Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 14:51:00 (6350)

1996-05-21 14:51:00# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EKG
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[14:51]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum í dag ákaflega mikilvægt mál sem er frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur með síðari breytingum. Þessi lög eru býsna gömul, tæplega 60 ára, og mjög margt hefur breyst á þeim tíma frá því að þau voru sett. Á undanförnum árum hefur farið fram vaxandi umræða um að það sé nauðsynlegt að huga að breytingum á þessari lagasetningu í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í okkar þjóðfélagi bæði í samskiptum aðila vinnumarkaðarins og af eðlilegum ástæðum vegna þess að þjóðfélagið sjálft hefur verið að breytast. Þetta þarf í sjálfu sér engan að undra og þess vegna hygg ég að fáum hefði átt að koma það á óvart að niðurstaðan yrði sú á einum tíma eða öðrum og það fyrr en síðar að gerð yrði tilraun til þess að gera breytingar á þessum gömlu lögum sem þó hafa að flestu leyti reynst vel í tímans rás. Breyttir tímar einfaldlega krefjast þess að við endurskoðum þessa löggjöf eins og svo margar aðrar og auðvitað ekkert við því að segja í sjálfu sér. Menn eiga þess vegna ekki, finnst mér, að ræða þetta út frá þeim forsendum hvort að æskilegt sé að gera breytingar á vinnulöggjöfinni af hálfu Alþingis heldur fyrst og fremst að reyna að ræða þetta mál efnislega, fjalla efnislega um það sem í frv. stendur og þær tillögur sem uppi eru og komast þannig að einhverri niðurstöðu um þetta mál og takast þannig á um þetta mál pólitískt. Við getum auðvitað rætt það endalaust hér í dag hvort fundirnir hefðu átt að vera 49 eða eitthvað aðeins fleiri en það, í stað 48. Við getum auðvitað rætt það alveg endalaust hvort haft hafi verið nægjanlegt samráð um þessi mál. En við munum örugglega aldrei komast að neinni niðurstöðu um það hvað sé nægilegt samráð.

Fyrsta spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er einfaldlega þessi: Á að setja lög um samskipti aðila vinnumarkaðarins? Ef við svörum því játandi þurfum við næst að svara þeirri spurningu hversu langt eigi að ganga í þeirri lagasetningu, hversu ítarleg hún eigi að vera og til hvers hún eigi að taka. Ég svara fyrstu spurningunni hiklaust játandi. Það á að setja lög um samskiptareglur á vinnumarkaði vegna þess að hér er um að ræða mjög þýðingarmikinn þátt í okkar þjóðfélagi. Þar er mjög mikilvægum ráðum ráðið sem geta haft áhrif, ekki bara á lífskjörin í landinu, heldur á nánast allt í okkar þjóðlífi vegna þess að það er verið að takast á um gríðarlegar stærðir, þ.e. launaþáttinn í þjóðarframleiðslu eins lands. Þannig að mín niðurstaða er hiklaust sú að það eigi að setja slík lög og það eigi að reyna að hafa þau lög skýr þannig að aðilar vinnumarkaðarins, sem svo eru nefndir, viti að hverju þeir ganga þegar þeir setjast að nauðsynlegum samningaviðræðum.

Stóra spurningin sem við hljótum hins vegar að reyna að svara er sú spurning sem oft hefur verið orðuð á síðustu dögum með misjafnlega skýrum hætti. Hún er þessi: Er lagasetningin þess eðlis að hún gangi á svig við hugmyndir okkar um félagafrelsi í landinu? Fyrri hlutinn af þessu máli er auðvitað spurningin um rétt manna til að stofna félög. Ég held að hvernig sem menn leita í því frv. sem hér liggur fyrir með brtt. frá meiri hluta félmn. sé ekki hægt að halda því fram að það sé verið að ganga á rétt manna til þess að stofna félög. Alls ekki. Í þeim efnum erum við einfaldlega að innsigla í meginatriðum þau skilyrði sem hafa ríkt í okkar þjóðfélagi á þessari öld og engar raunverulegar meginbreytingar verða þar á. Hin spurningin er sú hvort hægt sé að halda því fram að verið sé með þessari lagasetningu að troða á rétti félagsmanna verkalýðsfélaganna innan þeirra.

