Spilliefnagjald

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 17:40:05 (6286)

1996-05-20 17:40:05# 120. lþ. 142.4 fundur 252. mál: #A spilliefnagjald# frv. 56/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[17:40]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við frv. til laga um spilliefnagjald sem er að finna á þskj. 1011 en það er brtt. við 3. gr. Flutningsmenn ásamt mér að þessari tillögu eru hv. þm. Gísli S. Einarsson, Kristín Halldórsdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir. Við leggjum til þá breytingu á 3. gr. frv. að í stað orðanna ,,sex menn`` í 2. málsl. komi: sjö menn, og að á eftir orðunum ,,Alþýðusambandi Íslands`` í 2. málsl. komi: einn af Neytendasamtökunum.

Við gerum sem sagt ráð fyrir að sá fulltrúi sem bætt er við í nefndina verði tilnefndur af Neytendasamtökunum. En í breytingartillögum sem hv. formaður nefndarinnar og framsögumaður málsins hefur gert hér grein fyrir, er gert ráð fyrir að hann verði skipaður án tilnefningar af umhvrh.

Nefndin fjallaði eins og fram hefur komið ítarlega um málið og gerir á því margar breytingartillögur sem liggja fyrir á þskj. 984 og um það er samstaða að öðru leyti en því að ágreiningur var í nefndinni um samsetningu svonefndrar spilliefnanefndar og því er þessi breytingartillaga flutt.

Það mál sem hér er um að ræða er mikilsvert og við tökum undir það sem í nefndinni sitjum og erum aðilar að þessari breytingartillögu ásamt áheyrnarfulltrúa sem er einnig aðili að tillögunni til breytinga. Ég ætla að gera nokkra grein fyrir ástæðum þess að við flytjum þessa tillögu. Það var búið að ná samkomulagi um frv. í nefndinni. Líklega var það fyrir páska og við töldum að málið væri að fá lokaafgreiðslu og fara inn í þingið. En þá kom skyndilega upp ágreiningur milli stjórnarflokkanna eða fulltrúa þeirra í nefndinni um málið sem varð það harðvítugur að málið hreyfðist ekki í nefndinni í meira en mánuð og sat þar fast. Það var fyrst í þessum mánuði sem málið var tekið fyrir á ný og afgreitt út úr nefndinni þann 15. maí með nefndaráliti. Þá höfðu stjórnarliðar í nefndinni komið sér saman um að leysa þennan ágreining sín á milli með því að fjölga fulltrúum um einn og ætla umhvrh. hæstv. að skipa þann fulltrúa. Sá fleinn sem stóð á milli flokkanna virtist snúast um það að fulltrúar framsóknarmanna í nefndinni lögðu það til að fulltrúa Vinnumálasambands samvinnufélaga yrði bætt inn í nefndina en fulltrúar sjálfstæðismanna gátu ekki með nokkru móti á það fallist. Við sem stöndum hér að breytingartillögu vorum alveg opin fyrir því að það yrði skoðað, enda yrði fjölgað í nefndinni með því að bætt yrði við fulltrúa frá Neytendasamtökunum. Þau höfðu sent nefndinni umsögn og fundið ýmislegt að skipun þessarar spilliefnanefndar og talið að það ætti að haga meðferð málsins, þ.e. stýringu á þessu starfi, með öðrum hætti. Færi hins vegar svo að fast yrði haldið við þessa skipan, þá segir í niðurlagi umsagnar Neytendasamtakanna, með leyfi forseta:

[17:45]

,,Verði það, andstætt heilbrigðri skynsemi, niðurstaðan að skipa sérstaka spilliefnanefnd telja Neytendasamtökin nauðsynlegt að skipan nefndarinnar verði breytt. Þannig telja samtökin nauðsynlegt að í nefndina verði skipað án tilnefninga hagsmunaaðila en þess gætt að aðilar með fagþekkingu, fulltrúar neytenda og framleiðenda, sitji þá í nefndinni.``

Þetta er undirritað af formanni samtakanna. Það er vissulega mjög æskilegt að fulltrúar Neytendasamtakanna eða þeirra sem hafa auga með þeim sjónarmiðum geti fylgst með þessu máli og geri það með þátttöku í þessari spilliefnanefnd. Það er auðvitað með þeim hætti sem kostur verður á því að fylgjast með framkvæmdinni og líka til þess að koma í veg fyrir tortryggni á málsmeðferð sem við út af fyrir sig teljum ekki fyrir fram ástæðu til ætla að þurfi að koma upp, en það verður best tryggt með því að Neytendasamtökin eigi fulltrúa í nefndinni. Við höfum kynnt þetta sjónarmið. Ég hafði samband við nýkjörinn formann Neytendasamtakanna, Drífu Sigfúsdóttur. Ég kynnti henni þá ætlun okkar að flytja brtt. við málið í þessa veru og ég tel mig geta fullyrt að það féll í góðan jarðveg einnig hjá þessum nýja formanni að Neytendasatökin fengju þannig aðgang að þessum vettvangi. Ég tel að það væri til bóta, þessi samtök vinna gagnmerkt starf, mættu vissulega hafa meiri og víðtækari stuðning á landsmælikvarða en raun ber vitni og í ákveðnum málum, m.a. eins og hér um ræðir, tel ég eðlilegt að þau fái aðgang að vettvangi þar sem fjallað er um mál sem varða almannaheill og það verði gert með þessum hætti.

