Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 21:08:25 (6307)

1996-05-20 21:08:25# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[21:08]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mínar spurningar lutu ekki að því að fá útskýringar hjá hæstv. ráðherra tæknilegs eðlis hvernig að þessum niðurskurði væri staðið. Það er mér löngu ljóst og það liggur fyrir í öllum forsendum máls. Mín spurning snerist eingöngu um það hvort það væri rétt mat af hálfu formanns nefndarinnar að því átaki í vegamálum, framkvæmdaátaki og þessum hefðbundnu framlögum sem hefur birst í háum framlögum til þessa mikilvæga málaflokks, væri lokið. (Gripið fram í: Formaðurinn sagði það aldrei.) Formaðurinn sagði hins vegar að núna eftir fjögur ár drægi mjög úr framlögum og um það þarf ekki að deila. Ég gagnályktaði og spurði: Er þá þessu átaki í vegamálum sem sannarlega hefur verið til staðar og ég hældi hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir það við 1. umr. málsins, er því lokið? Erum við að renna inn í nýja tíð? Er það Framsfl. sem hefur þessi áhrif? Eða er það vegna þess að hæstv. ráðherra hefur misst áhugann skyndilega? Eða er það vegna þess að hæstv. ráðherra hefur orðið að lúffa fyrir hæstv. fjmrh.?

Ég veit nákvæmlega allt um það hvernig að þessum sparnaði á að standa með lánveitingum og öðru. Það er ekki lykilatriði þessa máls. Ég spurði enn fremur: Má vænta þess að einhverjar ámóta upphæðir, 800 millj. kr. eða þar um bil, komi til með að vanta inn í þær forsendur sem vegáætlun byggir á fyrir árin 1997 og 1988?