Í áliti títtnefndrar Lagastofnunar Háskóla Íslands er einmitt vikið að þessu á bls. 17 og 18 og rætt um þau mál, m.a. í samhengi við álit félagafrelsisnefndar ILO og samþykkta ILO þar sem m.a. er vikið að þeirri meginspurningu sem ég vakti hér máls á. Með leyfi virðulegs forseta, segir svo í áliti Lagastofnunar á bls. 18:

,,Félagafrelsisnefnd ILO hefur lagt áherslu á að takmarkanir á þeim réttindum sem samtökum á vinnumarkaði séu tryggð í 3. gr. ILO 87 eigi einvörðungu að tryggja að lýðræði sé virt innan launþegahreyfingarinnar. Enn fremur`` --- og eftirfarandi er byggt á tilvitnun í kafla 425 í ritinu Freedom of Association --- ,,hefur verið tekið fram að fallast megi á að sett séu lög í þeim tilgangi að styrkja meginreglur lýðræðis innan stéttarfélaga. Leynileg og bein kosning falli vissulega undir lýðræðislega stjórnarhætti og verði ekki gagnrýnd sem slík.`` --- Og enn er vitnað í sama rit, kafla 339: ,,Félagafrelsisnefndin hefur þó talið of langt gengið þegar mælt er fyrir um skyldu félagasmanna til að taka þátt í atkvæðagreiðslum.`` Síðar segir, með leyfi virðulegs forseta, og er það niðurstaða Lagastofnunar:

,,Samkvæmt þessu verður að telja að framangreindar breytingar á frumvarpinu`` --- þ.e. því frv. sem lá fyrir í upphaflegri mynd --- ,,séu í lýðræðisátt og séu að því leyti í samræmi við ákvæði þeirra alþjóðasamþykkta sem Ísland er aðili að.`` Hér er mjög skýrt talað. Hér er svarað þeirri meginspurningu sem hefur verið uppi dögum saman hvort verið sé að brjóta prinsippið um félagafrelsið í verkalýðshreyfingunni. Ég tel mjög þýðingarmikið að við ræðum þetta og komumst að niðurstöðu vegna þess að þetta eru grundvallaratriði. Þetta er það sem við þurfum að komast að niðurstöðu um, þetta er það sem við þurfum að vera nokkuð sátt um og sannfærð um áður en við göngum til atkvæða um þetta frv. Niðurstaða mín er því sú sama og niðurstaða Lagastofnunar að hér er ekki um að ræða brot á félagafrelsinu.

Í umræðum manna að undanförnu hefur verið vikið að þætti Lagastofnunar Háskóla Íslands í þessu máli. Og það hefur komið mér dálítið á óvart að einstaka þingmenn hafa talið sér það sæma að reyna að koma höggi á Lagastofnun og gera lítið úr hennar hlut á allan hátt. Ég vil þess vegna aðeins reyna að rekja þessi mál frá mínum sjónarhóli. Þegar félmn. settist niður við að fara yfir frv. var henni auðvitað á margan hátt vandi á höndum. Þetta er flókið mál, þetta er viðkvæmt mál, það snertir mjög marga þætti. Það er auðvitað ljóst að það er alls ekki sama hvert við leitum eftir upplýsingum. Niðurstaða nefndarinnar var þess vegna sú að reyna að leita mjög víða fanga, senda frv. nokkuð víða til umsagnar. Spurningin var hins vegar þessi: Hvar getum við leitað ,,sérfræðilegrar`` ráðgjafar sem ekki, ef svo má segja, er hlaðin gildismati annars hvors aðila vinnumarkaðarins? Hvert getum leitað eftir einhverju sem við getum kallað hlutlægt sérfræðiálit? Auðvitað geta menn endalaust deilt um það. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að leita til Lagastofnunar háskólans og fá þar álit eins og oft er gert. Vitaskuld er Lagastofnun Háskóla Íslands enginn dómstóll og enginn hæstiréttur. En það er fullkomlega eðlilegt að leita þangað. Þar er sérfræðiþekking samankomin undir nafni Háskóla Íslands.

[15:00]

Þetta er nú öll sagan á bak við málið. Ég tel að þetta hafi verið ákaflega eðlilegt og ég man ekki betur en það hafi komið reyndar á daginn þegar álit Lagastofnunar háskólans kom fram að hér í þingsölum hafi ýmsir fagnað því að álit Lagastofnunar væri staðfesting á tiltekinni gagnrýni sem hefði komið fram á frv.

