Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 17:13:51 (6281)

1996-05-20 17:13:51# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., VS
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[17:13]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Í skýrslu þeirra sem hér er til umræðu eru dregnar saman ýmsar mikilvægar upplýsingar er varða með einum eða öðrum hætti fíkniefnaneyslu. Í skýrslunni kemur fram að víða hefur verið unnið gott starf á þessum vettvangi og sífellt er unnið að því að finna nýjar leiðir til að sporna við vandanum. Í skýrslunni koma fram ýmsar upplýsingar sem gefa til kynna að efla þarf starf á þessum vettvangi enn frekar og á það m.a. við um samhæfða forvarnastarfsemi, meðferðarúrræði og rannsóknir. Það samhæfingarstarf er þegar hafið á milli þeirra ráðuneyta sem að þessum málum koma.

Alvarlegar eru upplýsingar um að ungum fíkniefnaneytendum fari fjölgandi og að hópur harðra ofbeldishneigðra neytenda stækki. Fréttir af skuggahliðum fíkniefnaneyslu sem verið hafa fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum undanfarið vekja með okkur ugg en um leið baráttuvilja til að ráðast gegn vágestinum. Möguleikar okkar Íslendinga í þeim efnum eru meiri en víðast hvar annars staðar vegna legu landsins og fámennis þjóðarinnar. Það eigum við að nýta okkur. Ég tel þó vart raunhæft að tala um að Ísland geti orðið fikniefnalaust land. Okkur ber að sporna við fótum og leggja áherslu á að heilbrigðisyfirvöld komi í auknum mæli að forvörnum og stuðningi á þeim vettvangi. Heilbr.- og trmrn. og landlæknisembættið koma þegar að þessum málum með ýmsum hætti.

[17:15]

Nýlega var veitt aukafjárveiting til barna- og unglingageðdeildar Landspítalans sem nota á til stuðnings þeim einstaklingum sem kljást við fíkniefnavandann. Forvarnasjóður, sem er nýr sjóður og starfar undir forustu heilbr.- og trmrn., hefur verið til umræðu í dag. Hann hefur á þessu ári til ráðstöfunar 29 millj. kr. til að veita styrki til verkefna á sviði forvarna. Þessa dagana er verið að veita styrki úr sjóðnum. Stjórn sjóðsins hefur að leiðarljósi að styrkja forvarnaverkefni er beinast að börnum og unglingum og við úthlutun er lögð sérstök áhersla á að styrkja verkefni sem tengjast forvörnum gegn vímuefnaneyslu barna og unglinga auk áfengisneyslu og þess má geta vegna umræðu áðan að það er einnig veitt fjármagn til rannsókna.

Landlæknisembættið hóf á sl. ári samstarf við framhaldsskóla um sérstakt fræðsluátak á þessu sviði og um áramótin var hrundið af stað umfangsmiklu verkefni sem beinist gegn neyslu E-taflna. Þá taka heilbrigðisyfirvöld þátt í jafningjafræðslu framhaldsskólanna og skólalæknar og hjúkrunarfræðingar hafa haldið uppi mikilli fræðslu um þessi mál í skólum landsins.

Heilbr.- og trmrn. er nú að hefja þátttöku í öflugu samstarfi Evrópuríkja á sviði heilbrigðismála sem m.a. mun beinast að forvarnaverkefnum á sviði vímuefnamála. Ótal atriði mætti nefna þegar rætt er um hugsanlegar leiðir til úrbóta. En það er þrennt sem ég legg áherslu á:

1. Okkur ber að beina sjónum að rótum vandans og tryggja aðstoð við fjölskyldur landsins og heimili. Okkur ber að ræða af alvöru með hvaða hætti við getum tekið höndum saman og tryggt börnum okkar mannvænlegt umhverfi allt frá fyrstu tíð. Rætur vandans eru brestir sem komnir eru til löngu áður en alvarleg vímuefnavandamál blasa við. Við þurfum að efla forvarnir, stuðning og fræðslu og síðan tæki til að grípa í taumana og aðstoða þá sem eru í áhættuhópi sem fyrst.

2. Okkur ber að samhæfa enn frekar en nú er gert það starf sem unnið er á vettvangi áfengis- og vímuefnavarna. Það samhæfingarstarf er reyndar eins og áður sagði þegar hafið á vegum ríkisstjórnarinnar. Heilbr.- og trmrh. hefur hafið undirbúning að því að allt forvarnastarf er fellur undir ráðuneytið verði eflt til muna, það samhæft og blásið í það nýju lífi. Í því sambandi er rætt um að koma á fót öflugri forvarnamiðstöð. Þeir sem árlega leita aðstoðar heilbrigðisstofnana vegna áfengis- og vímuefnaneyslu skipta hundruðum eða jafnvel þúsundum ef öll samskipti eru talin.

3. Þriðja atriðið sem ég vil leggja sérstaka áherslu á hefur ekki hlotið mikla umfjöllun í umræðum um þessi mál hér á landi en það eru meðferðarúrræði tengd afplánun refsinga. Ég tel afar mikilvægt að skoðað verði markvisst hvort efla megi meðferðarúrræði sem lið í afplánun ungra vímuefnaneytenda. Þegar er vísir að slíku þar sem Fangelsismálastofnun hefur boðið föngum að ljúka afplánun í vímuefnameðferð á stofnunum SÁÁ. Það sem ég hef í huga eru möguleikar á langri meðferð fyrir langt leidda fíkniefnaneytendur, jafnvel 2--3 ára meðferð. Slík meðferð beindist að einstaklingum sem verið hafa í harðri langvarandi neyslu og sem jafnframt eiga oftar en ekki við alvarleg geðræn vandamál að etja. Hér er um að ræða mál sem ég varpa fram til umræðu en hugmyndir í þessu efni yrði að sjálfsögðu að vinna á vettvangi dómsmrn., ríkisstjórnarinnar sem slíkrar og löggjafans.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum segja að ég lýsi ánægju með það að sú ríkisstjórn sem tók við stjórnartaumum á sl. ári hefur þegar hafið baráttu gegn neyslu áfengis og vímuefna og mun af allri einurð ráðast að rótum vandans og styðja einstaklinga og fjölskyldur í því efni. Þar er ekki um að ræða skammtímalausnir heldur starf sem fyrst og fremst mun beinast að rótum vandans.