóknir og kannanir og hversu lítið við vitum yfirleitt um neysluna, um innflutning efnanna og dreifngu þeirra og ekki síst hversu fátækleg og ósamhæfð viðbrögð eru gagnvart þessum voða. Á ég þá fyrst og fremst við tollgæslu og löggæslu sem varða þennan þátt glæpastarfsemi í landinu. Með öllum þeim fyrirvörum sem tíundaðir eru í þessari úttekt má þó álykta ýmislegt, m.a. það að innflutningur og neysla fíkniefna hefur farið vaxandi. Það má líka fullyrða um breytta samsetningu á fíkniefnamarkaðnum þar sem hefur orðið beinlínis sprenging í notkun amfetamíns, E-taflna og steralyfja. Þessi breyting er mikið áhyggjuefni. Ég vil leyfa mér að benda á viðtal við Þórarin Tyrfingsson lækni sem birtist í nýútkomnum Skinfaxa, tímariti Ungmennafélags Íslands sem ég hygg að þingmenn fái almennt á sín borð. Þar er hann spurður um þetta vandamál og hann hefur sérstakar áhyggjur af vaxandi amfetmínneyslu unglinga. Mig langar til að vitna, með leyfi forseta, stuttlega í þetta viðtal. Hann segir m.a.:

,,Það hefur orðið mikil aukning á amfetamíni á síðasta einu og hálfu ári og við höfum ekki séð ástandið verra en núna. Ég er búin að vera í þessum bransa síðan 1979 og ég man ekki eftir verra ástandi þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum margar kynslóðir af fíkniefnum.`` Hann segir enn fremur litlu síðar: ,,Hættulegast er auðvitað amfetamín og til amfetamíns telst E-pillan. Hún er sama og amfetamín og þeir sem nota E-pilluna í örfá skipti eru strax orðnir reglulegir amfetamínneytendur. Þetta er langhættulegasta efnið sem krakkarnir komast í tæri við og við sjáum krakka á þessum aldri sem við vorum að tala um sem eru komnir í reglulega neyslu. Það er svo þannig að helmingur af þeim sem nota amfetamín reglulega fer að sprauta sig svo að þetta er mjög mikið vandamál.``

Enn vil ég vitna örstutt litlu síðar í þessu viðtali, með leyfi forseta:

,,Við finnum mun á þeim sem koma inn vegna amfetamínneyslu og þeirra sem koma t.d. inn vegna kannabisneyslu. Þeim unglingum sem hafan notað amfetamín líður miklu verr og eru miklu órólegri og það er miklu erfiðara að eiga við þá.``

Þetta viðtal við Þórarin Tyrfingsson er aðeins eitt af mörgum í þessu tölublaði Skinfaxa sem er raunar sérrit um fíkniefnaforvarnir. Í þeim viðtölum er lögð áhersla á tilveruna án vímuefna og er vonandi að sú fræðsla og það fordæmi rati ekki síður til almennings en þau dæmi ömurleikans sem fjölmiðlar flytja okkur fréttir af með jöfnu millibili. Slíkar fréttir eru vissulega nauðsynlegar til að opna augu manna. Þær ýta við fólki og minna á vandann. En hitt er ekki síður nauðsynlegt að minna á hina hliðina sem er gleði, árangur og ánægjulegt líf án vímuefna.

[16:45]

Það er einnig athyglisvert að ekki hefur aðeins orðið breyting á hlutfalli einstakra efna á fíkniefnamarkaðnum, heldur hefur líka orðið umtalsverð breyting á neytendum efnanna. Þannig hefur hlutur kvenna farið mjög vaxandi á meðferðarstofnunum og einnig hefur hlutur yngra fólks, þ.e. innan við 20 ára sem kemur til meðferðar hjá SÁÁ tvöfaldast á sl. tveimur fimm ára tímabilum. Það er vitanlega skelfileg staðreynd. Þetta eru afar slæmar fréttir og sýna okkur auðvitað að hér verður að spyrna við fótum með öllum ráðum.