Í nefndaráliti kemur fram undir tölul. 2 eftirfarandi sjónarmið: ,,Nefndin telur mikilvægt að helstu sjónarmið atvinnulífsins og almennings eigi greiðan aðgang að spilliefnanefndinni og verði það best tryggt með nefndaskipaninni. Til að þessu markmiði verði náð þykir nauðsynlegt að fjölga nefndarmönnum um einn. Því er lagt til að ráðherra skipi tvo nefndarmenn í stað eins áður.``

Það er fyrirvari við þetta atriði sem ég gerði og auðvitað höfðum við öll eins og venja er rétt til þess að flytja eða styðja brtt. við frv. Við gerum það með þessari tillögu sem ég hef gert grein fyrir. Það er vandséð hvernig á að koma þessu fyrir, að tryggja af hálfu þingsins að sjónarmið almennings eigi greiðan aðgang að spilliefnanefndinni ef þannig færi, sem ekki er ólíklegt eftir þann harða hnút sem upp kom á milli stjórnarliða um þetta efni, að ráðherra telji sig skuldbundinn með einhverjum hætti að skipa í nefndina fulltrúa sem tengist eða sem er beint kominn frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Ekki finnst mér líklegt að hæstv. ráðherra kjósi að velja slíkan aðila formann. Það er þá hætt við að það fari að fara um sjálfstæðismenn og þá sem eru þeim skyldir að viðhorfum. Ég ætla ekki að fara að rekja hvaða aðilar það gætu verið sem eiga tilnefningarrétt í nefndina, en ég efast um að hæstv. ráðherra treysti sér til þess að gera fulltrúa Vinnumálasambands samvinnufélaganna formann í nefndinni. Ef hæstv. ráðherra velur síðan þann kost að taka mann nr. tvö, sem hann hefur vald til samkvæmt breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar, og skipa þann aðila frá Vinnumálasambandinu er ekkert pláss eftir fyrir fulltrúa frá Neytendasamtökunum eða þessa fulltrúa almennings sem um getur í nefndaráliti.

Ég tel að þetta sé mikilsvert efni sem við erum að ræða og sem við leggjum áherslu á með flutningi þessarar brtt. okkar. Ég vænti þess og hafði raunar vænst þess að það yrði komið til móts við þessi sjónarmið af hálfu nefndarmanna allra og meiri hlutans í nefndinni þannig að ekki þyrfti að koma til sérstaks tillöguflutnings. Mér finnst þetta satt að segja heldur vandræðalegt af hálfu meiri hlutans að halda svona á máli. Ég sá hins vegar ekki ástæðu til að fara að taka upp þeirra mál með okkar tillöguflutningi, heldur leggja fyrst og fremst áherslu á það sjónarmið að fulltrúi Neytendasamtakanna fái aðgang að nefndinni með þessum hætti. Hér er uppi alveg dæmigert deiluefni þeirra aðila sem að ríkisstjórn standa og einhvern tíma var kennt við helmingaskipti, þ.e. það verður að vera jafnt á merinni að því er varðar þá aðila sem standa að atvinnurekendasamtökum í landinu, Vinnuveitendasambandinu annars vegar og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna hins vegar. Það hefur hins vegar farið svo að veldi hins síðartalda hefur orðið miklu minna, sumpart því miður í seinni tíð, vegna þess hvernig fór fyrir Sambandi ísl. samvinnufélaga sem þarna var mikill burðarás áður fyrr. Það er liðin tíð en eftir stendur þessi gamli rígur og kemur fram með þessum hætti í sambandi við frv. til laga um spilliefnagjald.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég vænti þess að mönnum sé ljóst hvað hér um ræðir og hvað fyrir okkur vakir sem berum fram þessa brtt. Það kann að vera að það rofi til í þessu efni þegar menn fara að skoða þetta betur og ég á von á því að við eigum talsvert fylgi við þetta sjónarmið. Mér finnst að Neytendasamtökin eigi það alveg inni að fá aðgang að þessari nefnd og það geti orðið til að koma í veg fyrir tortryggni á málsmeðferð á máli sem er jákvætt og þarflegt að verði lögfest, þ.e. þetta frv. Sá vilji sem þar hefur komið fram hjá samtökum atvinnulífsins m.a. er allra góðra gjalda verður og sjálfsagt að láta á hann reyna og virkja þá krafta. Undir það vil ég taka.