Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 21:14:08 (6310)

1996-05-20 21:14:08# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[21:14]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alrangt hjá hv. 9. þm. Reykn. að ég hafi verið harla kátur yfir þeirri niðurstöðu að við blasir að niðurskurðurinn í vegamálum er um 800 millj. kr. frá vegáætlun. Því fer víðs fjarri að ég sé harla kátur yfir því. Ég var hins vegar að vekja athygli á því að séu þessi mál skoðuð í sögulegu samhengi, svo sem 10 ár aftur í tímann, þá er það þannig að við erum samt sem áður með álíka framlög til uppbyggingar í vegamálum á þessu ári og á árinu 1991 og meiri framlög en á árunum þar á undan. Það var það sem ég var að vekja athygli á. Mér finnst alveg rétt að þessu sé til haga haldið og til skila komið vegna þess að þetta skiptir máli í þessari umræðu.

Hv. þm. spurði hvort ég væri sérstaklega sáttur við þá ákvörðun hæstv. fjmrh. að lækka bensíngjaldið til þess að vega upp á móti þeirri bensínhækkun sem var yfirvofandi vegna hækkunar á bensínverði á heimsmarkaði. Ég svara því afdráttarlaust játandi. Ég er mjög ánægður yfir því að hæstv. ráðherra skyldi taka þessa ákvörðun vegna þess að það hefði verið mjög illþolanlegt fyrir bílaeigendur í landinu að fá á sig óbætta alla þá miklu verðhækkun sem lá í loftinu á bensínverði hér í landinu vegna hækkunar á heimsmarkaði. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég held að það yrði mjög sérkennilegur gjaldstofn ef við ættum að láta framlög til vegamála algjörlega ráðast af því hvernig heimsmarkaðsverð á olíu og bensíni rokkar til og frá. Hvernig ættu menn að bregðast við því ef heimsmarkaðsverð bensíns og olíu lækkaði allt í einu á næstu mánuðum? Það yrði þá væntanlega til þess að þessi gjaldstofn hryndi. Ættu menn þá á miðju ári að taka upp vegaáætlunina og hefjast handa við niðurskurð? Hætta við stórar framkvæmdir í miðjum klíðum o.s.frv.? Ég held að það sé miklu eðlilega að hafa þetta eins og þetta er, þ.e. að þessi rammi er ákveðinn í upphafi. Við styðjumst að sjálfsögðu við tekjurnar af bensíngjaldinu en við getum ekki fylgt hverri einustu verðhækkun eða verðlækkun á bensíni eða olíu í heiminum. Það sjá allir til hvers ósóma það mundi leiða.