Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 16:57:08 (6277)

1996-05-20 16:57:08# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., MS
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[16:57]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. forsrh. fyrir þá skýrslu sem hér er rædd í dag um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis. Þessi skýrsla er sannarlega svört og gefur mynd af því hvaða þróun á sér stað í okkar þjóðfélagi og hvernig þessi mál hafa þróast til verri vegar á undanförnum árum. Skýrslan staðfestir það sem margir hafa haldið fram að ástandið í þessum efnum er mjög alvarlegt og við sjáum mjög sorglega þróun eiga sér stað þar sem hin unga og efnilega æska þessa lands ánetjast fíkniefnunum í sífellt ríkari mæli.

Það er mitt álit að við séum að ræða eitt alvarlegasta vandamál sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Sífellt koma fram fleiri dæmi og frásagnir um það hve fíkniefnavandinn hefur aukist mikið og hve alvarlegar og oft sorglegar afleiðingar fylgja honum.

Það er einnig ljóst að samfara aukinni fíkniefnaneyslu eykst ofbeldi og gripdeildum af ýmsu tagi fjölgar. Allt þetta veldur þjóðfélaginu tjóni og samfélagslegum kostnaði á ýmsum sviðum.

Það kemur fram í skýrslunni að mjög miklir fjármunir tengjast viðskiptum með fíkniefni. Í mörgum tilvikum afla fíkniefnaneytendur fjármuna til neyslu á vafasaman hátt og með glæpum. Það er jafnvel svo að fíkniefnaneytendur stunda vændi til þess að fjármagna neyslu sína. Það er skemmst að minnast þess að í DV í liðinni viku birtust tvær frásagnir og viðtöl við tvö ungmenni sem sögðu frá reynslu sinni úr heimi fíkniefnanna. Þar komu m.a. fram lýsingar á því hve slæmar og alvarlegar afleiðingar neyslan og það sem henni fylgir hefur á sálarlegar og líkamlegar tilfinningar viðkomandi einstaklinga. Það fékk sannarlega á mig að lesa þessi viðtöl og þau sýna betur en margt annað við hvað er að glíma.

Þessi viðtöl ásamt mörgu öðru sem fram hefur komið um þessi mál, þar á meðal sú skýrsla sem Alþingi fjallar nú um, undirstrika um hve mikið samfélagslegt vandamál er að ræða og hve miklar samfélagslegar breytingar fylgja í kjölfar fíkniefnanna. Íslensk ungmenni og æska landsins eiga mikla framtíðarmöguleika. Við búum við eitt besta menntakerfi í heiminum þar sem allir eiga kost á menntun og við rekum eitt fullkomnasta heilbrigðiskerfi í heimi þar sem um margvísleg úrræði er að ræða í þessum efnum sem og öðrum. Íslenska þjóðin byggir á auðugri arfleið á ýmsum sviðum og ef okkur tekst að halda rétt á okkar málum sjáum við fram á það að á allra næstu árum verið mikil framþróun og uppbygging á ýmsum sviðum atvinnulífs og menningar.

[17:00]

Íslensk ungmenni eru upp til hópa efnilegt og reglusamt fólk. Það væri sorgleg og mikil harmasaga ef æska landsins villtist af þessari braut og út í aukna áfengis- og vímuefnaneyslu sem dæmin sanna að leggur líf allt of margra einstaklinga og fjölskyldna í rúst.

Herra forseti. Það er mikilvægt og nauðsynlegt að Alþingi ræði þessi mál af fullri alvöru og það er einmitt svo í dag. En það er ekki nóg að ræða málin af og til. Það er verðugt og mjög nauðsynlegt verkefni fyrir þingið og stjórnvöld að taka saman höndum um að gera átak í að móta markvissa stefnu til framtíðar til þess að berjast gegn þeim vágesti sem fíkniefnin eru. Við skulum hafa það í huga að til þess að árangur náist verður sífellt og stöðugt að vinna að forvörnum, fræðslu og öðru sem gefur árangur. Það dugar skammt að gera eitt og eitt átak af og til og taka eina og eina umræðu um málin af og til. Til þess að árangur náist verðum við að halda uppi stöðugri virkni með langtímamarkmið í huga. Þetta kostar mikla og þrotlausa vinnu og mikið fjármagn.

Þrátt fyrir allt er þó ljóst að ýmislegt hefur verið að gerast að undanförnu sem miðar að því að berjast gegn fíkniefnavandanum og því sem honum fylgir. Ýmis samtök, stofnanir og einstaklingar hafa haldið uppi áróðri og baráttu gegn þessum vágesti og eiga viðkomandi aðilar skilið þakkir og heiður fyrir það. Það er sérstaklega athyglisvert og ánægjulegt að ungt fólk hefur tekið höndum saman um að miðla upplýsingum og áróðri til jafnaldra sinna og jafnvel miðla af sinni bitru reynslu af fíkniefnaneyslu. Þetta er nefnt jafningjafræðsla. Ég tel að þetta sé afar jákvætt. Ungmenni finna til ábyrgðar gagnvart samfélaginu og víst er að þau eiga greiðan aðgang að jafnöldrum sínum með sinn boðskap. Það hlýtur að vera vænlegt til árangurs og ber að styrkja.

Stjórnvöld hafa einnig verið að vinna að þessum málum og má nefna að á vegum ríkisstjórnarinnr og ráðuneyta er hafin samhæfing ýmissa aðgerða og samkvæmt því eru einstök ráðuneyti að vinna að sérstökum aðgerðum eins og hæstv. forsrh. kom inn á í upphafi. Sem dæmi má nefna að á vegum heilbrrn. er nú unnið að eflingu forvarna. Heilbrrh. hefur nýverið sent öllum fermingarbörnum í landinu forvarnarit sem ber nafnið Framtíð án fíknar og það er til upplýsinga fyrir fermingarbörn og foreldra þeirra. Eins og fram hefur komið er á vegum ráðuneytisins sérstakur forvarnasjóður sem hefur nú til ráðstöfunar um 30 millj. kr. og er verið að ráðstafa þessum fjármunum nú þessa dagana eins og reyndar hæstv. forsrh. nefndi í upphafi.

Þessi forvarnasjóður kom til við breytingu á lögum varðandi innflutning og sölu áfengis á síðasta ári, en hæstv. heilbrrh. hafði frumkvæði að því að hann var myndaður. Þessi sjóður breytir mjög öllum forsendum fyrir því að mögulegt verði að efla forvarnir frá því sem verið hefur en forvarnastarf er ein mikilvægasta forsenda þess að árangur náist við að draga úr fíkniefnaneyslu.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði fyrr í minni ræðu tel ég að við séum að ræða eitt allra mesta samfélagslega vandamál þjóðarinnar. Til þess að ná árangri í baráttunni gegn fíkniefnavandanum verður þjóðin öll að taka höndum saman og beita öllum tiltækum ráðum í þeirri baráttu. Stjórnvöld og Alþingi verða að sýna ákveðið frumkvæði í þessum efnum, m.a. með því að móta skýra og markvissa stefnu til þess að sem mestur árangur náist og ekki síst til þess að það fjármagn sem notað er í þessu skyni nýtist sem allra best.

Sú skýrsla sem hæstv. forsrh. hefur lagt fram í dag og er rædd á þessum fundi undirstrikar og staðfestir að við verðum að blása til markvissrar sóknar, reka burt þann vágest sem knúð hefur dyra og er kominn inn á gafl á allt of mörgum íslenskum heimilum. Ég hvet til að svo verði og okkur takist að forða efnilegri íslenskri æsku frá villu vegar, frá ógninni sem býr í vímuefnunum.