Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 23:08:29 (6322)

1996-05-20 23:08:29# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[23:08]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þær áhyggjur sem hér hafa komið fram vegna þess hversu margar einbreiðar brýr eru á þeim vegum þar sem búið er að leggja bundið slitlag. Reynslan sýnir okkur að slysahætta er þar meiri. En við skulum heldur ekki gleyma hinu að samkvæmt vegáætlun er ekki gerður greinarmunur á því hvort fénu skuli varið til veganna eða brúnna og geta þingmenn auðvitað hver í sínu kjördæmi haft áhrif á það að fénu sé varið til þess að breikka brýrnar og með þeim hætti dregið úr slysahættunni. Auðvitað hefur verið veitt fé af vegáætlun til þessara mála. En menn hafa hins vegar freistast til þess að láta bundna slitlagið sitja fyrir vegna þess mikla hagræðis sem það veitir og vegna þess hversu mikinn sparnað það hefur í för með sér fyrir alla aðila að vegir séu lagðir bundnu slitlagi.

Ég var svolítið undrandi á því hjá hv. þm. þegar hann talaði um að næsta stórverkefni á Vesturlandi á eftir Gilsfirðinum væri Búlandshöfði. Ég hafði satt að segja haldið að það þyrfti að koma einhverjum vegum að jarðgöngunum þegar þau koma upp hjá Akrafjallinu og ég man ekki betur en það kosti svona 700 millj. kr. eða svo. En það má vera að þeir telji það ekki mikið þarna fyrir vestan.