Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 17:07:31 (6279)

1996-05-20 17:07:31# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[17:07]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram mjög góð umræða um þetta viðkvæma málefni sem er fíkniefnavandinn og það hefur komið fram í umræðunni að það eru ekki meðferðarúrræði kannski sem vantar heldur hið fyrirbyggjandi starf. Ég vil minna á að fyrir fáum vikum síðan var hér evrópsk ráðstefna og hingað komu sérfræðingar, læknar, sálfræðingar og vísindamenn á þessu sviði. Þeir völdu Ísland vegna þess að hér hefur náðst meiri árangur í meðferð en víðast annars staðar í heiminum. Það er rétt að geta þess því þetta má ekki gleymast í umræðunni.

Ég fékk eina fyrirspurn áðan frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur varðandi Forvarnarsjóð. Hún spyr að því hvort það náist samræming milli þeirra sem eru að vinna að fíkniefnavörnum. Ég tel að á þessu ári náist ekki samræming, ekki á þessu fyrsta ári sjóðsins. Ég tel að það taki lengri tíma vegna þess að það eru mjög mörg frjáls félagasamtök sem eru að vinna að þessu málefni. En við fáum þá heildarsýn sem við þurfum að hafa.

Hún spurði einnig að því hvort það væri einungis úthlutað til áfengisvarna. Það er úthlutað til vímuefnavarna almennt.