Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 15:23:36 (6358)

1996-05-21 15:23:36# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[15:23]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. að það sem Lagastofnun hefur haldið fram frá eigin brjósti eru auðvitað hlutir sem menn geta deilt um. Það er sjálfsagt opið fyrir túlkun eins og flest það sem lögfræðingar setja frá sér um lögfræðileg álitaefni. Við vitum að lögfræðinga greinir oft á. Við í félmn. töldum að lögfræðingar þeirra stéttarfélaga sem eðlilegt væri að senda þessi mál til umsagnar væru á vissan hátt hlaðnir gildismati sinna umbjóðenda og því væri eðlilegt að reyna að kalla eftir áliti Lagastofnunar. Það gerðum við.

Ég skal viðurkenna að eðlilega er ýmislegt af því sem Lagastofnun segir þess eðlis að menn getur greint á um það. En tæplega vefengja menn þó að rétt sé frá sagt þegar verið er að vitna í álit Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO. Ég a.m.k. hef ekki orðið var við það hingað til að menn hafi haldið því fram að Lagastofnun hafi verið að rangtúlka eða segja rangt frá þegar hún er að rekja efnislega athugasemdir og niðurstöður ILO. Það var það sem ég var að segja áðan. Ég vitnaði til þess að samkvæmt tilvitnun Lagastofnunar Háskóla Íslands hefði þessi ágæta, alþjóðlega stofnun haldið því fram að fallast megi á að sett séu lög í þeim tilgangi að styrkja meginreglur lýðræðis innan stéttarfélaga. Leynileg og bein kosning falli vissulega undir lýðræðislega stjórnarhætti og verði ekki gagnrýnd sem slík. Mér finnst þessi setning vera ákaflega skýr.