Vissulega er margt verið að gera og margir sem koma þar að verki og kannski skortir ekki beinlínis þar á heldur miklu fremur að kraftarnir séu lagðir saman og samhæfðir. Hæstv. forsrh. minntist á Forvarnasjóðinn í máli sínu áðan og þar er vissulega um aukið framlag að ræða til forvarnamála. Við höfum verið að reyna að nálgast þessi mál t.d. í fjárln. en þangað leita fulltrúar hinna ýmsu aðila og hópa sem vinna að forvarnastarfi á þessu sviði og virðist hver um sig sannfærður um að hann sé boðberi sannleikans og hinnar einu réttu aðferðar við að ná til þeirra sem á fræðslu og forvörnum þurfa að halda. Þó eru þeir sannast sagna með ákaflega svipaðar áherslur og leiðir og staðreyndin er auðvitað sú að í þessu máli er ekki til neitt sem heitir það eina rétta, enda neytendur fíkniefna fjarri því að vera einhver stöðluð stærð. Svo eitthvað sé nefnt, hefur hefðbundið starf félagsmiðstöðvanna áhrif á sinn hátt. Óhefðbundið starf Mótorsmiðjunnar t.d. nær hins vegar til margra sem ekki laðast að félagsmiðstöðvunum og þannig mætti áfram telja.

Í rauninni er margt gert fyrir ungt fólk, margt reynt til þess að ná til þess með fræðslu og forvarnir, skapa því heilbrigð viðfangsefni í tómstundum og nálgast þarfir þess á margvíslegan hátt. Það sem helst hefur skort á er almenn þekking foreldra og annarra leiðtoga barna og unglinga á þessum vanda og hvernig helst er að bregðast við honum. Það er t.d. alvarlegt sem kemur fram bæði í þeirri skýrslu sem við ræðum og í skýrslu samstarfsnefndar ráðuneytanna um ávana- og fíkniefnamál sem kom út í mars 1995 hversu ómarkviss fræðslan hefur verið í skólum landsins og hve foreldrar hafa verið afskiptir í því efni en þeir þurfa ekki síst á fræðslu að halda. Þessum málum hefur ekki verið fundinn nægilega verðugur staður í skólakerfinu og kennarar hafa ekki haft nægilegan stuðning stjórnvalda til þess að inna nauðsynlega fræðslu af hendi. Reyndar er ýmislegt til í þessu efni og margt er talið upp í þessari skýrslu, en það vekur undrun að í henni er ekki minnst á gagnmerkt framtak Reykjavíkurborgar. Úr því bætti reyndar hæstv. forsrh. í máli sínu áðan, en hjá Reykjavíkurborg er einmitt hafin vinna að stefnumótun í vímuefnavörnum og var unnið mjög markvisst í þeim málum sl. vetur. Þar m.a. rekinn svonefndur vímuvarnaskóli sem hefur nýlokið störfum. Þar er um að ræða eins konar farskóla sem fór á milli grunnskólanna í borginni með umfangsmikla fræðsludagskrá. Einn dagur í hverjum skóla var þannig helgaður fræðslustarfi í vímuvörnum, þ.e. fræðslu fyrir kennara og aðra starfsmenn skólans og foreldra. Þann sama dag var svo á boðstólum fjölbreytt dagskrá fyrir nemendur skólans þannig að þeir voru ekki afskiptir, þeir fóru ekki á mis við handleiðslu meðan foreldrar, kennarar og starfsmenn skólanna sátu á skólabekk og undu allir glaðir við sitt. Vímuvarnaskólinn var og er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, ríkisins og fjölmargra samtaka sem tóku höndum saman um skipulagningu og framkvæmd verkefnisins. Má þar nefna Barnaverndarstofu SÁÁ, fræðslumiðstöð í fíknivörnum, Rauða krossinn og forvarnadeild lögreglunnar auk íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar, skólaskrifstofu og Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Þetta starf þótti takast með miklum ágætum og mun ætlunin að halda því áfram á einn veg eða annan. Er ástæða til að ætla að það geti orðið fyrirmynd að svipuðu starfi um land allt.

Ég vil líka nefna lýðskólann sem gerð var tilraun með í vetur. Hann þótti gefast vel og vera markverð og árangursrík tilraun til þess að koma til aðstoðar unglingum sem hafa hrakist frá námi, sjálfsagt af ýmsum orsökum en m.a. þessum, og vísa þeim veginn aftur inn í skólakerfið. Margt er því verið að gera á sviði fræðslu og forvarna og ekki beinlínis ástæða til að hafa þungar áhyggjur af þeirri hlið þessara mála. Í því efni má auðvitað ekki gleyma hlut SÁÁ sem er stór á þessu sviði þótt meðferðarþátturinn sé kannski umfangsmestur á þeim bæ. Hvað þann sérstaka þátt varðar er ánægjulegt að vita til þess hversu ráðgjöf og meðferðarstarf SÁÁ nýtur mikils álits og virðingar meðal erlendra sérfræðinga. Nýlega var t.d. á ferðinni hér á landi bandarískur ráðgjafi frá Chicago, Jake Efferly að nafni, sem farið hefur víða um heim og starfað með ráðgjöfum og lagt mat á ráðgjöf og meðferðarstarf í fjölmörgum löndum. Að hans mati er það meðferðarstarf sem unnið er undir merkjum SÁÁ með því albesta sem þekkist í heiminum og er það ekki ónýtur vitnisburður frá manni með hans þekkingu og reynslu. Ég held þess vegna að við getum ályktað sem svo að þessir þættir séu að miklu leyti í góðu lagi eða á góðri leið, margir að gera góða hluti og ýmislegt í bígerð sem ætla má að skili árangri. Það er miklu fremur löggæslu- og tollgæsluþátturinn sem ástæða er til að taka miklu fastar á.

