Tollalög

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 18:19:53 (6297)

1996-05-20 18:19:53# 120. lþ. 142.10 fundur 441. mál: #A tollalög# (yfirstjórn, málsmeðferð, tollskjöl) frv. 69/1996, Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[18:19]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og brtt. vegna frv. til laga um breytingu á tollalögum. Efh.- og viðskn. sendir frá sér þetta álit og stendur að þessum brtt. en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur fyrirvara sem hann mun væntanlega grein fyrir síðar við umræðuna.

Brtt. efh.- og viðskn. eru í 11 liðum. Í 1. lið brtt. er gerð tillaga um nýja skilgreiningu sem er á leyndarkóðun svokallaðri, en hún felst í því að skeyti sem sent er frá tölvu í tölvu getur ekki misfarist á leiðinni vegna þess að sendandi og móttakandi hafa lykla til að leysa úr þessari leyndarkóðun.

Í 2. lið er gerð brtt. við 6. gr. og snýr hún að því að skipta upp ábyrgð á milli rekstraraðila frísvæðis og almennra tollvörugeymslna sem og umboðsaðila annars vegar og hins vegar þeirra sem slíkir aðilar eru að vinna fyrir. Í frv. var gert ráð fyrir því að það væri þarna á ferðinni sólídarísk ábyrgð en samkvæmt frv. er leitast við að skilgreina ábyrgðarsviðið þannig að hver um sig beri ábyrgð á sínum upplýsingum með venjulegum hætti.

Í 2. lið er enn fremur gert ráð fyrir 10. mgr. 6. gr. falli brott og að bætist við ný málsgrein sem samsvarar þessari leyndarkóðun. 10. mgr. sem ég gat um áðan snýr að því að tollstjórar geti boðið innflytjendum aðstoð við útyllingu á aðflutningsskýrslu gegn gjaldi. Þetta er lagt til að falli niður.

Í 3. lið brtt. er gerð tillaga um breytingu á 8. gr. Hún snýr enn fremur að því að skipta upp ábyrgð á röngum upplýsingum.

Í 4. lið brtt. er gerð brtt. við 12. gr. Hún snýr að upplýsingagjöf tollyfirvalda og kveður á um að þeim sé skylt að veita almennar upplýsingar og leiðbeiningar um tollflutta vöru, ákvörðun tollverðs, gjaldtöku, útfyllingu á aðflutningsskýrslum, kæruleiðir og hvað eina sem lýtur að tollafgreiðslu. Það er sem sé ekki gert ráð fyrir því að í því felist þjónusta sem tekið er gjald fyrir, heldur er þarna fyrst og fremst á ferðinni tillaga um að tollyfirvöldum sé skylt að veita sjálfsagða þjónustu þeim sem leita til þeirra um leiðréttingar og annað slíkt. Á því hefur verið nokkur misbrestur hingað til.

Í 5. lið brtt. er lögð til breyting á 17. gr. Hún snýr að því að ríkistollstjóri geti falið tollvörðum við embætti sitt að annast eftirlits- og rannsóknarstörf hvar sem er á landinu og er tollstjórum skylt að veita nauðsynlega aðstöðu við framkvæmd starfanna. Hann getur á sama hátt falið öðrum starfsmönnum störf á sínu eftirlitssviði hvar sem er á landinu. Hér er rétt að hafa í huga að tollverðir hafa lögregluvald og ekki er reiknað með því að aðrir starfsmenn ríkistollstjóra geti farið með slíkt vald en aðrir starfsmenn geta annast eftirlits- eða rannsóknarstörf hjá einstökum tollembættum eða einstökum aðilum án þess þó að geta beitt slíku lögregluvaldi. Um þetta er nánar fjallað í nefndarálitinu.

Síðan er í 5. lið brtt. fjallað um að tollskólinn skuli starfræktur áfram. Enn fremur er tillaga sem um að þegar ríkistollstjóri endurákvarðar gjöld séu þau sambærileg og þegar um er að ræða ákvörðun tollstjóra. Þá er lagt til að það gildi sömu ákvæði um embættisgengi tollstjórans í Reykjavík og gilda um skipun sýslumanna eins og verið hefur. Lagt er til að orðalagsbreyting verði gerð á ákvæðinu varðandi ráðningu tollvarða og síðast en ekki síst er lagt til að það verði sérstaklega kveðið á um við skipun í ríkistollanefnd að nefndarmenn séu hvorki háðir tollyfirvöldum né þeim sem hafa samskipti við tollyfirvöld.

Í 6. lið brtt. er lagt til að fjmrh. verði veitt sambærileg heimild til reksturs tollfrjálsra verslana í höfnum og hann hefur í sambandi við flugstöðvar.

Í 7. lið er lögð til breyting á 25. gr. þar sem gert er ráð fyrir að frestur tollstjóra til að senda inn tilkynningu um hugsanlega endurákvörðun á gjöldum verði styttur og miðar tillagan að því að innflytjandi hafi jafnan nægan tíma til andsvara ef tollyfirvöld telja vöru ekki rétt tollafgreidda.

Í 8. lið er gerð brtt. við 26. gr. Þar er verið að skýra ákveðið málskot til ríkisskattanefndar og kærufrestur lengdur um 3--6 daga.

Í 9. lið eru lagðar til breytingar á 30. gr. frv. þar sem kveðið er á um að ekki verði heimilt að framselja tollgæsluvald sem eingöngu er falið tollyfirvöldum til einkaaðila. Eðlilegt þykir að tollyfirvöldum verði heimilað að fela öðrum ákveðna þætti tollafgreiðslu eins og nú er gert.

Í 10. lið brtt. er gert ráð fyrir að refsiákvæði laganna breytist og í 11. lið er gert ráð fyrir að sektarheimild verði lækkuð til samræmis við það sem gildir um sektargerðir lögreglu.

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um í upphafi er þetta samkomulagsmál efh.- og viðskn. Hér er á ferðinni mikið framfaramál og ég vona að þingheimur geti samþykkt þetta mál.