Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 23:55:16 (6330)

1996-05-20 23:55:16# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[23:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við höfum nú verið að ræða vegáætlun fyrir árið 1996 frá því kl. hálfníu í kvöld og margt fróðlegt hefur komið hér fram. Allt frá því hvernig ástandi vega er háttað á landinu og að því hvaða reglum er beitt við úthlutun og skiptingu vegafjár. Það verður að segjast eins og er að það er ákaflega sérstök reynsla að kynnast því hvaða vinnubrögð eru viðhöfð. Reyndar kem ég að þessari vinnu þar sem verið er að skera niður eins og komið hefur fram í umræðunni. Vegáætlun sem gerð var árið 1994 og gilda átti í fjögur ár, 1995--1998, hefur verið skorin niður um rúmar 800 millj. kr. Það má segja að ríkisstjórnin hafi skorið það mikið niður, bæði hefðbundin framlög til vegafjár og einnig til framkvæmdaátaksins, að það stendur ekki steinn yfir steini. Þess vegna tek ég undir það sem hefur komið fram hjá ýmsum fyrri ræðumönnum hér í kvöld að það hefði frekar átt að fara í áætlun um framtíðina því það er eins og kom fram hér hjá hv. formanni samgn. allt óvisst um vegáætlun á næsta ári og þarnæsta. Sú vegáætlun sem unnin var árið 1994 er því gjörsamlega brostin. Auðvitað bitnar þessi niðurskurður illa á öllum. Hann er mismikill og mestur er hann á höfuðborgarsvæðinu, því svæði sem hefur verið nokkuð afskipt á undanförnum árum þegar vegafé úr ríkissjóði er annars vegar.

Almennur niðurskurður á framlagi til vegamála er nú rúm 18% eins og kemur fram í minnihlutaáliti okkar í samgn. En fé til framkvæmdaátaksins er skorið mun meira niður eða um 36%. Það, eins og ég sagði áðan, kemur verst niður og harkalegast á höfuðborgarsvæðinu en framkvæmdaátaksféð sem skipt er eftir höfðatölu hefur farið að miklum hluta til framkvæmda þar. Þær framkvæmdir hafa skilað yfirleitt hámarksarði. Mönnum hefur orðið tíðrætt um einbreiðar brýr og slysahættu vegna þeirra. Ég get tekið undir að auðvitað er það bagalegt ástand að vera með 139 einbreiðar brýr á hringveginum sem valda mikilli slysahættu. En það skapast ekki síður slysahætta hér á höfuðborgarsvæðinu við þennan mikla niðurskurð á framkvæmdaátaksfénu um 36%. Það gerir það að verkum að framkvæmdir tefjast sem fyrirhugaðar voru í Ártúnsbrekku í ár og því mun bráðabirgðaástand ríkja á þessari fjölförnu leið hér í borginni mun lengur en áætlað var. Borgaryfirvöld, umferðanefnd Reykjavíkur og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessarar frestunar á tvöföldun akbrautar neðan Ártúnsbrekku og raunar varað við henni. Einnig verið hefur gagnrýnt hvað höfuðborgarsvæðið hefur farið illa út úr skiptingu vegafjár undanfarin ár.

Mig langar til að vitna hér í grein í Morgunblaðinu sem borgarfulltrúi Sjálfstfl. hér í Reykjavík skrifaði í síðustu viku. Þar hvetur hann stjórnvöld til að endurskoða þennan mikla niðurskurð hér á höfuðborgarsvæðinu. Hann, og það hafa aðrir borgarfulltrúar einnig gert, bendir á að höfuðborgarsvæðið hefur hvað vegaframkvæmdir varðar verið mjög afskipt. Hann segir hér, með leyfi forseta:.

[24:00]

,,Þetta kemur í ljós þegar skoðað er hver hlutur höfuðborgarsvæðisins hefur verið af heildarfjármagni nýrra þjóðvega samkvæmt vegáætlun undanfarin 10 ár.``

Það er borgarfulltrúi Sjálfstfl. Gunnar Jóhann Birgisson sem skrifar þessa grein og birtir hér töflu sem sýnir svo ekki verður um villst hve höfuðborgarsvæðið hefur farið varhluta af fé til nýrra þjóðvega. Hann bendir einnig á þá hættu sem skapast af frestun framkvæmda í Ártúnsbrekkunni. Einnig höfum við þingmenn Reykv. og Reykn. fengið bréf sem mig langar til að vitna hér í frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeir vara eindregið við þessum niðurskurði á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega hvað varðar Ártúnsbrekku. Ég ætla að fá að lesa úr þessu bréfi. Í bréfi til þingmanna segir stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, með leyfi forseta:

,,Stjórn SSH tekur undir áhyggjur umferðanefndar Reykjavíkurborgar vegna áætlana um frestun framkvæmda við tvöföldun akbrauta neðan Ártúnsbrekku. Vegna niðurskurðar á fé til vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu hefur verið ákveðið að fresta framkvæmdum við breikkun Vesturlandsvegar frá Elliðaám vestur að Réttarholtsvegi. Það hefur margsinnis komið í ljós arðsemi framkvæmda af þessu tagi. Slysahættan er slík við aðstæður sem þarna skapast að ekki er réttlætanlegt með nokkrum hætti að fresta framkvæmdum. Frestun framkvæmda býður heim aukinni slysahættu og getur kostnaður vegna þess orðið meiri en sparnaður vegna frestunar framkvæmda.

