Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 15:17:17 (6355)

1996-05-21 15:17:17# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, Frsm. minni hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[15:17]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var eitt og annað sem fram kom í ræðu hv. þm. sem ástæða væri til að gera athugasemd við, en ég get ekki látið hjá líða að minna enn einu sinni á það sem fram kom varðandi atkvæðagreiðslur og þá þröskulda sem verið er að setja í lögin.

Ég get verið þingmanninum innilega sammála um að það væri gaman að sjá mikla og virka þátttöku í öllum verkalýðsfélögum landsins. Það væri mikið ánægjuefni. En það er félaganna sjálfra að ákveða hvernig þau fara með sín innri mál og það er kjarni þessa máls sem við erum að ræða að hér er um óeðlileg og óæskileg afskipti stjórnvalda af frjálsum félagasamtökum að ræða. Það er meginágreiningurinn í þessu máli. Hér eru stjórnvöld að skipta sér af félagasamtökum sem eru varin af stjórnarskrá, sem eru varin af erlendum sáttmálum og það er auðvitað okkar megingagnrýni að hér er verið að ganga mun lengra en þessir alþjóðasáttmálar leyfa. Þetta er kjarni málsins. Frjáls félagasamtök eiga sjálf að ákveða hvernig þau haga sínum innri málum.

Ég get heldur ekki látið hjá líða, hæstv. forseti, að ræða það sem hv. þm. nefndi áðan í andsvari um samráð. Ég get ekki kallað það samráð þegar verið er að vinna mál í hróplegri andstöðu við þá sem eiga að fylgja lögunum eftir. Þeir sem eiga að vinna samkvæmt þessum lögum eru algerlega á móti þessari lagasetningu. Þótt ýmislegt hafi verið tekið út úr upphaflegu frv. sem augljóslega braut í bága við alþjóðasáttmála er því miður margt eftir sem gerir það að verkum að þetta frv. er ekki hægt að samþykkja, enda er það innri íhlutun í málefni frjálsra félagasamtaka í landinu.