Mér finnst, virðulegi forseti, ástæða til þess að vekja athygli á því að frv. hefur tekið umtalsverðum og ég vil segja á margan hátt grundvallarbreytingum í meðförum þingsins og í meðförum hv. félmn. Nefndin lagði sig mjög fram um það að leita eftir upplýsingum eins og fram hefur komið og hún lagði sig mjög fram um það að finna á þessu máli lausn sem talist gæti eðlileg og sanngjörn þannig að hún stæðist a.m.k. kröfur manna varðandi stjórnarskrána, varðandi alþjóðlegar skuldbindingar, alþjóðlega samninga o.s.frv. Auðvitað var niðurstaðan pólitísk í lokin. Það gefur auga leið. Hún var pólitísk í lokin. En engu að síður mega menn ekki horfa fram hjá því að það voru gerðar grundvallarbreytingar á þessu frv., miklar breytingar a.m.k. Við skulum ekki gleyma því að það reis einna hæst í gagnrýninni í upphafi málsins að það væri gert ráð fyrir því að menn gætu stofnað vinnustaðarfélög. Gagnrýnin sem kom fram á það mál var sú að það væri verið að vega að sjálfum rótum verkalýðshreyfingarinnar. Verkalýðshreyfingin væri byggð upp eins og menn þekktu og með því að ætla að heimila stofnun vinnustaðarfélaga væri verið að vega að grundvallaruppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar í landinu og það töldu ýmsir, ekki síst fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, Alþýðusambandsins t.d., að væri kannski hvað veigamesti ágallinn á þessu frv. vegna þess að hann fæli í sér aðför að uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar með réttu eða röngu. Niðurstaða félmn. var sú að fella burtu þennan kafla, þetta stóra gagnrýnisatriði.

Annað atriði sem mjög var líka gagnrýnt og mjög vísað til þess að verið væri að brjóta skuldbindandi alþjóðlega samninga, var spurningin um tengingarregluna. Tengingarreglan fer út úr frv. Í staðinn er sett inn ákvæði, gamall kunningi úr núgildandi lögum sem auðvitað gjörbreytir þessu máli. Ég vil hins vegar, virðulegi forseti, rifja það upp vegna þess að mjög hefur verið rætt um Danmörku sem sérstakt fyrirmyndarland í samskiptum aðila vinnumarkaðarins og vekja athygli á því að í frægri áfangaskýrslu félmrh. um samskiptareglur á vinnumarkaði, sem samin var og má kalla eins konar undanfara þessa frv., er einmitt vikið að hefðinni í Danmörku. Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Í Danmörku er löng hefð fyrir því að tengja saman réttaráhrif viðræðuáætlunar og formlegra afskipta sáttasemjara. Með löggjöf er þar tryggt að sáttasemjari geti haft frumkvæði að því að allir þeir hópar sem tengst hafa kjaradeilum vegna endurnýjunar samninga taki sameiginlega afstöðu til þeirrar niðurstöðu sem fæst í samningaviðræðum. Þannig hefur verið algengast að sáttasemjari leggi fram eina allsherjartillögu til lausnar öllum yfirstandandi kjaradeilum. Tillaga sáttasemjara byggir að jafnaði á höfuðlínum sem verða til í kjarasamningum en samningarnir eru felldir inn í tillöguna og skoðast hluti hennar. Eiginleg miðlun nær aðeins til þeirra hópa sem ekki hafa lokið samningum meðan á viðræðum stóð þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Tillaga sáttasemjara að heildarlausn kjaradeilna hefur því næst verið lögð fyrir alla sem hafa átt aðild að félögum sem að deilunni stóðu með sameiginlegri atkvæðagreiðslu.``

Þetta er auðvitað fróðleg lesning um það hvernig þessum málum er fyrirkomið í Danmörku.

Þriðja atriðið sem líka var mjög mikið gagnrýnt í þessari umræðu var spurningin um mismunandi kerfi atkvæðagreiðslna. Því var haldið mjög stíft á lofti að það skapaði ákveðna óvissu þegar atkvæðagreiðslukerfið væri mismunandi frá einni ákvörðun til annarrar. Þannig væri eitt kerfi fyrir miðlunartillögu, annað fyrir verkfallsboðun, þriðja fyrir samþykkt samninga og mismunandi raunar fyrir verkfallsboðanir eftir því hvaða tegund verkfallsboðunar um væri að ræða. Félmn. tók líka undir þessa gagnrýni og breytti frv. í þessa veru, samræmdi þröskuldana svokölluðu og lækkaði þá og kom þannig fullkomlega til móts við þá gagnrýni sem hafði verið sett fram um það að þetta væri flókið og ruglingslegt kerfi. Það má auðvitað deila um það hvort þetta hafi verið sanngjörn gagnrýni. Engu að síður komu menn fullkomlega til móts við hana.

