Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 16:50:28 (6366)

1996-05-21 16:50:28# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[16:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að tillögur ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur eru samkvæmt forskrift úr Garðastræti. Það er engin tilviljun að bæði Vinnumálasambandið og Vinnuveitendasambandið hafa ítrekað lýst yfir stuðningi við ríkisstjórnina í þessu efni. Hæstv. ráðherra sagði áðan að það kæmi öllum við hvernig málum væri skipað á þessum vettvangi, hvaða leikreglur og hvaða lög væru við lýði. Það kemur líka öllum við, hæstv. félmrh. þegar ríkisstjórn Íslands klúðrar þessum málum með þeim hætti sem hér er verið að gera og hleypir öllu í uppnám á vinnumarkaði.

Hæstv. ráðherra sagði í máli sínu áðan að með þessum lagabreytingum væri verið að tryggja félögum í verkalýðshreyfingunni áhrif á samninga og ákvarðanatöku. Það er öllum frjálst að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Það sem verið er að gera með þessari lagasetningu er að það er verið að þvinga fólk til að gera það með tilteknum hætti. Það er t.d. verið að leggja bann við því að fjölmennir fundir verkamanna í Austurbæjarbíói, hinir fjölmennu Dagsbrúnarfundir, taki þar ákvörðun um að veita sinni forustu heimild til að lýsa yfir verkfalli. Hæstv. ráðherra skýrir ekki fyrir okkur á hvern hátt nákvæmlega þær tillögur sem hér er verið að setja fram eða þær lagabreytingar muni stuðla að launajöfnuði eins og hann hefur ítrekað sagt. Hann hefur líka sagt héðan úr ræðustól að launakjör séu of slök á Íslandi og verkalýðshreyfingin eigi að snúa sér að því að fá þar úr bætt. Nú vil ég beina spurningu til hæstv. ráðherra: Á hvern hátt munu þessar lagabreytingar sem hann talar hér fyrir bæta launakjörin?