Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 15:14:35 (6353)

1996-05-21 15:14:35# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[15:14]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka fyrri orð mín um að náðst hefur fram fyrir atbeina stjórnarandstöðu og fyrir tilstuðlan verkalýðsfélaganna að draga verstu eiturbroddana úr frv. eins og það var, eins og það var samþykkt af ríkisstjórnarflokkunum er þeir lögðu það inn og ætluðu að keyra það í gegn helst á einni viku. Það er breytingin sem hefur orðið. Eftir stendur að þetta er gert án samráðs við verkalýðshreyfinguna og það er óþolandi að mál sem varðar kjör þjóðarinnar eins og þetta frv. gerir sé unnið á þennan hátt. Ég vil taka undir áskorun ASÍ-þingsins um að frv. verði dregið af borðum Alþingis og reynt að ná sáttum meðal aðila vinnumarkaðarins um hvernig með þessi mál verði farið.