Stjórn SSH beinir því til stjórnvalda að tryggja að nægilegt fé verði veitt til þessara framkvæmda þannig að hægt verði að ljúka framkvæmdum sem fyrst. Með því að ljúka þessum framkvæmdum í ár er ljóst að draga megi stórlega úr hættu á árekstrum og slysum.``

Ég sá hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, ganga hér í salinn áðan en hann stoppaði ekki lengi við, enda ekki sést mikið til hans undanfarið. Hann rak hér inn nefið áðan og þá rifjaðist upp fyrir mér að eitt aðalkosningaloforð Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar var að ekki skyldi skorið niður fé til vegaframkvæmda. Ég hélt satt best að segja að hæstv. forsrh. væri kominn til að staðfesta það hér við þessa umræðu um vegáætlun. En því miður virðist svo ekki vera.

Ég var að benda á slysahættuna við frestun framkvæmda við Ártúnsbrekkuna sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vara hér eindregið við. En nú hefur komið í ljós að hækkanir á bensínverði hafa skilað mun meiri tekjum og munu skila meiri tekjum í ríkissjóð en áætlað var á fjárlögum. Samkvæmt áætlunum FÍB, Félags íslenskra bifreiðaeigenda, frá því 6. maí sl. er tekjuaukinn áætlaður um 300 millj. kr. á þessu ári. Síðan hefur bensínverð enn hækkað jafnvel þótt hlutur ríkissjóðs í bensínverðinu hafi lækkað. FÍB var reyndar með tillögur um hvernig þessum viðbótartekjum í ríkissjóð af bensínverði skyldi ráðstafað. En þar sem bent hefur verið á hina miklu slysahættu og óhagræði af frestun framkvæmda í Ártúnsbrekku þar sem mun myndast flöskuháls og mikil hætta skapast höfum við fimm þingmenn lagt fram brtt. við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, höfum við lagt til að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

,,Á árinu 1996 skal verja 200 millj. kr. af vörugjaldi af eldsneyti til að flýta vegaframkvæmdum í Ártúnsbrekku í Reykjavík.``

Vegagerðin telur að um 200 millj. kr. vanti til að upphafleg áætlun um framkvæmdir í Ártúnsbrekku standist. Þessar 200 millj. kr. eru ekki nema hluti af þeim viðbótartekjum sem FÍB hefur reiknað út að ríkissjóður muni fá vegna hækkana á bensínverði. Við munum mæla fyrir þessari brtt. þegar umrætt frv. kemur hér á dagskrá. En breyting þarf að verða á þeim lögum þannig að hægt verði að nýta þessar viðbótartekjur til þessara framkvæmda. Þetta er sem sagt nýr tekjustofn til vegaframkvæmda í Ártúnsbrekku.

Það ætti að vera öllum ljóst mikilvægi þess að nægt fé fáist til að ljúka sem fyrst framkvæmdum í Ártúnsbrekkunni svo draga megi úr hættu á árekstrum og slysum. Það hefur líka komið fram að tekjurnar eru til staðar svo það er aðeins viljann sem vantar. Ef marka má kosningaloforð Sjálfstfl. og hæstv. forsrh. fyrir síðustu kosningar þar sem hann lofaði hverjum sem heyra vildi að ekki yrði skorið niður fé til vegagerðar ætti að vera auðvelt fyrir meiri hluta Alþingis að samþykkja að þarna komi þessar viðbótartekjur til þess að klára þessar framkvæmdir.

Herra forseti. Ég sé að það er liðið á kvöldið. Klukkan er farin að ganga eitt og umræðan hér í þinginu um vegáætlunina hefur verið góð til þessa. Ég held ég fari því senn að ljúka máli mínu. En ég vil mótmæla þeim mikla niðurskurði á vegafé sem fram kemur í þessari vegáætlun og tek undir að það er nauðsynlegt að fara út í áætlanagerð og þá ekki eingöngu í vegáætlun heldur þarf að fara í samgönguáætlun þar sem tekin eru inn í flugmál og hafnamál, eins og kom fram hér hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og ég reyndar kom inn á í fyrri umr. um vegáætlun, sérstök áætlun í samgöngumálum. Það þarf að horfa til framtíðar og vera með stefnumörkun því hana vantar gjörsamlega. (ÖS: Hvaða kjördæmapot er þetta?) Það þarf að taka heildstætt á þessum málum. Ekki út frá sérstökum kjördæmum heldur út frá þeim verkefnum sem brýnust eru hverju sinni.