Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 16:21:44 (6362)

1996-05-21 16:21:44# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, Frsm. minni hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[16:21]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil það svo að hér var hv. þm. að segja frá trú sinni og von hvað varðar framtíðina. Ég hygg því miður að bæði sú lagasetning sem við erum að ræða hér og hitt frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna stefni einmitt í þveröfuga átt og að þau tíðindi sem m.a. hafa borist af endurskoðun laga um fæðingarorlof bendi einmitt til þess að það eigi að jafna niður á við en ekki að jafna réttindi. Menn mega því heldur betur taka sig á ef það á að takast að stefna í þá átt sem hv. þm. var að lýsa.

Ég ætla að koma að því í annari ræðu. Ég rakst á glænýja og mjög athyglisverða grein sem heitir Workers and the world economy þar sem bandarískur hagfræðingur er að lýsa þróun á vinnumarkaði bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. (Gripið fram í: Hún er ekki í anda Páls Péturssonar.) Nei, ekkert í hans anda, ég get fullvissað þingmanninn um það. Þetta eru mjög athyglisverðar hugmyndir þar sem meginniðurstaðan er sú að ef ríki Vesturlanda taki sig ekki stórlega á hvað varðar félagsleg réttindi og það að taka á atvinnuleysi og launamun, standi Vesturlönd frammi fyrir geigvænlegum vandamálum og jafnvel ákveðinni endurtekningu á því sem gerðist á þriðja og fjórða áratugnum í sögu okkar og menn eru auðvitað búnir að gleyma fyrir lifandi lögnu. Þetta er mjög athyglisverð grein og kemur einmitt inn á þessa umræðu vegna þess að hér er einmitt verið að ganga í þá átt að skerða réttindi, gera verkalýðshreyfinguna valdaminni en hún hefur verið, ganga inn á þessar nýsjálensku brautir sem Nýsjálendingar sjálfir eru að gefast upp á þannig að hér er auðvitað verið að stefna í svo þveröfuga átt að maður getur varla annað en tárast yfir þessum ósköpum.