Í skýrslubeiðninni var farið fram á upplýsingar um þróun ofbeldis. Af fréttum má ætla að það hafi ekki einungis færst í aukana heldur einnig verið að breytast, verða illvígara og skaðlegra. Það kom mér því nokkuð á óvart hvernig á ýmsan hátt er í skýrslunni dregið úr því sem þar er á ferðinni. Reyndar er viðurkennt ítrekað að mjög skorti á viðhlítandi rannsóknir og upplýsingar til þess að undirbyggja ályktanir og fullyrðingar um þessi mál. Það er því ljóst að hvað þann þátt varðar er afar nauðsynlegt að skoða hann miklu nánar til þess að hægt sé að bregðast við þeim þætti vandans á árangursríkan hátt. Bæði hvað það varðar svo og markvisst starf til varnar innflutningi og dreifingu fíkniefna er ljóst að hér er sú stóra spurning á ferðinni hvort við ætlum að verja einhverju fjármagni sem dugir til þessara mála.

Við getum talað og talað á Alþingi og í sveitarstjórnum. Við getum talað á fundum og ráðstefnum en það leysir ekki vandann þótt orð séu vitanlega til alls fyrst eins og venjan er að segja. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að takast á við þennan sívaxandi innflutningsstraum og dreifingu fíkniefna með tilheyrandi neðanjarðarkerfi og skipulögðu ofbeldi þá þarf að stórefla löggæslu og tollgæslu í landinu. Þróunin í þessum málum er skelfileg þegar svo er komið að sölumenn dauðans eru farnir að ógna tollvörðum, eyðileggja eigur þeirra, ráðast inn á heimili þeirra og misþyrma þeim í hefndarskyni fyrir árvekni þeirra. Í rauninni ætti þessi þáttur málsins að vera viðráðanlegri hjá okkur en flestum öðrum þjóðum. Aðstæður hér eru að flestu leyti kjörnar til þess að sporna við innflutningi og dreifingu. Við eigum ekki landamæri með öðrum ríkjum og flugumferð er ekki meiri og flóknari en svo að fíkniefnaleit á þeim vettvangi ætti að vera tiltölulega auðveld. En til þess þarf að sjálfsögðu aukinn mannskap, betri búnað og vafalaust fleiri leitarhunda sem hafa reynst mjög vel, ekki síst til að leita í sendingum á tollstöðvum.

Stærsta gatið í kerfinu er þó hvað varðar skipaumferð eins og kom fram í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur held ég, ef marka má upplýsingar í viðtölum við fíkniefnaneytendur. Þar skortir nánast algerlega allt eftirlit og er hvað brýnast að bæta úr þeim skorti ef nokkur árangur á að nást. Það vantar ekki að settar hafa verið fram tillögur um úrbætur við hin og þessi tækifæri, en úrræðin sem nefnd eru í skýrslunni varðandi þetta mál eru ekki mjög hvetjandi. Hér stendur neðst á bls. 18, með leyfi forseta:

,,Varðandi áform um að styrkja toll- og löggæslu þá er efling löggæslu meðal þess sem verkefnisstjórnin mun skoða í sinni vinnu sem og hlutverk tollgæslu og samvinna þessara aðila.`` Sem sagt, einu sinni enn á að skoða málin í nefnd.

Ég hlýt að beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort eitthvað sé fast í hendi um úrræði í þessum efnum, hvort þess sé að vænta að tillögur komi frá hæstv. ríkisstjórn um eflingu löggæslu og tollgæslu hvað þessi mál varðar.

Herra forseti. Við sem stóðum sameiginlega að því að óska eftir þessari skýrslu þökkum fyrir hana þótt mikið vanti upp á að hún svari öllu sem um var beðið. Þessi mál eru greinilega langt frá því útrædd og nauðsynlegt að fylgja þessari skýrslu eftir og ýta á eftir þeim úrbótum sem nauðsynlegar eru til þess að takast á við þann hrikalega vanda sem fylgir fíkniefnaneyslu hér á landi sem annars staðar.