Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 17:04:14 (6375)

1996-05-21 17:04:14# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[17:04]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Alltaf bætist í fúkyrðaflaum hæstv. félmrh. um verkalýðshreyfinguna og fulltrúa hennar. Í ræðu hans hér áðan fór hann í nokkrum niðrunartóni orðum um það að fulltrúi launafólks á Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf í sumar kæmi væntanlega til með að bera þar fram mótmæli sín, nánast vera með ólæti, á kostnað félmrn. sem mundi væntanlega greiða fyrir hann ferðakostnað sem og dvalarkostnað. Ég má til með að svara þessu og benda hæstv. félmrh. á að fara nú að kynna sér örlítið betur það sem viðkemur Vinnumálastofnuninni og starfi hennar. Samkvæmt stjórnarskrá stofnunarinnar sem íslenska ríkið er skuldbundið af þá er það skylda hæstv. félmrh. að sjá til þess að fulltrúi launafólks sem og atvinnurekenda og ráðuneytisins fari á þingið. Það gildir jafnt, herra forseti, hvort sem hæstv. félmrh. líkar málstaðurinn sem fulltrúi launafólks ætlar að flytja þar eða ekki.

Hann sagði líka hér áðan að ja --- ég vil segja að hann hafi nánast haft frammi einu sinni sem oftar hótanir um að það væri hægt að fara að kíkja örlítið á neikvæða félagafrelsið, það hefði ekki verið lögleitt enn þá. Má ég benda hæstv. félmrh. á að það var bundið í stjórnarskrá í fyrra, fyrir u.þ.b. ári síðan og þar var jafnframt tekið fram í skýringum í umræðum í tengslum við setningu þessa ákvæðis að núverandi skipulag á vinnumarkaði stæðist þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Hæstv. félmrh. getur því örlítið sparað sér að vera hér með hótanir og endalausan fúkyrðaflaum í garð launafólks og samtaka þess.