Fjórða gagnrýnisatriðið sem ég vil nefna og tekið var tillit til var spurningin um þröskulda, þ.e. kröfuna um tiltekna þátttöku í allsherjaratkvæðagreiðslu þegar ekki væri um að ræða póstatkvæðagreiðslu. Menn fundu að því að gerðar væru of miklar kröfur um þátttöku varðandi miðlunartillögu. Menn fundu að því að gerðar væru of miklar kröfur varðandi verkfallsboðunina. Menn fundu að því að gerðar væru of miklar kröfur varðandi samþykkt samninga. Í öllum þessum tilvikum var tekið tillit til þessarar gagnrýni. Þröskuldarnir voru lækkaðir og það umtalsvert. Krafan um verkfallsboðunina fól í sér um 50% þröskuld í upphafi eða 20% eftir því hvort um væri að ræða heilu hópana eða allsherjaratkvæðagreiðslu. Það var ákveðið í félmn. af meiri hlutanum að lækka þennan þröskuld niður í 20%. Sama var með samþykkt samninga og miðlunartillögu en þar var líka um að ræða lækkun úr 33% í 25%. Í öllum þessum tilvikum, virðulegi forseti, var því komið til móts við þessi sjónarmið og ég spyr: Finnst mönnum það óeðlilegt, við skulum segja í 100 manna verkalýðsfélagi, að gerð sé krafa um að 20 menn, að 20 einstaklingar, taki þátt í atkvæðagreiðslunni? Finnst mönnum óeðlileg krafa að ætlast til þess að 11 manns úr 100 manna félagi þurfi a.m.k. að bera ábyrgð á því þegar boðað er til verkfalls? Boðun verkfalls er grafalvarlegt mál eins og margoft hefur komið fram og það er alls ekki vilji verkalýðshreyfingarinnar að standa í verkföllum út af fyrir sig. Þess vegna hefði ég haldið það, virðulegi forseti, að það væri ekkert óeðlilegt og gæti tæplega talist slæmt í sjálfu sér að á bak við kröfuna um verkfall og á bak við samþykkt samninga og á bak við afstöðuna til miðlunartillögu lægi fyrir raunverulegur, skýr vilji hreyfingar fólksins. Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég held að menn verði líka að ræða um af fullkominni sanngirni og hafa í huga að síðan eru möguleikar á póstatkvæðagreiðslu.

Loks vil ég nefna viðræðuáætlunina sem sumir hafa talið sér henta að reyna að gera tortryggilega. Ég held hins vegar að eitt af því athyglisverðasta sem hefur komið fram í þessari umræðu og í þessu frv. sé hugsunin á bak við viðræðuáætlanir. Ég vek líka sérstaka athygli á því að í áfangaskýrslunni sem ég nefndi áðan, áfangaskýrslu starfshóps félmrh. um samskiptareglur á vinnumarkaði er vikið að þessu með mjög jákvæðum orðum á bls. 37. Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Svo sem fyrr segir telur vinnuhópurinn það kappsmál að kjaraviðræður allra stétta og starfshópa fari að mestu fram samtímis bæði til þess að tryggja öllum aðild að viðræðum og stefnumótun og eins til þess að stuðla að því að kjaraviðræður einstakra hópa dragist ekki úr hömlu. Viðræðuáætlun sú sem áður er gerð að umtalsefni miðar að þessu og er þá gert ráð fyrir að áætlunin setji viðmið fyrir því hvenær samningum skuli lokið.``

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mjög mörg orð um þetta. Ég hef þegar reynt að fjalla um það sem mér finnst vera grundvallaratriði í þessu, þ.e. spurningunni um það hvort setja eigi lög um samskipti á vinnumarkaði svara ég játandi. Spurningunni um það hvort verið sé með þessari lagasetningu að ganga inn á og rjúfa og brjóta það félagafrelsi sem við viljum öll í heiðri hafa svara ég þannig að ég hef komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Og í þriðja lagi hef ég bent á að umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á frv. sem skipta máli. Ég tel að með þessari vinnu hafi verið gengið mjög til móts við gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar og ég held að það sé rétt að menn hafi það í huga þegar þessi mál verða afgreidd.