Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 15:15:55 (6354)

1996-05-21 15:15:55# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[15:15]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að mér finnst þetta óskaplega sérkennilegur málflutningur. Það hefur legið fyrir og ég held komið fram í öllum fjölmiðlum að þetta þingmál hefur verið unnið í miklu samráði við verkalýðshreyfinguna. Það hefur verið sent verkalýðshreyfingunni til umsagnar og fengið eðlilega meðhöndlun og umfjöllun í félmn. Það hefur verið kallað eftir álitum manna, en auðvitað er það í lok dagsins þannig að þingið tekur sína lokaákvörðun, sína pólitísku ákvörðun. Það er auðvitað fráleitt og mótsagnarkennt að tala um það að við séum að keyra frv. í gegn með illu. Það er verið að takast á um þetta mál í þinginu með þeim hætti sem menn takast á um mál af þessu tagi, þar sem menn eru ósammála í ýmsum atriðum (Gripið fram í: Í krafti meiri hluta.) Og í krafti meiri hluta verður auðvitað niðurstaðan til. Það er einhvern veginn þannig sem þingræðið hefur virkað um aldaraðir, hv. þm. Ég veit ekki hvort það hefur ekki skilað sér alls staðar eða hvort félagsþroskinn er svo sérkennilegur í Alþfl. að menn skilja ekki að á endanum taka menn ákvörðun í krafti meiri hlutans. Ég fullyrði að í starfi félmn. Alþingis hefur þess verið gætt að hlýða á ýmis sjónarmið og þess sér stað í þeim breytingartillögum sem félmn. hefur þegar lagt fram og eru til umfjöllunar í dag.